Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.09.2009, Síða 51

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.09.2009, Síða 51
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 4. tbl. 85. árg. 2009 47 Ritrýnd fræðigrein báðum deildum og sjúkraliðum með framhaldsnám í öldrunar- hjúkrun á deild A haustið 2003. Rannsóknin stóð yfir frá febrúar 2004 til febrúar 2005. Í byrjun árs 2004 voru gerðar breytingar á mönnunarsamsetningu á deild A en hefðbundin mönnunarsamsetning var áfram á deild B. Deild A var mönnuð með 5 sjúkraliðum með framhaldsmenntun, sérhæfðu aðstoðarfólki og sjúkraliðum en færri hjúkrunarfræðingum en ella. Á deildinni voru á morgunvöktum 1–2 hjúkrunarfræðingar. Á kvöldvöktum voru 1–2 sjúkraliðar með framhaldsnám með verkstjórn á deildinni en höfðu bakvakt hjúkrunarfræðings á deild B. Hlutverk sjúkraliða með framhaldsnám var að vinna með hjúkrunarfræðingi sjúklings að gerð hjúkrunaráætlunar hans, framfylgja áætlun um hjúkrunarmeðferð og sjá um útfærslu á framkvæmd, skipuleggja og stjórna vinnu aðstoðarfólks og kalla til hjúkrunarfræðing ef ástand sjúklinga breyttist. Ákveðinn hópur hjúkrunarfræðinga af deild B tók að sér að bera ábyrgð á sjúklingum sem höfðu flutt af deild B yfir á deild A þar sem þeir biðu eftir flutningi á hjúkrunarheimili. Þeir voru því í hlutverki ráðgefandi hjúkrunarfræðings og hlutverk þeirra fólst í því að fylgjast með og meta þessa sjúklinga á deild A og setja upp hjúkrunarmeðferð fyrir þá í samvinnu við sjúkraliða með framhaldsnám á deildinni. Hver sjúklingur var því skráður með hjúkrunarfræðing sem bar ábyrgð á meðferð hans (sem annaðhvort starfaði á deild A eða B) og sjúkraliða með framhaldsnám auk almenns sjúkraliða eða sérhæfðs aðstoðarmanns. Í tengslum við þessar breytingar voru gerðar breytingar á vali á sjúklingum inn á báðar deildirnar. Á deild A voru sjúklingar í stöðugu ástandi og flestir að bíða eftir hjúkrunarheimili og þurftu því ekki stöðuga viðveru hjúkrunarfræðings. Á deild B voru hins vegar sjúklingar í óstöðugu ástandi sem þurftu stöðuga viðveru hjúkrunarfræðings. Rannsóknarfundir, opnir öllum starfsmönnum, voru haldnir vikulega eða hálfsmánaðarlega á deild A allt tímabilið. Á fundunum gafst tækifæri til að ræða vandamál sem upp komu í rannsókninni. Þar fór fram mikilvægur hluti starfendarannsóknarinnar og tók skipulag á deildinni og verkaskipting breytingum að hluta vegna þeirrar umræðu sem þar fór fram. Einnig var bætt við handleiðslu fyrir hjúkrunarfræðinga og sérmenntaða sjúkraliða á rannsóknartímabilinu. Á deild A var framkvæmt RAI-mat þannig að hægt var að skoða árangur umönnunar með þeim 20 RAI-gæðavísum sem reiknast við gerð RAI-mats. RAI-gæðavísar eru bornir saman úr niðurstöðum frá tveimur tímabilum, þ.e. þegar rannsóknin var að hefjast (febrúar 2004 til ágúst 2004; n=13) og síðan þegar hún var komin vel á veg (september 2004 til mars 2005; n=31). Mögulegt er að fleiri en eitt RAI-mat sé frá sama einstaklingi ef hann var á deildinni bæði tímabilin. Könnun á starfsánægju var lögð fyrir starfsmenn á deild A í upphafi rannsóknar í febrúar og undir lok rannsóknarinnar í nóvember 2004. Í október 2004 voru tekin