Skírnir - 01.09.1990, Page 259
SKÍRNIR
LJÓÐASÖFN TIL KENNSLU
511
Jónasar eins og áður var sagt. Sama stefna ríkir hér og í fyrri skóla-
ljóðaútgáfum en sú nýbreytni er viðhöfð að nokkur þjóðkvæði eru tekin með
og nokkur hinna yngri skálda, þar á meðal Hulda sem fyrst kvenna fær ljóð
sín birt í skólaljóðum.
Árið 1938 ákveður stjórn Ríkisútgáfu námsbóka, sem þá var nýstofnuð,
að gefa út skólaljóð. Var Jón Magnússon, síðar fréttastofustjóri hjá
ríkisútvarpinu, fenginn til að annast þessi Skólaljóð. Heftin eru tvö og það
fyrra er væntanlega ætlað yngri nemendunum en síðara heftið þeim eldri.
Enginn formáli fylgir útgáfunni né greinargerð og er þar tvímælalaust um
afturför að ræða frá fyrri bókum. Jón fer að mestu leyti mjög troðnar slóðir
varðandi val á kvæðum. Þó fá hér fleiri nýrómantísk skáld inni og hér er
meira um kvæði sem hafa að geyma þjóðfélagslegt efni en í fyrri söfnum.
Ljóð Þorsteins Erlingssonar „Orbirgð og auður“ er t. d. eitt þeirra ádeilu-
ljóða sem Jón hefur valið. Allmikill munur er á heftunum og er það síðara
fullþunglamalegt og þar finnast ljóð sem hljóta að teljast flestum börnum
ofviða. Eysteinn rekur til dæmis hornin í ljóðið „Gamalt lag“ eftir Einar
Benediktsson og kallar það „innihaldsrýrt mælskukvæði“. Ekki veit ég hvort
það er rétt mat en hitt er rétt að það á ekki erindi til ungra skólabarna.
Eysteinn bendir á að hér fer að örla á því í fyrsta sinn í skólaljóðum að borgin
komi við sögu. Það er með ljóði Tómasar Guðmundssonar „Við höfnina“.
En það er augljóslega einn höfuðgalli margra skólaljóðasafna hvað sárlega
vantar þar ljóð sem sprottin eru úr nánasta umhverfi borgarbarna og tengjast
reynslu þeirra og tilfinningalífi á eðlilegan og aðgengilegan hátt.
Ekki liðu nema fá ár þar til að aftur kom út ný gerð skólaljóða á vegum
Ríkisútgáfu námsbóka. Það var árið 1943 og sáu þrír kennarar um verkið
samkvæmt heimildum Eysteins en í heftunum sjálfum, sem eru tvö, er þess
hvergi getið hver annist útgáfuna. Þeir voru Ármann Halldórsson, Hjörtur
Kristmundsson og Stefán Jónsson. Að ytra útliti minna þessi Skólaljóð mjög
á Skólaljóð Jóns Magnússonar nema hvað allt er hér með snautlegri svip.
Bækurnar eru til muna minni, myndir færri og orðskýringar engar. Þessi
Skólaljóð voru prentuð mjög oft og mun eintakafjöldinn hafa komist á annað
hundrað þúsund. Kvæðavalið er mjög hefðbundið í heftunum báðum og
sumt af því nýja efni sem var þó komið inn í fyrri söfn fellur hér út. Það kann
að eiga rót sína að rekja til þess hvað þessari útgáfu er skorinn þröngur
stakkur. En þar sem enginn formáli fylgir útgáfunni verður ekki um það
dæmt hvaða forsendur lágu til þess. Eysteinn dæmir þessa útgáfu hart og segir
orðrétt:
Megintilgangur þessara Skólaljóða er því að treysta í sessi viðtekin
menningarviðhorf, tryggja forræði þjóðernishyggju og varðveislu
menningararfsins. Á sama hátt verður að álykta um kennslufræðileg
sjónarmið útgefendanna af því sem þeir gera ekki í þessum
Skólaljóðum. Niðurstaðan er sú að þeir sjái ekki þörf á nýju námsefni
í kvæðum né heldur nýjum kennsluháttum en telja rétt að halda áfram
á sömu braut og þegar hafði verið mörkuð. (Ljóðaherdómur, bls.97)
33 — Skírnir