Skírnir - 01.09.1990, Side 241
SKÍRNIR
MYNDBROT FRÁ BARNÆSKU
493
í sögum einsog „Hamskiptum" Kafka, þá er þetta ferli líka tjáning á vissu
frelsi. Með þessu er sjálfsvitundinni hleypt á rás, en flestir ættu að þekkja hve
kúgandi stöðnuð sjálfsmynd getur verið og hversu yfirþyrmandi lögmál hún
er í allri hegðun okkar.
í sögum Gyrðis er augljósasta dæmið um hamskipti í Gangandi íkoma,
þar sem Sigmar breytist í íkorna. En vængmaðurinn er líka horfinn úr
mannheimum á svipaðan hátt, er að hálfu leyti fugl. Og einkenni slíkrar
ummyndunar má raunar sjá í upphafi „Tréfisks", sem birt var hér að framan,
því Heiða er ekki aðeins með fuglslega bringu, heldur er hún fugl í sögunni,
„treyjulöfin flöksuðust gráleit, einsog þunnir teygjanlegir vængir“ (BR, bls.
42), uns hún breytist í „fisk“ í tjörninni, en sjálf hafði hún verið að tálga fisk.
Fuglsmótífið er víða í sögunni. „Vildi ég væri fugl“, tuldrar Axel (14); í
fjörunni finnur drengurinn „hauskúpu af fugli“ og gætir hennar sem dýrgrips
(bls. 28), og „Einhvers staðar beið svartur fugl“ (bls. 31).
En hamskiptin eru ekki bara myndaskipti, heldur eru þau í sjálfu sér
hreyfing, ferli; oft sjálf kvika bernskunnar.1 Það er ekki nóg með að Sigmar
breytist í íkorna, heldur er íkorninn - sem er sérviskudýr einsog flestar
persónur Gyrðis - svo hlaðinn herðatrjám að hann „líktist helst dverg-
hreindýri“ (G/, bls. 63). í slíkum heimi geta einnig dauðir hlutir breyst í dýr;
ryksugan er „steinfiskur í sjávarhelli“ og gamla rakstrarvélin er „illa tennt
fornaldardýr" (G/, bls. 18 og 47).
Eitt hlutverk ferlisins að-verða-dýr felst í lausn undan ýmsum skýringar-
kröfum sem eru innbyggðar í raunsæilega veruleikalíkingu. Saga um
munaðarlaust barn á flækingi kallar á „félagslegar" skýringar; texti um
munaðarlaust dýr býr yfir meira frelsi til að fljúga og kafa; til að ferðast um
refilstigu með þrá og ógn að leiðarljósi, og til að leita að nýjum sjónarhornum
á heiminn.
Deleuze og Guattari telja að Kafka hafi með verkum sínum skapað það
sem þeir kalla „minni bókmenntir". Með þessu eiga þeir ekki við að hann hafi
ritað veigalitlar bókmenntir, öðru nær. I verkum sínum ástundar Kafka rót-
tæka jöðrun á ýmsum sviðum og byggir alls staðar minnihlutasýn inn í
textann. Sá sem skrifar „minni bókmenntir" leitar nýrra leiða til að færa
tungumálinu innri spennu; gerist flökkumaður, sígauni, innflytjandi gagnvart
sínu eigin tungumáli. Þetta hefur verið eitt meginverkefni módernismans í
bókmenntum aldarinnar, en þessi viðleitni kemur fram á mismunandi vegu.
Höfundar einsog James Joyce og Thor Vilhjámsson virðast ætla að þenja
tungumálið út til ystu marka og lengra, sýna fram á óendanlegt ríkidæmi þess,
uns maður fær á tilfinninguna að málið hafi tekið öll völd af veruleikanum og
sé jafnvel fært um að breyta honum að vild. Þessir höfundar efna til veislu,
kjötkveðjuhátíðar tungumálsins. En innan módernismans er líka önnur
tilhneiging sem sést hvað best hjá Kafka og Beckett. Þeir eru hungurlistamenn
1 Slík myndaskipti geta átt sér stað sem tímaflakk án þess að um bein hamskipti sé
að ræða, eins og sjá má í sögu Gyrðis „Heykvísl og gúmmískór", Skírnir, vorhefti
1990, bls. 4-5.