Skagfirðingabók - 01.01.1977, Síða 190
SKAGFI RÐINGABÓK
og menntaður. Meðan Árni var enn heima, fékk hann blöð að1
sunnan. Guðmundur bað Árna að lesa fyrir sig sitthvað í blöð-
unum, meðal annars um Búastríðið, og fór hann hörðum orðum
um framferði Breta á þeim vettvangi.
Guðmundur hafði þann starfa að bera út póst frá Miklabæ.
Hann fór liprum höndum um bréfin, lét raða þeim saman, sem
áttu að fara á hvern bæ, og bæjaröðina eftir því sem hann fór.
Eins og áður er sagt, var Guðmundur að jafnaði fámáll. Friðrik
Hallgrímsson segir, að hann hafi þó verið óbágur að segja frá
ferð, sem hann fór á unglingsárum. Hann var einn þeirra Skag-
firðinga, sem sóttu hunda suður á land veturinn 1856. Ekki efa
ég, að það sé rétt, því slíkar ferðir gleymast ekki og Guðmundur
glöggur á margt og vildi ekki vamm sitt vita. Hann var að vísu
ungur, varð 15 ára 25. marz þá um veturinn, óstaðfestur, var
fermdur á Trinitatishátíð næsta vot. Hann gæti hafa verið bráð-
þroska og tápmikill, og svo var það á fyrri tíð, að unglingum voru
ætluð harðræði oft og einatt. Oft var það, að 15 til 16 ára ungl-
ingar voru sendir á vetrarvertíðir til Suðurnesja.
Frásögn Guðmundar af þessari ferð var í aðalatriðum á þessa
leið: Þeir voru fjórir saman. Ekki höfðu þeir tjald, en tvö brekán
og lágu tveir undir hvoru, þegar þeir hvíldust. Að sunnan yfir
Kjöl komu þeir með 40 hunda. Þeir höfðu tík í bandi til þess að
halda hópnum saman. Á leiðinni að sunnan sofnuðu þeir ekki
nema til skiptis. Frásögn Guðmundar endaði svo á þann veg, að
þeir væru ákaflega þreyttir, syfjaðir og sárfættir að leiðarlokum.
En Friðrik á Sunnuhvoli varð á í messunni. Hann aðgætti ekki að
spyrja Guðmund um það, með hverjum hann hefði verið, en varla
hefði staðið á svörum um það.
I tímaritinu ..Heima er bezt“, nóv.-des. hefti 1956, er sagt frá
ferðum Skagfirðinga suður á land til hundakaupa á útmánuðum
veturinn 1856 eftir hundafárið, þegar sagt var, að aðeins tveir
hundar hefðu lifað pestina af í héraðinu, annar á Syðri-Húsabakka,
en hinn á Þorljótsstöðum í Vesturdal. Samkvæmt frásögninni í
„Heima er bezt“ voru farnar tvær ferðir suður til hundakaupa, og
188