Skírnir - 01.09.1990, Blaðsíða 219
SKÍRNIR
MYNDBROT FRÁ BARNÆSKU
471
Konan og bernskan
Tvö áleitin viðmið og viðfangsefni sem ruddu sér til rúms á síðustu áratugum
í íslenskri sagnagerð eru konan og bernskan. Fyrst kom konan, í sögum
Svövu Jakobsdóttur {Tólf konum, 1965, og öllum þeim er á eftir fylgja) og
Jakobínu Sigurðardóttur (í Dœgurvísu, 1965, en þó enn frekar í I sama klefa,
1981). Líf og vandamál nútímakonunnar urðu síðan mikið áhugamál nýraun-
sæisins, einsog sjá má í sögum einsog Einkamálum Stefaníu (1978) eftir Ásu
Sólveigu og Sólinni og skugganum eftir Fríðu Á. Sigurðardóttur (1981). En
þetta áhugamál var ekki einskorðað við bókmenntir eftir konur, því karl-
höfundar tóku þátt með verkum einsog Eftirþönkum Jóhönnu eftir Véstein
Lúðvíksson (1975), Eldhúsmellum eftir Guðlaug Arason (1978) og
Galeiðunni eftir Ólaf Hauk Símonarson (1980).
Síðan tók þetta viðmið að kalla á karlleg andsvör, jafnvel hjá þessum sömu
karlhöfundum, og hef ég þá í huga sögurnar Maður og haf eftir Véstein (1984)
og Sóla, Sóla eftir Guðlaug (1985). Yfir aðrar karlabókmenntir sem geyma
viðbrögð við Konunni rís þó skáldsagan Hjartað býr enn í helli sínum eftir
Guðberg Bergsson (1982).
En athygli hafði þá nokkuð færst frá þessari umræðu, þessari kynjasam-
ræðu sem innbyggð er í sagnagerðina, og beinst að af nýju viðmiði: Bernsk-
unni. Afdrifaríkasta verkið í þessu sambandi er Punktur punktur komma
strik eftir Pétur Gunnarsson (1976). Síðan mætti nefna þá sögu Péturs sem á
eftir fylgdi, en einnig sögur eftir Ólaf Gunnarsson og svo þá höfunda sem
hvað mest hafa verið í sviðsljósinu undanfarinn áratug, þá Einar Má
Guðmundsson og Einar Kárason.
Að sjálfsögðu eru bernska og uppvaxtarár ekki ný viðfangsefni í bók-
menntum. Þetta er til að mynda meginþáttur í sögum Charles Dickens, en
hann var einn þeirra höfunda sem „uppgötvuðu" að börn eru ekki lítið
fullorðið fólk heldur manneskjur sem skynja heiminn á öðrum forsendum,
svo jafnvel má segja að þau séu í „öðrum“ heimi.1 Börn og bernsk sjónarhorn
leika mikilvægt hlutverk hjá fleiri þekktum sagnamönnum heims-
bókmenntanna, svo sem Mark Twain, Marcel Proust, Gúnter Grass. Og
bernskan hefur ekki alltaf verið hornreka í íslenskri sagnagerð; Fjallkirkja
Gunnars Gunnarssonar er hér fyrirferðarmikil, en einnig koma í hugann
skáldsögurnar Eg á gullað gjalda eftir Ragnheiði Jónsdóttur (1954), Brekku-
kotsannáll eftir Halldór Laxness (1957) og Músin sem lœðist eftir Guðberg
Bergsson (1961). Að öðrum ólöstuðum er þó Þórbergur Þórðarson sá höf-
1 Rétt er að taka fram að umfjöllun mín nær ekki til barnabókmennta, heldur geng
ég útfrá verkum með formgerð sem gerir ráð fyrir væntingum og sjónarhorni
fullorðins lesanda (sem vitaskuld kemur ekki í veg fyrir að börn geti notið slíkra
verka á sinn hátt). Hér á eftir verður raunar vikið að tilraunum til að eyða muninum
á barna- og fullorðinsbókum.