Skírnir - 01.09.1990, Blaðsíða 215
SKÍRNIR
AÐ SKEMMTA SÉR TIL ÓLÍFIS
467
Nú er myndgerð að minnstakosti þrisvar sinnum eldri en ritmál, þannig
að boðskipti hennar voru ævagömul og vel þekkt á síðustu öld. Það sem var
hinsvegar byltingarkennt og afdrifaríkt var, að ljósmyndin og henni skyld
tækni var leidd til öndvegis í allri fjölmiðlun og ýtti ritmáli til hliðar af æ
meira offorsi, jafnt í auglýsingum sem fréttum, veggspjöldum sem viku-
blöðum, og gróf þannig smátt og smátt undan hefðbundinni skilgreiningu á
upplýsingum, fréttum og að verulegu leyti á veruleikanum sjálfum. Hið forna
spakmæli, að sjón sé sögu ríkari, varð viðtekið lögmál með afleiðingum sem
blasa við um heim allan og ekki verður séð fyrir endann á.
Ljósmyndin og fréttaskeytið sórust í fóstbræðralag um að sundra
veruleikanum. Það er kannski hnýsilegt í þessu samhengi, að krossgátan varð
ákaflega vinsæl vestanhafs um svipað leyti og ljósmyndin og símskeytið
höfðu breytt fréttum úr hagnýtum upplýsingum í samhengislausar
staðreyndir. Tæknin hafði snúið hinu aldagamla vandamáli upplýsinga-
öflunar á haus: Áður hafði fólk leitað upplýsinga til að hjálpa sér í lífs-
baráttunni; nú bjó það stöðugt til nýtt samhengi þarsem not væri fyrir gagns-
lausar upplýsingar. Krossgátan er eitt dæmi um þetta, kokkteilpartíið annað,
spurningaþættir í útvarpi og sjónvarpi það þriðja, en kannski er langbesta
dæmið hið nýja og afarvinsæla spil „Trivial Pursuit“. Úrþví ekki er hægt að
nota upplýsingar í hagnýtu skyni eða til aukins þroska, þá má allavega nota
þær til afþreyingar. Mannkynið siglir hraðbyri inní áhyggjulausa leiki
bernskunnar þarsem hver andrá er sjálfri sér næg, fortíð og framtíð skipta
litlu eða engu máli, þarsem sagan verður viðfang sérvitringa og óminnið æðsta
hnoss. Að sjálfsögðu er ekkert rangt við að byggja loftkastala einsog börnum
er tamt, en málið vandast þegar menn hugsa sér að búa í þeim einsog sjón-
varpið ætlar okkur í römmustu alvöru að gera.
VII
í seinni hluta bókar sinnar fjallar Postman í ýtarlegu máli og með fjölmörgum
skilvísum dæmum um ástand fjölmiðlunar í Bandaríkjunum og áhrif hennar
á opinbera umræðu, stjórnmálabaráttu, trúboð, menntun og almenn viðhorf
til manna og málefna, og væri vissulega ástæða til að gera umfjöllun hans
rækiieg skil, en hér verður að fara fljótt yfir sögu.
Postman segir að sjónvarpið sé algerlega á valdi fjármagnsafla og móti í
öllum greinum heimsmynd Bandaríkjamanna. Sjónvarpsstöðvar líti ekki á
það sem hlutverk sitt að selja neytendum dagskrárefni, heldur að selja
auglýsingafyrirtækjum neytendur. Dagskrárefni sé hannað með það eitt fyrir
augum að halda sem stærstum hópi áhorfenda fyrir framan sjónvarpsskjáinn
sem allra lengst, svo dæla megi í hann ómældu magni auglýsinga. Bandarískur
meðaljón horfi á sjónvarp að meðaltali átta stundir á dag. Fimm ára barn hafi
þegar horft á sjónvarp í 5.000 klukkustundir og átján ára unglingur í 16.000
stundir. Hálfsjötugur Bandaríkjamaður hafi horft á ekki færri en tvær
milljónir auglýsingaþátta.