viðtöl við þrjá rýnihópa, þ.e. hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða með framhalds nám og sjúkraliða og sérhæfðs aðstoðarfólks. Valdir starfsmenn og rannsakendur héldu dagbók allt rannsóknartímabilið. Úrvinnsla gagna Tölfræðileg úrvinnsla fór fram með tölfræðiforritinu SPSS (Statistical Package for the Social Sciences) útgáfu 11,0 (SPSS, 2001). Notuð var lýsandi tölfræði við útreikninga starfsánægjukönnunarinnar og marktækni reiknuð með t-prófi fyrir óháð úrtök þar sem ekki er vitað hverjir svöruðu listunum og einhver starfsmannavelta var á tímabilinu (Altman, 1990). Lýsandi tölfræði var notuð við skoðun á þeim 20 RAI- gæðavísum sem reiknaðir eru út fyrir íslensk hjúkrunarheimili (Zimmerman, 2003) og sérstaklega voru skoðaðir gæðavísar sem taldir eru gefa bestar vísbendingar um gæði (Tafla 1) (Rantz o.fl., 2004). Niðurstöður gæðavísa eru tvígildar, þ.e. annaðhvort er gæðavísirinn til staðar (já) hjá einstaklingnum eða ekki (nei). Þar sem fjöldi þátttakenda í megindlegum þætti rannsóknarinnar var lítill er tölfræðilegur styrkur lítill og því litlar líkur á að finna tölfræðilega marktækar niðurstöður. Niðurstöður gefa þó mikilvægar vísbendingar. Þeir starfsmenn, sem tóku þátt í rýnihópum, höfðu verið í vinnu á deildum A og B allan rannsóknartímann. Tilgangur rýnihópanna var að skoða upplifun þátttakenda af breytingunum. Fenginn var utanaðkomandi aðili sem starfsmenn þekktu en tengdist ekki verkefninu til að stjórna umræðum í rýnihópunum og var það gert til að auka áreiðanleika niðurstaðna. Umræða í rýnihópum var tekin upp á segulband og umrituð. Rannsakendur fengu textann í hendur án persónuauðkenna. Textinn var síðan greindur út frá sjónarhorni túlkandi fyrirbærafræði (Van Manen, 1997). Rannsakendur lásu textann yfir nokkrum sinnum og greindu þemu hver fyrir sig. Þeir hittust svo og fóru saman yfir textann og samræmdu greininguna. Aðilinn, sem stýrði rýnihópunum, hitti rannsakendur og fór með þeim yfir greininguna. Rannsakendur kynntu síðan túlkun textans fyrir hópunum sem tóku þátt í rýnihópaviðtölunum og gáfu þeir samþykki sitt fyrir túlkuninni. Dagbókarskrif fólust í að starfsmenn úr öllum stéttum á deild A og hjúkrunarfræðingur á deild B, ásamt rannsakendum héldu dagbók allan rannsóknartímann. Hér var tilgangurinn einnig að skoða upplifun þátttakenda af breytingunum. Þátttakendur skráðu hugleiðingar sínar um breytinguna, hvernig hún kæmi út og hvernig þeim liði. Alls skráðu 7 starfsmenn 66 dagbókarfærslur, minnst voru 2 færslur en mest 20 færslur. Fengin var aðstoð utanaðkomandi sérfræðings í hjúkrun við greiningu á þeim texta. NIÐURSTÖÐUR Gæði hjúkrunar Á fyrrihluta rannsóknartímabils eða febrúar – ágúst 2004 voru gerð færri möt en áætlað hafði verið eða einungis þrettán RAI- möt. Á seinna tímabilinu september 2004 til mars 2005 var hins vegar gert þrjátíu og eitt mat. Eins og áður hefur komið fram var gerð breyting á þeim sjúklingahópi sem dvaldist á deild A með því að færa til sjúklinga á milli deilda. Þannig áttu að vera sjúklingar í stöðugu ástandi á deild A og flestir að bíða eftir hjúkrunarheimili. Vísbendingar um

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.