Skírnir - 01.09.1990, Page 251
SKÍRNIR FJÓRIR ÓNÚMERAÐIR FUGLAR 503
Oskrandi þrá, bætir sögumaður Kristínar við, endar á hinn bóginn oft í þögn:
„Eilífri þögn.
Óþolandi þögn.
Þögn sem ekki er hægt að klæða sig úr.
Þögn sem fer um mann allan“ (s. 55).
Kristín gerir okkur hér að áhorfendum þögullar þrár sem á sér enga
áhorfendur og lýsir síðan, líkt og Sveinbjörn, þögninni með orðum. Kannski
erum við farin að skilja hvað ísak Harðarson átti við þegar hann sagði að
viðleitni okkar miðaði að því að „nálgast hið ósagða og ósegjanlega sem er
sjálfur kjarni eða andi manns og lífs“.
V
Kona frá landi varð dauðskelkuð þegar stúlka frá tungli sagðist vilja vera
myrt. Kannski trúði hún á mátt tungumálsins, ekki bara til að raungera
framtíðina, heldur til að fastmóta hana. Það er vissara að vera orðvar. Daginn
áður en jarðskjálftinn mikli reið yfir Kaliforníu á síðasta ári skrifaði
blaðamaður Herald-Argus í Laporte, Indiana, um hornaboltaliðin sem voru
að keppa til úrslita í San Fransisco þá dagana: „Ekkert nema jarðskjálfti getur
nú bjargað San Fransisco liðinu. Ekkert annað hefur dugað til að stöðva lið
Oakland Athletics."1 Þessi sami blaðamaður kyngdi munnvatni daginn eftir.
Bróðir Jóns Steinssonar hreyfði sig í samræmi við leiktúlkun Bógarts, Jón
var afurð annarrar hefðar, íslensku bókmenntahefðarinnar/sögunnar (þetta
tvennt er óaðskiljanlegt fram eftir öldum, kannski enn). Hann var meðvitaður
um að vera afkomandi Hálfdánar svarta Noregskonungs og þegar hann frétti
að hann væri dauðvona brást hann við
Eins og sannur Islendingur. Karlmannlega. Grét svolítið í laumi,
hugsaði þeim mun meira og sagði ekkert.
- Hvað hefði Hálfdán svarti gert? hugsaði Jón Steinsson til að fara
ekki að hugsa um eitthvað annað. (s. 41)
Seinna, þegar hann var búinn að taka pillurnar sínar setti hann vanalega upp
„Hálfdánarsvipinn“ (s. 47) og þegar hann átti á hættu að missa stjórn á
tilfinningum sínum þreif hann „dauðahaldi í Hálfdán frænda með hugarafli"
(s. 51). Hugtakið „sannur íslendingur“ er í stuttu máliþess umkomið að móta
viðbrögð okkar og athafnir. Hugtakið „sannur íslendingur“ er afurð
bókmenntahefðarinnar, lítið dæmi um það vald sem tungumálið getur haft
yfir veruleikanum.
1 Tilvitnun fengin úr Newsweek, 30. október 1989, s. 19.