Jón á Bægisá - 01.11.2008, Page 12
Ingibjörg Haraldsdóttir
Tsékhov. Ef einhver hefur sterk höfundareinkenni og söng í sínum verk-
um, þá er það Tsékhov. Auk þess hefur hver persóna í leikritum hans að
sjálfsögðu sinn eigin, sérstaka söng. Og textinn er auðvitað himneskur
— fyndinn, hugljúfur, dramatískur, Ijóðrænn, tragískur ... allt sem þarf í
leikriti. Maður öfundar leikarana sem fá að smjatta á þessum texta á frum-
málinu. Þýðandinn reynir að gera sitr besta til að íslenskir leikarar fái eitt-
hvað sambærilegt að smjatta á. Og það þarf að hljóma vel. Hvert orð þarf
að heyrast. Ekki bara heyrast: smjúga inn í hlustir áhorfenda og þaðan inn
í sálir þeirra og vekja hugsanir og tilfinningar sem Tsékhov lagði í þennan
texta á sínum tíma og eru ástæðan fyrir því að leikritin lifa enn, rúmum
hundrað árum eftir lát höfundarins.
í Rússlandi er afskaplega sterk hefð fyrir því hvernig skuli túlka og
setja upp leikritin hans Tsékhovs, hefð sem byggir á kenningum þess merka
leikhúsmanns Konstantíns Staníslavskís, en í leikhúsi hans, Listaleikhús-
inu í Moskvu, voru leikrit Tsékhovs yfirleitt frumflutt og þeim skapaður
búningur sem reynt var að herma eftir út um allan heim. Þegar ég bjó í
Moskvu var beinlínis bannað að fara aðrar leiðir, leikarar Listaleikhússins
höfðu einskonar einkarétt á hlutverkum sem þeir höfðu leikið jafnvel um
áratuga skeið. Ungur leikstjóri, Efros að nafni, reis upp gegn hefðinni árið
1968. Hann setti upp Þrjár systur í öðru leikhúsi og á vægast sagt annan
hátt en tíðkaðist í Listaleikhúsinu. Eg var svo heppin að sjá þá sýningu
áður en hún var bönnuð, sem gerðist í kjölfarið á hatrömmum blaðaskrif-
um gamla liðsins í Listaleikhúsinu. Það sem Efros gerði mundi þó varla
teljast róttækt í dag. Hann vék sér undan natúralisma Staníslavskís, á svið-
inu var hvorki hús né garður og aðeins þeir leikmunir sem notaðir voru
í leiknum. Eg man eftir rólum sem voru talsvert notaðar og sum atriðin
voru meira og minna sungin eða rauluð, en þegar fram í sótti tók tragedían
við og varð einmitt sterkari vegna þess að kómedían hafði fengið að leika
lausum hala í byrjun.
Nokkrum árum seinna var ég komin til Kúbu og tók þátt í að fara yfir
spænska þýðingu á Þremur systrum og laga hana að kúbönsku leikhúsi, var
síðan aðstoðarleikstjóri þeirrar sýningar sem var talsvert miklu róttækari
en áðurnefnd sýning Efrosar í Moskvu. 1997 þýddi ég svo Þrjár systur á
íslensku fyrir Þjóðleikhúsið. Leikstjóri þeirrar sýningar var Litháinn Ri-
mas Tuminas sem var ekki aldeilis á línu Listaleikhússins gamla fremur en
kúbanskur starfsbróðir hans Vicente Revuelta.
Við getum haft allar mögulegar skoðanir á þessum og öðrum sýn-
ingum á Þremur systrum, hvort sem þær eru hefðbundnar eða nýstárlegar,
það er eiginlega alveg sama hvernig farið er með þetta leikrit, það klikkar
aldrei. Staníslavskí snýr sér kannski við í gröfinni, en ekki Anton Pavlovítsj
Tsékhov, hann brosir bara og ypptir öxlum.
10
á■ ■ /j/'eý/áiá^ — Tímarit um þýðingar nr. 12 / 2008