Skírnir - 01.09.1990, Side 226
478
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
SKÍRNIR
í umhverfi sínu. í skáldsögu sinni Le Grand Meaulnes (1913) lýsir franski
rithöfundurinn Alain-Fournier því hvernig hin unga söguhetja finnur „í raun
og veru“ þennan sælureit sem oft er einungis til í ímynduninni; drengurinn
finnur húsið í skóginum, vininn góða og stúlkuna sína. Alain-Fournier sýnir
listilega hvernig slíkir afheimar bernskunnar geta ljáð henni goðmagn sem
hefur djúpstæð áhrif á veruleikaskynjunina á gjörvöllu æviskeiðinu. Bernskan
er hylur sem margir fiska í þegar þeir leita skilnings á lífsferli sínum.
En þetta dæmi minnir okkur líka á að afheimar bernskunnar eru oftar en
ekki tengdir ævintýrum landvinninga og þá er stutt yfir í strákamenninguna.
Eru ótal drengjasögur, til dæmis Robinson Crusoe (sem í styttri gerðum hefur
löngum verið vinsælt barna- og unglingaverk), sögurnar um Tarsan
apabróður og Prins Valiant og sögur Sir Rider Haggards um Afríkufarann
Allan Quartermain, ekki augljós afurð útþenslu- og heimsvaldastefnu hins
vestræna karlveldis?
Það væri efni í sérstaka ritgerð að kanna hvernig Gyrðir vísar í og vinnur
úr lesefni bernskuára í sögum sínum - þar á meðal sögum um Prins Valiant
og Allan Quartermain, sem báðir leika hlutverk í Gangandi íkorna (sjá bls.
18-19,49 og 119). En hjá Gyrði eru slíkar hetjur í félagsskap annarra vera af
ýmsum og ólíkum toga; Heiða í „Tréfiski" dvelur í sveit hjá einskonar „afa“,
líkt og nafna hennar í Alpasögunni frægu, Sigmar í Gangandi íkorna er að
nokkru leyti hliðstæða Lísu í Undralandi í samnefndri sögu Lewis Carroll;
og Gyrðir vísar til ýmiss annars efnis, einsog sögunnar um dverginn Rauð-
grana og ævintýrisins um stígvélaða köttinn, en þeir hafa báðir gert víðreist
um hugarheima íslenskra barna; en auk þess eru ýmsar tengingar við drauga-
sögur sem og þjóðsögur almennt.
Þessar sögur eru mikilsverður hluti þess efniviðar sem frjór barnshugur
vinnur úr við smíði afheima sinna - en um leið eru þær hluti af efniviði
skáldsins sjálfs við smíði bernskuheimsins. Hér kemur enn fram samspil og
togstreita lifaðrar og skrifaðrar barnæsku. I Gangandi íkorna er íkorninn
einskonar tengiliður í þessu tilliti; hann er „barn“ en þó er hann líka
„rithöfundur", því líkt og Axel í „Tréfiski" kveikir hann á leslampa og skrifar
í kompu sína:
... og hérna í forstofunni er persnesk motta ofin mynstri sem minnir
á blá fjöll í órafjarska, sítrónutungl, vængjað ský og breiður af svefn-
grasi. Sennilega er það ungversk þjóðsaga sem hefur innrætt mér
þennan ótta við draumsóleyjar ... (bls. 71)
Hversdagslegir hlutir senda ímyndunina í innri hnattferð og lesnar sögur
reynast vera lifandi þáttur í veruleikaskynjun. Hinir innri afheimar í sögum
Gyrðis eru því að talsverðu leyti af útlenskum toga, spunnir úr erlendum
bókum og myndefni ekki síður en bernskumyndum af íslensku sögusviði.
Þótt ævintýri og svaðilfarir í sögum Gyrðis séu merkt leikþörfinni situr
hún ekki ein að hinu óstýriláta ímyndunarafli. Og raunar ber lítið á þeim
stöðum sem oftast eru vettvangur leikja í drengjasögum. Til dæmis er vart
minnst á skólann, einn helsta mælikvarða á félagslíf og samskipti í sögum um