Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1995, Qupperneq 71
MÚLAÞING
69
um þeirra komið fyrir víðsvegar í hreppnum. Loks var eftir aðeins ein
stúlka 17 ára, sem ekki hafði verið ráðstafað. Þá er það Jósef sem bjarg-
ar málinu. Hann bauðst til að taka stúlkuna til sín, og var það vel þegið
af yfirvöldum hreppsins. Stúlka þessi hét Ragnhildur Stefanía Jónasdótt-
ir fædd 19. febrúar 1885 að Leifsstöðum í Vopnafirði. Dvaldi hún hjá
Jósef á meðan hann lifði eða til ársins 1946. Hún reyndist bráðdugleg til
allra verka, skemmtileg og skarpgáfuð, var t.d. vel hagmælt. Mundi
Jósef aldrei hafa getað fengið betri bústýru.
A Felli bjó Jósef í sextán ár og skiptust þá á skin og skúrir. Fyrstu
árin, sem hann bjó á Felli, eða frá aldamótum og fram til 1910, var góð-
æri mikið í Vopnafirði, og tjölgaði þá Jósef búfé sínu mikið, og urðu
ærnar um 500 þegar mest var. Fór hann oft með 100 sauði í sláturhúsið,
fékk yfir 20 krónur fyrir sauðinn og þótti það gott þá. Græddi því Jósef
vel á þeim árum, því vinnufólk hafði hann sjaldan. Þótti hann svo vinnu-
harður að menn gengu úr vistinni frá honum.
Eitt sinn réði hann til sín vinnumann, sem Bjarni hét. Þegar leið á árið
gekk Bjarni úr vistinni, en Jósef hélt farangri hans og sleppti honum
ekki, þótt hart væri eftir gengið, og heimtaði jafnvel bætur fyrir brot á
ráðningarsamningi. Loks tók hreppstjórinn málið í sínar hendur, heim-
sótti Jósef og krafði hann um eigur Bjarna, en Jósef neitaði sem fyrr.
Stóðu þeir í nokkru þjarki um þetta, þar til hreppstjórinn sparkaði upp
skemmuhurð, svo hún mölbrotnaði. Þar inni var dót Bjarna og tók
hreppstjórinn það og fór sína leið. Ekki kærði Jósef þessar aðfarir og lét
kyrrt liggja. En ekki fékk Jósef sér fleiri vinnumenn á meðan hann bjó á
Felli. Það er því öruggt að þau Jósef og Ragnhildur voru ein með þetta
stórbú alla tíð.
Þótt þau bæði væru annáluð fyrir dugnað um allan Vopnafjörð, var
þess vitanlega ekki að vænta að þau gætu heyjað fyrir þessum fjárfjölda,
því auk fjárins átti hann einnig um 17 hesta og þrjá nautgripi.
Fell var talin afbragðs útbeitarjörð, enda lifði féð og hestarnir að lang-
mestu leyti á útigangi. Það lætur því nærri, að þar sem engar girðingar
þekktust á þeim árum, þá hafi fé Jósefs gengið í lönd annarra jarða.
Næsta jörð fyrir framan Fell er prestsetrið Hof. Það er stór jörð og land-
mikil. Þangað sótti eðlilega fé Jósefs og var ekki við gert. Sama ár og
Jósef fór að búa á Felli, fékk séra Sigurður P. Sivertsen veitingu fyrir
Hofi, og voru þeir nágrannar í tólf ár, eða þar til Háskóli Islands var
stofnaður og séra Sigurður skipaður dósent þar. Samkomulag þeirra Jós-
efs var gott, enda mun Sigurður ekki hafa verið landsár og ekki fárast
yfir því þótt féð á Felli gengi í landi hans. Þetta mat Jósef við Sigurð og