Skírnir - 01.09.1990, Síða 228
480
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
SKÍRNIR
tákn; það vísar til villugjarnra ferða inn í afheima bernskunnar og það ýjar að
eðli skáldverksins sem hýsir bæði dýr og menn en á enga útgönguleið handa
þeim. En ég les líka ábendingu um það að bernskan sé völundarhús sem
maður getur verið að villast í ævina á enda.
Kista ogfrosinn tími
Og samt er nóttin
ekki slæm
hún ber syfjuleg með sér
þennan trékassa hvert sem
hún fer og ofan í honum
iða draumarnir einsog
blindir músarungar
Gyrðir Elíasson1
Sigmund Freud segir í áðurnefndri grein sinni að áhrifamikil reynsla veki með
rithöfundinum minningu um fyrri reynslu, oftast úr bernsku, sem síðan
kveiki langanir eða óskir er hann uppfyllir í skáldskapnum.2 Þetta er
auðveldast að sjá í verkum sem „endurskapa", samkvæmt epískum lög-
málum, sögusvið bernskunnar og leiksins, svo ekki sé nú talað um miklar
frumtilfinningar sem höfundur freistast til að lýsa fjálglega, til dæmis söknuð
og trega er missir móðurhlýjunnar vekur. Slík verk vekja oft mjög þægilega
nostalgíu með lesanda, sem getur „fundið" sig þarna - í sjálfum missinum -
sem heildstæða sjálfsveru.
í sögum Gyrðis er bilið milli lifaðrar og skrifaðrar bernsku ekki brúað á
svo einhlítan hátt. Dýpsta reynsla bernskunnar er hjúpuð þögn, og að segja
sögu hennar er að semja af-leitt tilbrigði við hana. Jafnvel má segja að
skráning bernskunnar samsvari oft missi hennar; að skrifa hana er þá að glata
henni. Sé áhersla lögð á sögulega hlið bernskunnar, og saga hennar sniðin eftir
þeim veruleikalögmálum sem fullorðnir fylgja og kenna börnum sínum, þá
kann að glatast sá safi, sú kvika, sem sérkennir bernskuna sem tilverustig og
sjónarhorn á heiminn. Brúin á milli bernsku og þroskaára er aldrei þar við
höldum hana vera; bernskan verður ekki höndluð með þeim sögulegu og
efnislegu kröfum sem við gerum til umhverfis okkar, því hún er af öðrum
heimi. Gyrðir segir nokkurn veginn þetta með dæmisögu sem hann laumar
í bernskuminningar Axels í „Tréfiski". Ásamt bróður sínum fangaði Axel eitt
sinn litskrúðugt fiðrildi og setti í krukku. „Um kvöldið lá fiðrildið á botn-
inum, hálfgagnsætt, allur litur af því, varla mótaði fyrir vængjum. Það hafði
velt sér upp úr sykrinum og hann bráðnað utan um það og storknað í stökkan
1 Úr ljóðinu „Sú ágæt ein“, Tvö tungl, Mál og menning, Reykjavík 1989, bls. 55.
2 Freud: „Der Dichter und das Phantasieren", bls. 221.