Skírnir - 01.09.1990, Page 275
SKÍRNIR
FREGNIR AF BÓKUM
527
á tíðni orðins í eddukvæðum Konungsbókar og vísum nafnkunnra
dróttkvæðaskálda. Jafnframt sýnir hann meðaltíðni orðsins í hvorum hóp og
staðalfrávik. Niðurstaða hans er sú að kenning Kuhns standist allvel þegar
litið er til dróttkvæðanna, en mun síður þegar eddukvæðin eru annars vegar.
Eddukvæði eru einnig viðfangsefni Else Mundal. Hún ritar um næst
síðustu vísu Völuspár sem lengi hefur haldið vöku fyrir mönnum, og leggur
fram nýja og athyglisverða túlkun hennar - og þar með kvæðisins sem
heildar.
I grein sinni bendir Else Mundal á að óljósir staðir í texta þurfi ekki alltaf
að vera ókostur. Þeir geti og hafi reyndar oft leitt menn til frjórra athugana.
En sama virðist einnig gilda um hina „ljósu“ staði sem hingað til hafa lítt eða
ekki vafist fyrir fræðimörmum. Þetta sýnir Jonna Louis-Jensen í grein sinni
svo að ekki verður um villst. Þar bendir hún á hvernig merking einnar máls-
greinar í Fyrstu málfræðiritgerðinni gjörbreytist ef einungis einn bókstafur
- sem reyndar er eitt orð - er lesinn á annan hátt en menn hafa vanist.
Þar með hefur verið drepið á efni allra greina í afmælisriti Finns Hodne-
bos. Það er svo lesenda að halda áfram þeirri iðju fræðimannanna að rýna í
ljósa og óljósa staði, hér og annarsstaðar.
Þórir Oskarsson
David Hume: Samræður um trúarbrögðin. íslensk þýðing eftir Gunnar
Ragnarsson og inngangur eftir Pál S. Árdal. Hið íslenska bókmenntafélag
1972.
Rannsókn á skilningsgáfunni. íslensk þýðing og inngangur eftir Atla
Harðarson. Hið íslenska bókmenntafélag 1988.
Mikil gróska er nú í útgáfu Lærdómsrita Hins íslenska bókmenntafélags. Ný-
lega kom þar út Rannsókn á skilningsgáfunni eftir David Hume (1711-1776).
Fyrir nokkrum árum birtist í sama bókaflokki Samrœður um trúarbrögðin,
eftir Hume og því er ekki úr vegi að vekja athygli á báðum bókunum í tilefni
af útkomu Rannsóknarinnar. Rannsókninni fylgir stutt sjálfsævisaga Humes,
„Ævisaga mín“, sem hann skrifaði 1776, síðasta árið sem hann lifði.
Rit þessi láta ekki mikið yfir sér, en þau hafa haft ómæld áhrif á vestræna
menningu. Þau eru fræg um víða veröld og enn spreyta hugsuðir sig á að
svara þeim spurningum er þau vekja. Nú eru þau komin út í íslenskri þýðingu
og þar með aðgengileg öllum sem læsir eru á þá tungu og forvitni leikur á að
sjá, hvað í þeim stendur og hversvegna þau eru fræg.
Ég tel að vel hafi tekist til með þýðingarnar bæði hjá Atla Harðarsyni og
Gunnari Ragnarssyni, enda hafa þeir vandað mjög sitt verk. Mikill fengur er
í því fyrir íslenska menningu, að ritin skuli nú vera til á íslenskri tungu.
Þýðendur eru báðir vel heima í heimspeki, enda er það nauðsynleg forsenda
þess að geta þýtt heimspekilega texta svona vel.
34 — Skírnir