Skírnir - 01.09.1990, Blaðsíða 232
484
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
SKÍRNIR
lagi má greina glettna vitund textans um eigin aðferð og sérvisku - og þetta
skopskyn sýnist mér vera vaxandi einkenni á höfundarverki Gyrðis - t.d.
þegar Friðrik í sögunni „Sumarhús“ finnur „búð sem seldi gamla sér-
vitringsmuni“ (BR, bls. 123), en þetta gæti verið vísun á sjálfa höfundarsmiðju
Gyrðis. í öðru lagi er hinn epíski heimur, eins tær og hann er í mörgum
myndum sem Gyrðir dregur upp, aldrei sjálf-stæður; hann er undirorpinn
myndhverfingarhvöt sem er einskonar náttúruafl í fagurfræði Gyrðis.
Myndmál og rýni
Að skrifa bernskuna, án þess að svíkja hana með einfaldri þroskasögu, er að
leggja frá sér margfaldar umbúðir sem safnast hafa á mann í tímans rás. En
myndbrot úr barnæsku, einsog þau sem Axel skrifar í „Tréfiski“, verða þó
ekki skrifuð nema á slíkan umbúðapappír. Hér erum við enn á mótum
lifaðrar og skrifaðrar bernsku - hvernig getur skáldið notast við mál sem
bernskan neitar að tala? Sem viðfang málsins er bernskan að þessu leyti
einsog ástin, listin og náttúran. Hún er þögn sem talar. Axel kemst næst henni
þegar hann sest við eldhúsborðið „með stafla af gömlum Tíma“:
Hann braut saman svo marga bréfbáta að brátt var borðið þakið
þéttletruðum fleytum. Regn streymdi niður fyrir utan. Þegar blöðin
voru uppurin safnaði hann bátunum saman og bar út í gegnum
þvottahúsið. Hann raðaði þeim útundir vegg, hjá rænfanginu. Horfði
á dropana læsa sig í fregnir af eldsvoða, sprengjutilræðum, kosningum
í Finnlandi.
„Af hverju gerðirðu þetta?“ spurði Heiða þegar hann var kominn
inn aftur. Hún var ráðvillt á svip.
„Æ, maður gerir svo margt í vitleysu."
Hann sagði ekki fleira. (BR, bls. 19)
Þetta er einkennilegt athæfi, og ber keim af ritúali, helgiathöfn sem er
melankólísk en þó full af leik. I texta Gyrðis er hún jafnframt einskonar æðri
myndgerving, eða það sem ég vil kalla myndvarp. Hún er myndræn orðræða
sem varpar ljósi á alla söguna sem hún er í og teygir túlkunaranga út um hana,
en tjáir jafnframt eitthvað annað en það sem kemst til skila í frásögn. Við
getum vissulega reynt að festa hendur á myndvarpi sem þessu. Þetta eru
bréfbátar úr „gömlum Tíma“: hin hefðbunda tímaskynjun og venjuleg fortíð
eru hér brotnar saman; fréttunum rignir niður með vatnsdropunum, því hér
er um að ræða tjáningu sem situr eftir þegar dægurtíðindi eru gleymd;
einhverja fórn sem færð er (lífinu, fortíðinni?). Og eru „bréfbátar í rigningu"
ekki líka mynd sem nálgast viðkvæma kviku og flæði bernskunnar jafnt sem
skáldskaparins? Ef til vill eru hér einnig tengsl við Nóaflóð - og þá um leið
við það „syndafall" sem lokar bernskuheiminum en getur jafnframt opnað
sár og vakið frásagnarþrá til hans.