Skírnir - 01.09.1990, Síða 279
MYNDLISTARMAÐUR SKÍRNIS
Valkyrjur Jóhanns Briem
Hvað segja Valkyrjur Jóhanns Briem okkur? Vissulega er óhugsandi að gefa
nokkra tæmandi túlkun á því í stuttu máli. Enda þótt síðurnar væru talsvert
fleiri verður að hafa hugfast að listaverk verður aldrei túlkað til fullnustu.
Hið eina sem hægt er að gera er að bæta einhverju við það, sem þegar hefur
verið sagt, í von um að það feli í sér einhver nýmæli. Það skyldi ætíð vera
takmark túlkunar að leiða í ljós ótæmandi ríkidæmi þess sem um er rætt. Því
verða þessi orð einungis lítil viðbót við samsafn þeirra sjónarmiða, sem áður
hafa séð dagsins ljós. Með því eina móti verður listaverki á borð við
Valkyrjur Jóhanns Briem sýnd viðhlítandi virðing.
Jóhann Briem er kominn af bændum, fæddur að Stóra-Núpi í Gnúp-
verjahreppi, 17. júlí 1907. Sú menning sem íslenskir bændur skópu á rúmum
þúsund árum er honum hjartfólgnari en hin, sem tók að spretta fyrir stuttu
í borg og bæjum landsins. Jóhann Briem tilheyrir íslenskri sveitamenningu.
Þar er hann í andlegum skilningi á heimaslóð og þangað hefur hann að mestu
sótt aðföng sín. Á það má benda að Jóhann stundaði nám í Þýskalandi þegar
Martin Heidegger birti rit sitt um „Veru og tíð“. í þeirri bók fjallaði heim-
spekingurinn um það sem hann taldi vera fólgið í hugmyndinni „að vera til“
eða „vera í veröldinni". Hans-Georg Gadamer, nemandi Heideggers, kallaði
það síðar „að heyra til“ eða „tilheyra".
Ég hef áður haldið því fram að Jóhann Briem væri tilvistarlegur málari sem
eytt hefði ævinni í að komast að kjarna þess sem hann vildi sagt hafa.
Vissulega er Jóhann tilvistarmálari, en ekki í samræmi við skilgreiningu
Sartres, heldur samkvæmt verufræði Heideggers. Réttara hefði verið að kalla
hann verufræðilegan málara, sem stöðugt nálgaðist sjálfa veröldina. Þetta
fagra orð, veröld, felur einmitt í sér bókartitil Heideggers. Það nær bæði tiV
veru og tíðar, um leið og það vísar til þeirra heimkynna sem allir mpnn
tilheyra.
Það er ekki einungis ættjörðin sjálf, heldur menningarlegar rætur hennar,
sem draga Jóhann Briem til uppruna síns. Þess vegna gerist allt í verkum hans
á einu plani, hvort heldur það er úr heimi raunveru ellegar skáldskapar.
Valkyrjurnar eru jafnnálægar og skýin. Þær tilheyra veröldinni líkt og aðrar
afurðir mannanna. En þær eru hugskeyti þeirra sem standa frammi fyrir
örlögum sínum. Þess vegna eru þær jafnlifandi og allt sem hrærist í raun og
veru. Valkyrjur málaði Jóhann Briem árið 1969, en þá var Víetnam-stríðið í
hámarki. Vissulega eru valkyrjur ógnvænlegir feigðarboðar. Þær eru sýnileg
tákn dauðans, ólíkar hinum efnislega dauða, sem jafnan er ósýnilegur.
Táknmynd þeirra sýnir og sannar að forfeður okkar gátu tjáð sig um dauð-
ann, hversu ógnarlegur sem hann var. Þeir gátu orðað hann á magnþrunginn
hátt; magnþrunginn, vegna þess að þeir vissu að dauðinn er hámark