Skírnir - 01.09.1990, Síða 238
490
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
SKÍRNIR
er sérstaklega mikil á sjálfsmyndina þegar um spegil er að ræða, einsog þegar
íkorninn þurrkar stafi af spegli, en þeir „smurðust út og mynduðu þunnan
hálfgagnsæjan hjúp, íkorninn sá sig aðeins ógreinilega bærast, einhversstaðar
langt að baki“ (G/, bls. 101). Hann sér sig í raun betur þegar hann rekst á
annan íkorna: „Fór fyrst að hugsa um spegil" (bls. 104) - og sést þá hvernig
þetta tengist áðurnefndu tvífaramótífi. Maður lítur í spegil ekki aðeins til að
þekkja sjálfan sig, heldur til að sjá „annan“. En slíkþrá er líka hættuleg. Heiða
drukknar í tjörninni, en áður höfðum við séð hana þar sem hún sækir vatn,
„sökkti skjólunni í tjörnina, braut spegilinn [...]“ (BR, bls. 17). Annars konar
en skylt gler sjáum við hjá Axel í sömu sögu, þegar hann minnist ferðar á ís:
„Mér hraus hugur við öllu þessu vatni undir þunnri glæru“ (bls. 45).
Andstætt myndsvið í texta Gyrðis má einsog áður sagði sjá í því hversu
nákvæmlega er fylgst með stungum eða hverskonar rofi samfellds flatar.
Vopnið er jafnan hnífur eða hnífsígildi. Þetta er svo algengt fyrirbæri í
verkum Gyrðis að næsta óþarfi að tíunda dæmi. Manni er jafnvel ekki hlíft
við hnífum rafmagnsrakvélarinnar: „hann greip hana og setti af stað,
hárbeittir hnífar snerust undir hlíf og kurluðu hvíta skeggbrodda" (BR, bls.
16). Raunar er ekki úr vegi að tala um fælni (,,fóbíu“) fyrir bitvopnum, sem
leiðir til þess að vitundin í textanum er sérlega næm fyrir öllu sem stingur eða
sker. Þetta mótar alla orðræðu textans. Þegar minnst er á ískur í vindmyllu,
þá er sagt hvernig það „smaug draumvefi" (BR, bls. 127). Við getum jafnvel
leitað enn í smiðju sálgreiningar og fundið í þessu „geldingarótta", hræðslu
við aflimun sem leitar fram í ýmsum myndum. En hér er textinn á undan
okkur sem oftar. I sögunni „Sumarhús“ fer Friðrik í sjóbað: „Grænn,
óendanlegur flötur, hvít skip við sjóndeild, ég hugsaði um alla fiskana sem
syntu þarna undir, lónuðu, tilbúnir að gleypa. Hvassar tennur sukku í
hreistur, klipptu af sporð“ (bls. 130). Skömmu áður vísar sögumaður raunar
til annars fóbíumeistara þegar hann segir: „Gamla hrökkálahræðslan skaut
snögglega upp kollinum [...]“ (bls. 125). Margir munu kannast við hrökk-
álinn úr Bréfi til Láru frá Þórbergi Þórðarsyni. Með þessu er ekki sagt að
óttanum sé eytt, en hér og víðar togast kímnin á við óhugnaðinn sem lúrir í
textanum. Sem dæmi um það hversu meðvitaður Gyrðir er um hnífinn í
verkum sínum má nefna að í umfjöllun um verk Stefáns Jónssonar hefur hann
sagt að sér þyki „fremur ótrúlegt að sá geigur sem ég hef haft af blaðlöngum
hnífum hefði náð að vaxa úr hömlu og verða mér gagnlegur, ef ákveðnum
köflum úr Gaddaskötu (1966) hefði ekki verið til að dreifa."1
1 Gyrðir Elíasson: „Af flugi minnisfugla", Tímarit Máls og menningar, 3. hefti 1988,
bls. 288.