Skírnir - 01.09.1990, Page 249
SKÍRNIR
FJÓRIR ÓNÚMERAÐIR FUGLAR
501
- Ég vil vera myrt.
Þú verður ströng:
- Uss þú mátt ekki segja svonalagað.
Og ég færi mig frá þér. Ósjálfrátt færi ég mig frá þér því ég er hrædd
við þessa rödd sem kemur úr þér. Ég verð mjög mikið hrædd á svipinn.
Ég ætla að læðast út einsog köttur en þá kemuru. Þú kemur til mín. Þú
tekur mig og mér finnst ég allt í einu koma til þín einsog krásir á bakka
og það segiru líka, þú segir:
- Krásin mín. Stórutásukrásin mín er hjá mér.
Og svo verður þögn. Bara andardrátturinn okkar heyrist. Við erum
góðar núna. Munnur þinn er allt öðruvísi þegar hann talar en þegar
hann kyssir munninn minn. (s. 84-85)
Mun(n)urinn á einni manneskju. Munnur sem kyssir í núinu, munnur sem
hræðir þegar hann talar; annað hvort vegna þess að orðin eru ónotaleg, skapa
hættulega framtíð („Ég vil vera myrt.“) eða vegna þess að röddin er ónotaleg.
Tungumál samlíðunarinnar er þögnin: „Bara andardrátturinn okkar heyrist“.
IV
Raunsæi? Við spyrjum stundum að því hvort og hvernig skáldskapurinn geri
veruleikanum skil. En hvernig gerir veruleikinn skáldskapnum skil? Er hægt
að tala um skáldsæi veruleikans? Og hvað merkir það þegar skáldskapur
fjallar um veruleika sem byggður er á skáldskap?
Bróðir Jóns Steinssonar, aðalpersónu í titilsögu smásagnasafns Svein-
bjarnar I. Baldvinssonar, fann fyrirmynd sína í kvikmyndum. Þegar hann
reykti, hélt hann „báðum höndum til skjóls eins og hann hafði séð Bógart
gera og pírði augun um leið og hann saug að sér reykinn" (s. 24). Þegar Jón
missti meðvitund eina nóttina á heimili sínu, horfði sonurinn Óli „skelkaður
á föður sinn liggja eins og lík á stofugólfinu og fannst hann allt í einu vera
staddur mitt í einhverri spennandi bíómynd án þess að hafa hugmynd um
hvert var hans hlutverk“ (s. 30). Og þegar Auður, kona Jóns, var kölluð upp
í biðstofunni í Domus Medica til að fá úrskurð læknisins um sjúkdóm
mannsins síns, var hún „eins og leikari, sem hefur verið að leggja kabal í
pásunni eftir fyrsta þátt, en verður nú að fara inn á sviðið aftur og takast á við
alvöruna, eftir að hafa heyrt stikkorðið" (s. 37). Svipaða sögu er að segja af
sögumanninum í lokasögunni „Icemaster" sem fær á vissu stigi á tilfinn-
inguna að hann sé staddur í bíómynd. „Eins og maður sé söguhetja sem komi
fjölmörgum við. Eins og maður skipti máli“ (s.154).
Ef við gleymum því að við erum að lesa skáldskap getum við dregið þá
ályktun að fólk reyni í sínu daglega lífi að líkjast persónum í skáldverkum eða
kvikmyndum; fólki sem skiptir máli og upplifir markvisst litróf atburða.
Hversdagsleikinn er aftur á móti tíðindalaus - þegar til tíðinda dregur í okkar
lífi, þegar raunverulegir atburðir gerast, fyllumst við einhverri óraunveru-