Skírnir - 01.09.1990, Page 262
514
GUNNAR SKARPHÉÐINSSON
SKÍRNIR
Schevings sem prýða Litlu skólaljóðin eru þaðan fengnar. Höfundar ljóða eru
ekki tilgreindir með ljóðunum heldur eingöngu í efnisyfirliti. Hér má kenna
áhrif frá nýrýninni. Ljóðið sjálft er aðalatriðið og athyglinni skal beint að því
á ótruflaðan hátt. Þessa sömu leið fara þeir Finnur Torfi Hjörleifsson og
Hörður Bergmann í bók sinni Ljóðalestur sem út kom ári síðar en Litlu
skólaljóðin. Enginn formáli er í bókinni en Jóhannes lét greinargerð fylgja
handriti sínu og þar eru þessi merku orð að finna sem rökstuðning fyrir vali
hans á þjóðvísum:
Persónuleg reynsla mín hafði fyrir löngu sannfært mig um, að fátt nær
sterkari tökum á barnshuganum á frumskeiði hans en einmitt þessi
gömlu höfundlausu kvöldvökuljóð, sem mörg hafa orðið til ýmist yfir
vöggunni ellegar á knjám pabba og mömmu eða afa og ömmu; eins
konar sjálfskapaður villigróður, sprottinn upp úr dulkynjaðri hnot-
skurn strjálla bændabýla og gæddur ótrúlega næmri samvitund við eðli
barnsins og umhverfi, vaknandi ímyndunarafi þess, þekkingarþörf og
ævintýraþrá. (Kennsluleiðbeiningar með Litlu skólaljóðunum, bls. 1)
Kennsluleiðbeiningar fylgdu Litlu skólaljóðunum og önnuðust Vilborg
Dagbjartsdóttir og Finnur Torfi Hjörleifsson gerð þeirra. Það kemur glöggt
fram hjá Eysteini að hér þykir honum sem brotið sé blað varðandi skólaljóð.
Ljóðin eiga að efla skapandi hugsun með börnunum en ekki vera eins og til
staðfestingar á ríkjandi hugmyndum í samfélaginu. Þjóðernisrómantík er því
varla að finna í bók Jóhannesar en dulúð þjóðkvæðanna og töfrar marka svip-
mót hennar.
Næsta bók sem Eysteinn fjallar um er Ljóðalestur þeirra Finns Torfa og
Harðar Bergmanns sem fyrr var nefnd. Með þessari bók verða þáttaskil í gerð
skólaljóðasafna. Bókin er hvort tveggja í senn safn ljóða til lestrar með
nemendum og kennslubók varðandi list ljóðsins. Hér er nemendum í fyrsta
sinn veitt fræðsla um ljóðlistina og það sem skapar henni sérstöðu meðal
bókmenntagreina. Gerð er grein fyrir atriðum eins og hljóðblæ, ljóðstöfum,
myndum, líkingum og táknum. Nútímaljóðagerð er rædd sérstaklega og
skilgreind. Val ljóða er sérlega breitt þó svo að bókin sé ekki ýkja stór.
Nútímaljóð skipa mest rúm en valið nær allt frá Hávamálum til skálda sem
tóku að koma fram um 1960. Valið er hnitmiðað og ljóðdæmin í inngangs-
köflunum einkar vel valin. I heild vitnar bókin um það að umsjónarmenn
hafa haft glöggan skilning á viðfangsefninu og reynslu til þess að byggja
ljóðaval sitt og framsetningu efnisins á. Bókin nýttist ábyggilega vel í
skólunum og var endurprentuð tvisvar sinnum. Þessi bók hlýtur lof í
umfjöllun Eysteins enda maklegt. Hún hafði óumdeilanlega mikil áhrif til
endurmats á kennsluefni og kennsluháttum. Hann finnur þó að fáeinum
atriðum eins og til dæmis því að engin kona á ljóð í safninu - nokkuð sem
þykir hvað ámælisverðast nú um stundir.
Síðasta bókin, sem fjallað er um, er svo bók Finns Torfa Hjörleifssonar
sem út kom árið 1979. Utgefandi var Ríkisútgáfa námsbóka ásamt