Skírnir - 01.09.1990, Page 263
SKÍRNIR
LJÓÐASÖFN TIL KENNSLU
515
skólarannsóknadeild menntamálaráðuneytisins. Heiti bókarinnar er
Ljóðasafn handa unglingum eins og fyrr var fram komið. Bókin er fallega
útgefin og að ytra útliti kannski einna best heppnuð allra skólaljóðasafna.
Dúkristur eftir Jón Reykdal prýða bókina. Bók Finns Torfa var ætluð
unglingastigi og val hans á ljóðum er í grundvallaratriðum frábrugðið því vali
sem tíðkast hafði í flestum hinna eldri skólaljóða. Má segja að val hans vísi á
margan hátt fram til þeirra bóka sem Námsgagnastofnun hefur nú nýverið
gefið út. Finnur Torfi gerir grein fyrir vali sínu á svofelldan hátt í kennslu-
leiðbeiningum sem fylgja bókinni:
Ljóðasafnið á að vera fjölbreytt að efni og formi. I því eru bæði gömul
kvæði og ný; ljóð í svokölluðu hefðbundnu formi og prósaljóð, rímuð
og órímuð, stuðluð og án stuðla; frumort á íslensku og þýdd. Þar er
fjallað um margbreytilegt líf mannfólksins og annarra lífvera - lífs-
undrið, samskipti og sambúð kynja - ástina, vöxt og hrörnun, æsku og
elli, stríð og frið, ríkidæmi og fátækt, sambúð ólíkra kynþátta,
einstaklingshyggju og félagshyggju og fleiri andstæður sem finnast í
þróuðum samfélögum. (Leiðheiningar um Ijóðakennslu, bls.4)
Kvæðaval Finns Torfa fylgir þessu markmiði ágætlega. Hann velur mikið af
ljóðum sem eru í léttum dúr og formleg fjölbreytni er ríkjandi. Hér er í fyrsta
sinn viðhöfð sú nýbreytni að raða ljóðunum að nokkru leyti þematískt. Það
átti svo eftir að færast mjög í vöxt á næstu árum í safnritum ýmiss konar fyrir
skóla. En svo prýðilegt sem ljóðavalið er og vel við hæfi unglinga skortir það
samt sem áður ferskleika. Kemur það kannski til af því að heildarsvipur
bókarinnar markast mikið af löngum ljóðum eldri skáldanna.
Bók Eysteins lýkur svo með yfirlitskafla þar sem hann dregur saman
niðurstöður. Þar segir svo um markmið skólaljóðamanna allt fram til
Nútímaljóða handa skólum 1967:
[...] þeir ætluðu skólaljóðum það meginhlutverk að varðveita íslenskan
kvæðaarf og þau hefðbundnu viðhorf sem í honum eru fólgin. Skýrast
staðfestist þessi tilgangur í sjálfu kvæðavalinu á öllu þessu tímabili.
Nám í ljóðlist var aukaatriði og ekki hirt um kennslufræðileg
sjónarmið. (Ljóðalœrdómur, bls. 182)
Síðan bendir hann á að það hafi verið þeir Jóhannes úr Kötlum, Finnur Torfi
Hjörleifsson og Hörður Bergmann sem sett hafi skólaljóðum sínum ný
markmið. Þeir hafi lagt áherslu á tilfinningaþátt ljóða og þá örvun sem þau
geti veitt ímyndunarafli barna og sköpunargáfu.
Ekki verður annað séð en Eysteinn hafi í öllum meginatriðum á réttu að
standa. Verk hans er skýrt og vinnubrögð skipulögð. Dómar hans eru að vísu
nokkuð eindregnir á stundum en hann kostar líka kapps um að láta eigin
afstöðu og álit koma greinilega fram.