Skírnir - 01.09.1990, Page 240
492
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
SKÍRNIR
tálgaður; þetta tengist þeirri sérstöku naumhyggju sem einkennir málnotkun
Gyrðis. Myndir hans eru ofurskýrar og agaðar, allt að því meinlætasamar.
Maður heyrir hvernig tungumálið tálgar fyrirbærin, textinn þreifar á viðfangi
sínu, málið leggst bókstaflega að veruleikanum, á svo ágengan hátt að jafnvel
lifandi verur hlutgerast fyrir augum okkar. Hér er það ekki aðeins málarinn
Gyrðir sem er að verki, heldur öllu heldur útskurðarmeistarinn. Og þessi
skynjun er sívakandi í textanum; síðar í Bréfbátarigningunni birtist reyndar
mynd af Axel: „helmingur andlits sem svipar til tréskurðarlíkneskis" (bls. 89;
einhvernveginn verður mér hugsað til andlits Becketts).
Mikill skyldleiki er með myndum sem þannig eru tálgaðar og þeim
afheimum sem fjallað var um fyrr í þessari grein. Hnífur Gyrðis bítur vel og
til móts við þá ógn sem stafar af hnífsblaðinu kemur sköpunarhlutverk þessa
bitvopns; það getur af sér myndir. Þessi myndskarpi texti getur orkað afar
sterkt á lesanda og á mikinn hlut í þeim áhrifum sem ég lýsti í upphafi. Með
þessu móti sneiðir Gyrðir hjá orðræðu sálfræðilegs raunsæis og tekst oft að
miðla herptu sálarlífi, strengdum tilfinningum, á mun öflugri hátt en ella.
En slíkar myndir geta af sér nýja ógn: hið spriklandi tungumál má ekki
verða tréfiskur, við megum ekki festast í afheimi myndar; ekki má ramma inn
merkinguna svo rækilega að söguheimur verksins verði sem kyrrsettur í
einstökum útskurðarmyndum. Finna verður undankomuleið. Viðbrögðum
Gyrðis í þessum efnum svipar nokkuð til fagurfræði Franz Kafka, einsog
frönsku fræðimennirnar Gilles Deleuze og Félix Guattari hafa lýst henni.1
Engin leið er að gera góð skil hinni ævintýralegu umfjöllun þeirra um ein-
farann frá Prag; þeir bjóða ekki upp á neina einhlíta kenningu, heldur lýsa
mismundandi hlutum þeirra „vélar“ sem framleiðir texta Kafka.
Deleuze og Guattari benda á hvernig myndir sem lýst er í verkum Kafka
(til dæmis málverk eða ljósmyndir) og tengjast gjarnan (bernsku)minningum,
tjá staðnað form, bælingu sem á rætur sínar í Ödípusarduld. Þessu er andæft
af þrá, sem hjá Kafka felst ekki í formi heldur/er/i. Myndin er miðlæg og
skilgreinandi; hún festir mann í ákveðið mót og dæmir samkvæmt afstöðunni
til föðurins/lögmálsins. Gegn henni er snúist með jöðrun2 eða ummyndun,
jafnvel róttækustu hamskiptum, því sem Deleuze og Guattari kalla að-verða-
dýr. Dæmi um þetta er að finna í ýmsum sögum Kafka.
Sjálfsvera textans segir sig úr lögum við umhverfi sitt, hafnar myndhaftinu
og verður önnur, á djúptækari hátt en hægt er með nokkurri speglun. Þetta
er í raun viss „afmenning", og þótt okkur kunni að finnast mikil hrollvekja
1 í bókinni Kafka: Pour une littérature mineure. Hér er stuðst við enska þýðingu:
Kafka: Toward a Minor Literature, þýð. Dana Polan, University of Minnesota
Press, Minneapolis 1986.
2 „Jöðrun" nota ég ekki sem þýðingu á „decentering", eins og ég hef gert í öðrum
greinum, heldur stendur það hér fyrir „deterritorialization" í texta Deleuze og
Guattari - en það ferli er í raun eitt afbrigði afmiðjunar eða jöðrunar. Ég þakka
Vilhjálmi Árnasyni, þýðanda jöðrunar-hugtaksins, góð ráð í þessum efnum sem
öðrum.