Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1991, Qupperneq 8
Gunnlaugur A. Jónsson
og síðan í Hong Kong þar sem Jóhann var aðstoðarrektor lúthersks
prestaskóla.
Heimir Steinsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, skrifar um háskóla-
kennarann Jóhann Hannesson og lýsir honum meðal annars þannig:
„Aldrei fór prófessor Jóhann svo mjög á kostum sem einmitt þá, er reynt
var að fá hann til að loka dymm, lækka loft. Sundurleitum athugasemdum
rigndi yfir undrandi tilheyrendur. Föngum var viðað að úr öllum afkim-
um veraldar. Síðan leiftraði ein setning eða fleiri, eins og elding úr
óráðnu lofti, — ummæli, sem aldrei hverfa úr huga, fremur en hinn góð-
látlegi undirtónn, innileikinn og kátínan."
Ingólfur Guðmundsson fjallar um Þingvallaár Jóhanns í ljósi vetrar-
vistar sinnar hjá þeim Astrid og Jóhanni á Þingvöllum 1954. Ingólfur
segir að trúlega hafi dvöl þeirra hjóna þar markað dýpri spor í sögu
Þingvalla en í þeirra eigin feril. „Prestakallið var endurreist 1957 og
þessi meginþráður í lífi staðarins hefur ekki rofnað síðan og gildnar
fremur en grennist.“
Jónas Gíslason gerir grein fyrir löngum kynnum sínum af Jóhanni,
bæði sem nemandi hans og samstarfsmaður. Hann lýsir einnig ævi hans og
uppvaxtarárum. Hann leggur áherslu á að Jóhann hafi í öllu sínu lífi og
starfi verið kristniboði í hugsunarhætti. „Hann var hreinn og beinn, lýsti
skoðun sinni af einurð og festu og vék ekki frá því, sem hann taldi rétt
þótt móti blési.“
Kristján Búason minnist ræðu Jóhanns Hannessonar á sunnudagssam-
komu í K.F.U.M. og K stuttu eftir að hann kom frá Kína 1953. „Það var
ógleymanleg reynsla að hlusta á mann, sem kunni allt í senn, skil á menn-
ingu, sögu og hugsunarhætti Kínverja, kommúnista og kristinna Vestur-
landa. Þekking hans á þessum efnum og yfirsýn var einstæð á íslandi.“
Sigurbjöm Einarsson lagði í ræðu sinni við útför Jóhanns, sem hér er
birt, út af orðum Páls postula „Því að lífið er mér Kristur og dauðinn
ávinningur.“ í ræðunni kemur fram, að Jóhann hafi ekki átt aðra ósk um
minningu sína en þessa: „Verði Kristur vegsamaður ávallt, þegar mín er
minnst.“
Þórir Kr. Þórðarson dregur í grein sinni upp nokkrar svipmyndir af
samkennaranum Jóhanni Hannessyni og gerir einnig að umtalsefni fram-
lag Jóhanns til íslenskrar guðfræði, sem einkum hafi verið fólgið í menn-
ingarguðfræði hans.
Loks hefur síðari hluti ritsins að geyma ýmsar greinar eftir Jóhann
Hannesson sjálfan. Er greinunum ætlað að veita innsýn í hin umfangs-
miklu ritstörf hans og endurspegla á hversu breiðu sviði ritstörf hans
voru. Þama er að finna greinar um trúfræðileg efni, endurminningar frá
Kína og síðast en ekki síst nokkrar „Þankarúnir“ hans, sem birtust um
árabil í Lesbók Morgunblaðsins.
6