Skagfirðingabók - 01.01.1977, Blaðsíða 102
SKAGFIRÖINGABÓK
eða svifferju ásamt teikningum og kostnaðaráætlun upp á 1651
krónu. Slíkt hið sama gerði Sigurður Ólafsson á Hellulandi, og
nam áætlun hans 1500 krónum. Nefndarmenn athuguðu hvort
tveggja og ákváðu að vinda bráðan bug að uppsetningu ferja á
báða ósana. Vesturósinn skyldi hafa forgang, og var Einari á
Hraunum falið að útvega efni og smíða ferjuna ásamt Sigurði.
Styrkur landssjóðs var greiddur út í tveimur hlutum þetta ár, og
var ferjan sett á ósinn um sumarið.
Austurósinn var talinn erfiðari viðureignar. Samkvæmt áliti
„skynberandi manna“ gæti verið álitamál, hvort ekki borgaði sig
að hafa ferjuna ofar, eða undan svonefndu Krakanesi.9 Þrátt fyrir
það var ákveðið að smíða hana, og önnuðust sömu menn verkið
og fyrr. Þegar farið var að kanna ferjustæðið nánar, kom í ljós,
að ósinn var ekki heppilegur vegna straumfars o. fl., hins vegar
virtist vera allgott brúarstæði fyrir neðan Krakanes. Ekki mun
fjölyrt um þetta í þessum kafla, en sýslunefnd ákvað að byggja
þarna brú og sótti um styrk til hennar. Umsóknin fékk meðbyr
í þinginu, og 5000 krónur voru veittar á fjárlögum til brúarinnar.
„Sýslunefndin býðst til að láta setja dragferjuna á Hjeraðsvötnin
á aðalpóstleið, með því móti að hún fái styrk þennan úr landssjóði
til að gera brúna.“10 Ferjan var síðan flutt á svonefndan Akra-
hyl, sem var á aðalpóstleiðinni hjá Völlum. Það hefur sennilega
verið árið 1895.
Segja má, að Skagfirðingum hafi vegnað vel í þessum viðskipt-
um. Þeir fengu styrk landssjóðs til að koma tveimur dragferjum
á ósa Héraðsvatna. Síðan fengu þeir fé til að reisa brú á Vötnin,
m. a. vegna þess að þeir færðu aðra svifferjuna. Greiðlega gekk
að útvega umsjónarmenn með dragferjunum, og voru fleiri um
hituna en hægt var að sinna.
Dragferjurnar og brúin yfir Austurvötnin, sem tekin var í notk-
un árið 1895, röskuðu mjög þeirri skipan ferjumála, sem var upp
tekin árið 1874. Ferjumaðurinn í Utanverðunesi tók að sér um-
sjón dragferjunnar á Vesturósnum, en lögferjan á Tjörn var lögð
niður 1895. Amtsráð samþykkti þá tilhögun ári síðar. Sama ár
ákvað sýslunefnd, upp á væntanlegt vilyrði amtsráðs, að fella
100