Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1991, Side 52
Heimir Steinsson
Einnig á þessum vettvangi urðu fullsæmandi sennur milli kennarans og
nemenda, — innan þeirra marka, sem fáguð og festuleg framkoma
Jóhanns Hannessonar jafnan setti. Einkum varð mönnum skrafdrjúgt um
sérkenni Rómarkirkjunnar. Páfadæmið hafði sitt afdráttarafl, — með
umsvifalausum úrskurðum í örðugum málum. „Já, rétt er það,” sagði
prófessor Jóhann. „Alræði er jafnan einfaldasta leiðin.” Þetta átti hann til,
hinn hógværi maður, að segja dagsatt í föstu skoti, — og afhjúpa
margræðni sannleikans í framhjáhlaupi.
Stabunt aeternum dogmata sacra Dei
Höfuðviðfangsefni prófessors Jóhanns í „síðari hluta” og hámark
kennslustarfa hans var trúfræði. Stuðzt var við rit Regins Prenters,
Skabelse og genlflsning, og réði kennslubókin ferðinni í ríkara mæli en
endranær.
Innan spjalda þessarar bókar munu aðrir menn fjalla um fræðimennsku
prófessors Jóhanns. Hér verður nú vitnað í minningarorð þau, sem ég gat
í inngangi. Þar er eftirfarandi að finna um trúfræðikennarann Jóhann
Hannesson:
„Hitt vekur ævilanga aðdáun, að maður, sem svo víða deildi sér, skyldi
jafnframt vera öllum öðrum stefnufastari, þegar komið var að
grundvallaratriðum kristinnar trúar. Ekki þannig að skilja, að þar væri
fram farið með offorsi eða fordæmingum í annarra garð. Einnig þessi
efni voru öllum heimil til umræðu og véfangs, ef settum reglum
siðmenningar var fylgt. En uppbygging sú, sem nemendur hlutu í
trúfræðitímum prófessors Jóhanns varð ógleymanleg árétting alls hins
bezta, er notið hafði verið við önnur nægtaborð.
Þar var dreifðum vötnum safnað að einum ósi. Eftir svo sem tveggja
vetra setu í þessum kennslustundum var hún upp timbruð fyrir innri
augum sú eina, heilaga, almenna kirkja, sem við höfðum gengið á hönd.
Byggð var hún á bjargi. Um það var aldrei að villast. En jafnframt var
hátt til lofts og vítt til veggja í húsinu því, vistarverur margar, dymar
sömuleiðis, — stundum fleiri en óþolimóðum og einsýnum æskumanni
þótti hóf að.
Aldrei fór prófessor Jóhann svo mjög á kostum sem einmitt þá, er
reynt var að fá hann til að loka dyrum, lækka loft. Sundurleitum
athugasemdum rigndi yfir undrandi tiíheyrendur. Föngum var viðað að
úr öllum afkimum veraldar. Síðan leiftraði ein setning eða fleiri, eins og
elding úr óráðnu lofti, — ummæli, sem aldrei hverfa úr huga, fremur en
hinn góðlátlegi undirtónn, innileikinn og kátínan.
Eftir sat nemandinn, lítið eitt sneyptur, en um leið furðu ánægður með
sinn hlut. Og heilög kirkja hélt áfram að rísa.“
Ef setja skal almennan og þar af leiðandi léttvægan merkimiða á þá
meginafstöðu, sem Jóhann Hannesson í kennslustundum birti til trúar og
kirkju, kemur orðið „nýrétttrúnaður” til álita, en heldur þó engan veginn
öllu til skila. Áhrif heittrúarstefnu sigla í kjölfarinu, samfara biblíufestu
50