Skírnir - 01.09.1990, Page 231
SKÍRNIR
MYNDBROT FRÁ BARNÆSKU
483
Marcel Proust spann mikinn söguheim úr slíkum augnablikum bernskunnar
sem þiðna síðar á ævinni. I þeim getur búið mikil skapandi kvika. En slíkt
tímahólf getur líka verið fangaklefi; augnablik sem maður er ævinlega frosinn
í. Skáldsagan Svo berist ekki burt með vindum hverfist einmitt í kringum slíkt
augnablik. Sögumaður reynir eftir megni að halda sér við sögur sem eiga sér
stað áður en kemur að þessu broti, einsog hann ætli að reyna að semja sig
framhjá því. Hann fer í leik sem leiðir til dauða; við slíkar aðstæður kemur
enn betur fram en ella að bernskan er brotaheimur fullur af þrá eftir frásögn.
Jafnvel hamborgarinn, sem hann hefði getað keypt sér í stað byssuskota,
býður upp á ótal möguleika. Venjulegustu hlutir verða fullir af góðri merk-
ingu. En hann verður að horfast í augu við það sem er þó óskiljanlegt, dauða
Davíðs, draumavinarins. (Sem vel að merkja endar lífdaga sína í eplagarði.)
Þetta verður brú sögumanns úr bernskuheiminum yfir í „raunveru-
leikann“, brú sem hrundi um leið og farið var yfir hana. Slíkt fall, sem birtir
okkur landamörk bernskuheimsins, hefur mátt sjá í ýmsum myndum í
nýlegum bernskufrásögnum íslenskra höfunda sem ég hef þegar vikið að. í
hugann koma drukknun Möggu í Punkturpunktur komma strik eftir Pétur
Gunnarsson, hrap Garðars í Riddurum hringstigans eftir Einar Má Guð-
mundsson, snjóflóðið í Kaldaljósi Vigdísar Grímsdóttur og áðurnefnd
drukknun Heiðu í „Tréfiski" Gyrðis. Einnig má nefna það er Friðrik gengur
í sjóinn, í lokasögunni í Bréfbátarigningunni. Og ekki síst eldbylgjuna sem
er einskonar heimsendatákn í Gangandi íkorna.
En slík augnablik dauða og eyðingar kunna einnig að vega gegn þeirri for-
tíðarþrá, „nostalgíu", sem oft er í ætt við bernskusýn. í sagnalist samtímans
tíðkast mjög að laða fram áru einhvers liðins en þekkjanlegs tímaskeiðs. Þetta
er meðal annars gert á þann hátt að samfara grípandi söguþræði fer fram
einkonar sögusýning þar sem slík tímanna tákn (það sem á ensku er stundum
nefnt „period touches“) eru sett á svið, án þess að um sögulegar skáldsögur
sé að ræða. Hendingar úr gömlum slagara, viss fatatíska, ákveðnar bíla-
tegundir og hverskonar vörumerki, eða tíma- og staðbundin einkenni, geta
kynt undir epískri þrá okkar eftir horfnum heimi, veröld sem var - og skiptir
þá oft litlu hvort við þekkjum hið sögulega samhengi af eigin raun eða ekki.1
Lýsingar, hugsanir og skynjanaferli í texta Gyrðis einkennast oft af nostri
við smáatriði, þar sem til að mynda vörumerki eru oft tilgreind - enda leika
þau ekki sitt venjulega hlutverk í þeim goðsagnaheimi sem veruleikinn getur
verið börnum. „Half and Half“ var ekki vörumerki í barnshuga mínum;
orðin voru ráðgáta en um leið tákn fyrir allt það sem snerti pípureykingar afa
míns. Ég naut þess því að sjá Half and Half hverfa ofan í pípuna hans Axels
í „Tréfiski". Gyrðir gerir margt til að töfra fram anda liðins tímaskeiðs -
maður hefur jafnvel á tilfinningunni að hann tali til manns í gegnum sveita-
símann sem fyrir ber í sögum hans. En þetta er þó ekki gert til að ylja sér við
nostalgíu í dreifbýlinu (þar sem sögur Gyrðis eiga sér yfirleitt stað). I fyrsta
1 Þetta ræði ég lítillega í greininni „Hvað er póstmódernismi? Hvernig er byggt á
rústum?“, Tímarit Máls og menningar, 4. hefti, 1988, sjá bls. 439-441.