Skírnir - 01.09.1990, Síða 214
466
SIGURÐUR A. MAGNÚSSON
SKÍRNIR
prentun ljósmynda varð tiltæk. Þó gjarna sé talað um myndmál í sambandi
við ljósmyndun, er ástæða til að leggja áherslu á þann grundvallarmun sem
er á ritmáli og myndmáli. Ljósmyndin talar einungis í einstökum atriðum og
hlutbundnum táknum. Ólíkt orðum og setningum leiðir ljósmyndin ekki í
ljós hugmynd um veröldina nema þegar við grípum til orða til að breyta
ljósmyndinni í hugmynd. Ljósmyndin getur ekki fjallað um það sem er
ósýnilegt, fjarlægt, innvortis, afstrakt. Hún fjallar ekki um „manninn“, heldur
einhvern tiltekinn mann, ekki um „tréð“, heldur eitthvert ákveðið tré. Það er
hvorki hægt að ljósmynda náttúruna né hafið, heldur einungis afmarkaða
parta þeirra, klett í ákveðnu ljósi, öldu frá tilteknu sjónarhorni. Ljósmyndin
getur ekki fjallað um sértæk hugtök einsog sannindi, sóma, ást, lygi. Það er
tvennt gerólíkt að sjd eitthvað eða tala um það. „Myndir verður að skoða, orð
verður að skilja,“ sagði Gavriel Salomon.1 Með því átti hann við, að ljós-
myndin sýni veröldina sem hlut, málið sýni hana sem hugmynd. I náttúrunni
er hvorki til hugtakið „maður" né „tré"; þar er einungis flæði og óendanleg
fjölbreytni. Ljósmyndin skráir og frægir einstaka þætti þessarar margbreytni.
Málið gerir þá skiljanlega.
Heimur ljósmyndarinnar er öðru fremur heimur staðreynda, ekki um-
ræðu um staðreyndir eða niðurstöður sem af þeim má draga. En það merkir
alls ekki að ljósmyndin sé laus við þekkingarfræðilega hlutdrægni eða
hleypidóma. Einsog Susan Sontag hefur komist að orði, þá gefur ljósmyndin
í skyn, „að við þekkjum veröldina, ef við viðurkennum hana einsog mynda-
vélin skráir hana.“2 En einsog Sontag bendir líka á, þá hefst skilningurinn á
því að viðurkenna ekki veröldina einsog hún birtist okkur. Við ófalsaða
ljósmynd verður vitanlega ekki deilt, en hún tjáir ekki önnur sannindi en þau
sem felast í andartakinu sem hún hefur fangað.
Ljósmyndin skráir líka mannlega reynslu með allt öðrum hætti en málið.
Talað, skrifað eða prentað mál verður því aðeins skiljanlegt, að það birtist í
samfelldri röð staðhæfinga eða yrðinga. Merkingin brenglast þegar orð eða
setning er rifin úr samhengi, þegar hlustandi eða lesandi fær ekki að vita hvað
kom á undan og hvað fer á eftir. En ljósmynd verður aldrei rifin úr samhengi,
einfaldlega vegna þess að hún er ekki í neinu samhengi. Hlutverk hennar er
þvertámóti að einangra einstaka þætti eða drætti, svo þeir verði sýnilegir á
nýjan hátt. I heimi ljósmyndarinnar, segir Susan Sontag, „virðast öll mörk
handahófskennd. Það má skilja hvað sem vera skal sundur, gera það sam-
hengislaust. Það þarf ekki annað en ramma viðfangsefni öðruvísi.“ Hér á hún
við getu ljósmynda til að slíta veruleikann í sundur, rífa augnablikið úr sam-
hengi, stilla saman hlutum eða atburðum sem hafa ekkert sögulegt eða rök-
legt samband. Á nákvæmlega sama hátt og ritsíminn endurskapar myndavélin
veröldina í mynd sérkennilegra eða sérviskulegra viðburða, þarsem hvorki er
upphaf, miðja né endir. Veröldin er sundruð. Andartakið eitt skiptir máli, og
það þarf ekki að vera hluti af neinni framvindu eða sögu sem verði sögð.
1 Gavriel Salomon: Interaction of Media. Cognition and Learning, San Francisco
1979, bls. 36.
2 Susan Sontag: On Photography, New York 1977, bls. 20.