Skírnir - 01.09.1990, Page 218
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
Myndbrot frá barnæsku
I tilefni af sögum Gyrðis Elíassonar
Gangandi íkorni
Mál og menning 1987
Bréfbátarigningin
Mál og menning 1988
Það fyrsta, sem ég held ég muni eftir í þessum
heimi, er svört líkkista. Eg sat á innsta rúminu
austanmegin í baðstofunni og horfði út að
glugganum.
Þórbergur Þórðarson: Steinarnir tala
Hlutur sem borar holur í myrkur er
ómissandi.
Gangandi íkorni
Maður gengur út í morgunsárið, eftir þungar draumfarir eða drykkju, eftir
miklar geðsviptingar eða furðulegan doða, horfir brostnum augum í kringum
sig og sér allt dregið óhugnanlega skörpum dráttum; umhverfið nýtt og
brotið í senn. Maður verður gestur í tilverunni, frummaður eða barn, allt er
undirorpið skyndilegum ummyndunum: hlutir, litir og ljósbrot öðlast nýtt
vægi og hafna í nýju samspili. Slík umskipti geta líka orðið með þeim hætti
að það er sem beittum hnífi sé brugðið snarlega um hug manns; einhverju er
svipt í sundur og maður er líkt og í stökki frá draumi til draums.
Slík andartök tilvistar er að finna í verkum Gyrðis Elíassonar; maður lifir
þessi augnablik í textanum, oft næsta draumkennt, en vökulir rýnendur geta
einnig bent á hve hnitmiðað höfundur vinnur með þau táknrænu fyrirbæri
sem ég hef þegar gripið til: augu, og raunar margskonar sjóngler, hnífa,
ljósgeisla, draum, myndbrot. Á þessu sést hvernig Gyrðir leitast við að sætta
tvær tilhneigingar sem ekki eiga einatt samleið: þrána eftir flæði óheftrar
skynjunar, og viljann til formfestu og stílaga. Víða lánast Gyrði sú
þversagnarkennda list að láta sundrun og fágun verða eitt. Lesandi sem lætur
sig berast með myndastraumnum af einskærri nautn verður þess var að það
er þrátt fyrir allt einhver hrynjandi í ferð hans um verkið; rýnanda sem
dásamar fastmótaða hönnun og byggingu í sköpunarverkinu kann hinsvegar
að bregða við; það brakar í textanum.