Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1991, Síða 80
Sigurbjöm Einarsson
Og öll áhyggja hjartans, öll óvissa, uggur, kvíði og þraut, vitundarlífið
allt hneig í þessa einu stefnu: Kristur einnig nú, verði hann vegsamlegur
nú sem ávallt. Það var innsta löngun og æðsta von.
Fjötrar og svarthol breyta ekki því, að lífið er Kristur og að honum
hefur af náð þóknast að taka mig, líkama og sál og allt mitt, kjör og hagi
og öll afdrif í sínar hendur, á sitt vald, í sína þjónustu.
Þannig hugsar Páll.
Og þegar hann horfir fram til þeirrar stundar, sem hann vissi í nánd,
þegar hann væri liðið lík, fallinn fyrir böðulsöxi eða öðru vopni þess
óvinar, sem Jesús Kristur hafði þreytt stríðið við og sigrað, þá var eitt
um þá stund að segja, eitt skyldi hún vitna um og boða: Verði hann
vegsamlegur, hann, sem er lífið, Kristur. Verði dýrðin hans, hvort sem
ég fæ að lifa eða verð að deyja.
Lífið er mér Kristur.
Hjá yfirburðum þeirrar staðreyndar met ég allt einskis virði, segir Páll
á öðrum stað, allt, sem æviskeiðið færir að höndum, allt, sem er gefið eða
tekið. Það er allt undir þessu formerki. Og allt, sem dauðinn dylur, er
gegnlýst af þessu, yfir því öllu er þetta stóra „nú“, þetta eilífa „nú“,
Kristur krossins, Kristur upprisunnar og lífsins.
Langt er síðan fanginn Páll lét skrá þessi orð, þessa kveðju til vina,
nemenda og trúsystkina í samtíð sinni.
En kveðjan hans berst til vor, sem hér erum í dag.
Hverful andrá á æviferli vorum stendur yfir og einn er á meðal vor
liðinn, ferill hans á enda, andvana líkami hans vígður til grafar.
Stundin markar hinstu mót, vinaskilnað, umskipti í heimi ástvina,
djúptæk og gagnger.
En yfir það allt hvelfist sá veruleiki, sem er að baki þessum orðum:
Einnig nú eins og ávallt.
Hér er brúað djúpið milli vor og Páls.
Hér hverfur djúpið milli vor og Jóhanns Hannessonar.
Líkami hans er á meðal vor hinsta sinni, bugaður, brotinn, fallinn. En
það megum vér vita, að á meðan þar vakti líf, á meðan þar bærðist bæn í
hjarta, já, innst í djúpi sálar á bak við alla meðvitund, var þetta: Kristur,
lífið, verði hann vegsamlegur fyrir líkama minn, hvort sem verða skal
með lífi eða dauða.
Þetta stendur letrað í brostnum augum. Það er skráð yfir hljóðri kistu.
Það er hvíslað í hverjum tóni, hverju orði og öllum trega þessarar
stundar.
Og það veit ég, að hann átti ekki aðra ósk um útför sína en að þetta
kæmist til skila þar. Og ekki aðra ósk um minningu sína hjá nemendum,
vinum og samferðamönnum en að þetta bæri yfir og að öll virðing og
vinaþel hnigi í þennan farveg, stefndi að þessu miði: Verði Kristur
vegsamaður ávallt, þegar mín er minnst. Það er ekki nafnið Jóhann
Hannesson, ekki saga hans né persóna, sem hann óskar að hugur snúist
um, að öðru leyti en því sem það má benda og vitna: Lífið er Kristur.
78