Skírnir - 01.09.1990, Qupperneq 234
486
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
SKÍRNIR
augnablik í loftinu, tóku svo að falla. Ekki hratt, heldur einsog hvor um
sig vægi ekki þyngra en ein fjöður. íkorninn ætlaði að hlaupa til og
grípa þær í fangið áður en þær lentu á steinsteypunni, en þá fékk hann
appelsínu í höfuðið og allt varð óskýrt. (G7, bls. 82-83)
Þetta kann að minna á súrrealísk myndskeið í skáldsögum annars mynda-
smiðs í íslenskri sagnagerð. Það er raunar sem Gyrðir kinki kolli til Thors
Vilhjálmssonar í lýsingu á kvikmynd sem íkorninn horfir á og botnar ekki í.
Þar er lýst tilþrifamiklum samskiptum karls og konu; síðan: „Fyrirvaralaust
sér yfir endalausa eyðimörk. Ofursterk sól, og tveir punktar á hreyfingu,
mjakast nær. Þeir koma yfir hæð, og þá sést að þetta eru mannlausir úlfaldar.
Þeir sökkva djúpt í sandinn, hnjóta annað veifið. Samsíða rispur í filmuna
gefa hugmynd um sandstorm" (G7, bls. 97).
En þetta eru ólíkir höfundar. Thor er barokkmeistari sem í skáldsögum
sínum hleður textann hverri myndbyltingunni á fætur annarri, flakkar á milli
atburða- og tímasviða og erfitt getur verið að finna söguþráð, séu lesendur að
leita þess haldreipis.1 Gyrðir er sparari á myndir sínar og styttri í spuna, auk
þess sem auðvelt er að fylgja söguþræði í myndvefnaði hans. Hin skýra
efnislega tímarás, ásamt fáguðum og aðgengilegum stíl, geta jafnframt vakið
þá kennd með lesanda að allt táknkerfið í sögum Gyrðis sé í miklu jafnvægi
og búi jafnvel yfir heiðríku samræmi. Maður fer þá að gefa gaum að þeirri
hrynjandi sem ég vék að í upphafi; hún felst í ýmsum endurtekningum og
hliðstæðum sem finna má í textanum.
Sá sem les sögur Gyrðis út frá sjónarmiðum nýrýninnar getur því haft
nokkuð að starfa við leit að ótal innri tengingum í textanum. Sé litið á
Gangandi íkorna, þá blasir fyrsta tengingin við í tvískiptingu sögunnar. I
fyrri hlutanum (bls. 7-62) fylgjumst við með drengnum Sigmari í sveitinni,
uns hann teiknar mynd af íkorna og fleiri fyrirbærum á maskínupappír og
skrifar síðan sögu er tengist myndinni, þar til hann fer inn í hana (sbr. það
sem áður var sagt um myndlistræna skynjun í texta Gyrðis) og er fyrr en varir
„orðinn að íkorna" (bls. 62). Síðari hlutinn (bls. 63-119) fjallar um ferð
íkorna til borgarinnar, dvöl hans þar og tilraun til að snúa aftur á heimaslóðir.
Lesandi getur því litið svo á að íkorninn sé hreinlega Sigmar, hvort sem
ævintýri íkornans gerist í ímyndun eða draumi drengsins. Þá vaknar sú
spurning hvort síðari hluti sögunnar sé ekki speglun eða afurð fyrri hlutans.
Lesendur finna margt til að styðja þessa tilgátu, því ýmsir hlutir skjóta aftur
upp kollinum, t.d. dádýrin sem þegar hefur verið minnst á. Þegar sagt er frá
gluggum sem „minntu á svört augu leikfangakíkis“ (bls. 68) fer maður
ósjálfrátt að hugsa um kíkinn sem Sigmar braut fyrr í bókinni (sjá bls. 20 og
38). Þegar íkorninn minnist afa síns sem missti gervitönn ofan í sig (bls. 80),
þá rifjast upp tönnin sem læknir rífur úr Sigmari (bls. 39). Ikorninn fer líka
til læknis; augnlæknis. Þar les hann með erfiðleikum á lesspjaldið: „D W E
1 Þetta á einkum við um skáldsögur hans frá Fljótt fljótt sagði fuglinn (1968) til
Turnleikhússins (1979).