Skagfirðingabók - 01.01.1977, Side 16
SKAGFI RÐINGABOK
þegar fyrir hendi ákjósanleg aðstaða fyrir slíkan mann, og mætti
vel hugsa sér hann í hlutastarfi þar, því þar bíða óþrotleg verk-
efni við skráningu og umbúnað handrita og skjala. Til að þetta
megi verða, þarf að leita nýrra leiða til fjáröflunar, því hæpið er,
að bókaútgáfa félagsins verði það mikil, að hún standi nokkru
sinni undir sjálfstæðu mannahaldi. Verði þessi hugmynd að veru-
leika, tel ég, að það yrði hag félagsins til mikils framdráttar, auð-
vitað að því tilskildu, að fólkið haldi áfram að sýna því og verk-
um þess áhuga og velvilja, því allt er þetta tómt mál að tala um,
nema almenningur vilji lesa og kaupa bækur félagsins.
Sögufélag, sem vill standa undir nafni, getur ekki leyft sér að
gefa út hvaða léttmeti sem er. En það má heldur ekki halda sig
við þungmelt og tyrfið efni, sem ekki er aðgengilegt öðrum en
fræðimönnum. Vandamálið er því m. a. að þræða hinn gullna
meðalveg og bjóða fram lesefni, sem í senn er bæði fræðandi og
skemmtilegt aflestrar. Hjá Sögufélaginu verður fróðleiki/r að sitja
í fyrirrúmi, en skemmtun að koma næst á eftir, ef ekki reynist
unnt að flétta þessa tvo þætti saman í eina heild. Það getur ekki,
eins og sum félög gera, fleytt sér áfram á misjöfnum afþreying-
arbókmenntum, sem ofnar eru í blekkingarvef skrautútgáfu og
auglýsingaáróðurs, og markaðurinn hlýtur að takmarkast að veru-
legu leyti við Skagafjörð og Skagfirðinga.
Lesendur góðir, ég vil biðja ykkur að hafa það hugfast, að með
því að kaupa bækur félagsins eruð þið ekki eingöngu að kaupa
ykkur lesefni, heldur einnig að leggja dálítið af mörkum til þess
að Sögufélag Skagfirðinga geti lifað og starfað í framtíðinni til
nokkurs menningarauka fyrir héraðið og landið allt.
14