Skagfirðingabók - 01.01.1977, Page 46
SKAGFIRBINGABÓK
hann var séra Gísli Oddsson á Hafsteinsstöðum, sonur séra Odds
á Miklabæ, þess er hvarf. Sigurbjörg sagðist oft hafa hlustað á
afa sinn þylja vers og bænir á latínu, einnig hefðu prestar heim-
sótt hann, og þá hefðu þeir oft talað saman á latínu, til þess að
heimilisfólk vissi ekki, hvað þeir væru að ræða um. Hún sagðist
hafa lært eitthvað á þessu máli, en nú væri það allt gleymt nema
þessi vísa, sem sér hefði verið sagt að væri svona á íslenzku:
Renni ég hýrum hvarmatýrum mínum,
eikin banda, upp á þig,
eftir vanda kysstu mig.
Ég reyndi að læra þessa vísu af Sigurbjörgu á hennar latínu,
og það kynlega er, að ég þykist muna hana enn, eins og ég nam
hana af vörum Sigurbjargar, þó að margir áratugir séu liðnir.
Nú bar það við fyrir nokkru, að ég mætti dr. Jakob Benedikts-
syni á förnum vegi, en eins og mörgum er kunnugt, er hann
manna lærðastur í latínu á Islandi nú á tímum. Hann hlustaði
Ijúfmannlega á mína latínu og taldi sig kannast við vísuna, þó að
hann myndi ekki eftir henni á prenti, þetta gæti verið skólakveð-
skapur frá hinum forna Hólaskóla. Dr. Jakob sagðist skyldi skrifa
vísuna á latínu fyrir mig, og er hún hér skrásett og íslenzkuð af
honum:
Gratiosa, generosa virgo,
oculorum acies
instar florum deliges.
(Yndislega, göfuga mær, þú munt tína upp augnaráð manna
eins og blóm.)
Þýðing dr. Jakobs á vísunni sýnir, að vísa Sigurbjargar er ekki
bein þýðing, heldur gæti hún verið stæling.
Já, þetta er gömul minning, sýnishorn af því, hve latínan var
rík í hugum menntamanna fyrri tíðar, og hún sýnir kannski líka
forvitni unglings í fábreyttu umhverfi.
44