Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1995, Page 97
MÚLAÞING
95
Móðir mín var mjög syrgð af öllum er hana þekktu. Henni fylgdi til
grafar fjöldi manns, bæði af Héraði og neðan af fjörðum. Meðal annarra
komu frá Kirkjubóli í Norðfjarðarsveit Sigríður, systir föður míns, og
maður hennar, Sveinn Guðmundsson. Buðu þau föður mínum að taka
mig í fóstur til sín að Kirkjubóli, og fór ég með þeim eftir jarðarförina,
tæpra fjögurra ára gamall og ólst þar upp.
Ingibjörg systir mín var tekin að Vaði í Skriðdal af Ingibjörgu Bjama-
dóttur frá Viðfirði og manni hennar, Jóni Jónssyni. Ingibjörg var á Vaði
í tæp tvö ár, en fluttist þá til Bjargar Jónsdóttur ljósmóður, sem verið
hafði ráðskona hjá föður mínum um tíma eftir að móðir mín dó.
Margir hafa talað um það hvað foreldrar mínir hafi verið samrýmdir
og samtaka í öllu sem gert var á heimilinu. Hefðu því flestir látið bugast
eftir slfkt áfall sem faðir minn varð fyrir við fráfall móður minnar, en
hann þraukaði. Varðandi afkomuna voru ýmsar blikur á lofti. Dýrtíðin
var á uppleið, en afurðir búsins hækkuðu ekki að sama skapi.
Byggingaframkvæmdirnar stóðu sem hæst. Um tvennt var að velja: að
gefast upp, eða að halda áfram, sem hann og gerði.
Af þeim ástæðum sem áður var getið varð hann stórskuldugur í kaup-
félaginu á Reyðarfirði og var því nauðbeygður til að draga úr fram-
kvæmdum við bygginguna. Árið 1920 mátti stóra húsið heita fullbyggt
að öðru leyti en því að hann hafði hætt við að byggja þriðju hæðina.
Árið 1918 kemur á Mýrarheimilið ung og falleg stúlka, Ingifinna
Jónsdóttir, fædd 7. október 1895, til að kenna þar börnum sveitarinnar,
því á Mýrum voru stærstu húsakynnin og jörðin miðsvæðis í sveitinni.
Þar kennir hún til ársins 1920 er faðir minn ræður hana sem ráðskonu á
heimilið og kvænist henni síðan 22. september 1923.
Ingifinna var fædd að Borg í Skriðdal, dóttir Jóns Björgvins Jónssonar
bónda á Vaði og Guðrúnar Bjargar Eyjólfsdóttur frá Stafafelli í A-
Skaftafellssýslu, er síðar varð húsfreyja á Efra-Firði í Lóni í A-Skafta-
fellssýslu.
Ingifinna lærði organleik hjá Lárusi Tómassyni á Seyðisfirði, föður
Inga T. Lárussonar tónskálds. Fór hún síðan í Kennaraskóla fslands vet-
urinn 1916-17 og stundaði næsta vetur nám í organleik hjá ísólfi Páls-
syni.
Eftir að Ingifinna kom austur gerðist hún kennari, eins og áður er sagt,
og organleikari í Þingmúlakirkju. Var hún organleikari þar til æviloka
og kenndi auk þess á orgel og setti upp leikrit í Skriðdal og fór með þau
í nágrannabyggðir, meðal annars til Reyðarfjarðar. Einnig var hún um
tíma formaður Kvenfélags Skriðdælinga.