Jón á Bægisá - 01.11.2008, Qupperneq 28
Astráður Eysteinsson
sjálfsögðu frelsi til að vinna með tungumálið eftir sínu höfði og bregða frá
hinu verkinu á svo gagngeran hátt að hæpið þætti eða jafnvel ótækt í flest-
um þýðingum. Þótt litið sé svo á að um eitt verk sé að ræða, verður rýnandi
að gera ráð fyrir að það öðlist ólíkar birtingarmyndir í þessum tveimur
málheimum höfundarins. Sjálfsþýðingin er því ekki eingöngu þýðing text-
ans sem varð til á undan heldur líka „endurritun“ og jafnvel ný tjáning þess
merkingarheims sem báðar gerðir verksins eru sprottnar af.
Þá má benda á að sjálfsþýðing einkennist ekki af tvöföldu höfundar-
gildi á sama hátt og aðrar þýðingar. Á hinn bóginn má spyrja hvort sá
Beckett sem skrifar á frönsku sé sami Beckett og sá sem skrifar á ensku.
Er þetta ekki tvíbent höfundarstaða? Er undirliggjandi merkingarheimur
enska textans sá sami og þess franska?12 Og þótt höfundur hafi eindregn-
ara „leyfi“ til að breyta verkinu en þýðandi - að bæta við eða sleppa, skerpa
á einhverju, skipta um stílsnið, o.s.frv., þá eru einhver takmörk fyrir því
hversu mikið er að gert áður en telja verður að um tvö aðskilin verk höf-
undarins sé að ræða fremur en tvær gerðir sama verks á aðskildum tungum.
Jafnframt kemur við nánari athugun í ljós að það sem telst til einkenna
sjálfsþýðinga setur ekki síður svip sinn á aðrar þýðingar. Þýðendur eru ekki
aðeins að þýða bókstaf frumverksins, þeir leitast við að skilja þá menn-
ingu og þann merkingarheim sem verkið sprettur af og þýðingin er líka
endurritun þess heims. Raunar hefur hugtakið „endurritun“ verið notað
í vaxandi mæli um þýðingar, m.a. til að ná utan um þýðingar sem túlka
frumtextans frjálslega.13
V
I tilviki þeirra sjálfsþýðinga, sem ég þekki til, er yfirleitt stutt í tíma á milli
tveggja gerða höfundarins; þær spretta úr sama tímabili í höfundarsögunni.
Vissulega eru undantekningar frá þessu, til dæmis hjá Nabokov, en dæmi
Gunnars Gunnarssonar er hið eina sem ég þekki um að höfundar hafi á
efri árum endurritað drjúgan hluta höfundarverks síns sem saminn var
12 Þá má jafnframt spyrja, til að vinda enn upp á vandann, hvort þýðandi Becketts sem
velur að þýða verk úr öðru málinu geti jafnframt stuðst við gerðina á hinu málinu sem
frumtexti væri.
13 Einn helsd talsmaður endurritunarhugtaksins er André Lefevere, sjá t.d. grein hans
„Why Waste Our Time on Rewrites: The Trouble with Interpretation and the Role of
Rewriting in an Alternative Paradigm“, í: Theo Hermans, ritstj., The Manipulation of
Literature: Studies in Literary Translation, New York: St. Martin’s Press 1985, s. 215-243, og
bók Lefevere Translation, Rewriting, and the Manipulation ofLiterary Fame, London og New
York: Routledge 1992.
26
á fffic/yáá - Tímarit um þýðingar nr 12 / 2008