Bændablaðið - 17.12.2015, Page 78
78 Bændablaðið | Fimmtudagur 17. desember 2015
Ferskeytlunnar fagra gull
flesta yndi nærir,
en atómskálda ónýtt bull
enginn maður lærir.
Svo orti sveitarskáld Fljótshlíðinga
og talaði fyrir munn margra sveita-
manna á þeim tíma. Fyrr meir átti
hver sveit sitt skáld sem sá um að
yrkja um hina látnu, skrifa ljóðabréf
þar sem bréfritari tíundar helstu tíð-
indi og tíðum ortu slíkir svokallaðar
bændavísur og formannavísur þar
sem ein ferskeytla var um hvern karl
í sveitinni.
Kjóla afstyrmi
Fljótshlíðin hafði hér nokkra sér-
stöðu. Sveitarskáld Fljótshlíðar
var kona og þó ekki ein af mekt-
arhúsfreyjum sveitarinnar. Hún var
fátæk einstæð vinnukona sem gekk
að daglegum störfum og fylgdi sömu
fjölskyldunni, kynslóð eftir kynslóð.
Skáldið hét Helga Pálsdóttir og
var lengst af ævi á bænum Grjótá.
Foreldrar hennar voru bændur á
Arngeirsstöðum þar sem Helga var
fædd 1877 og þar og í Tungukoti
frá Arngeirsstöðum ólst Helga upp.
Bróðir Helgu var Guðjón, vegaverk-
stjóri á Stokkseyri sem einnig var
skáldmæltur. Frá hans hendi komu út
þrjár bækur með sálmakveðskap og
dulrænum efnum en bæði voru systk-
inin afar trúuð og andlega þenkjandi.
Þegar Helga Pálsdóttir lést 1973
hafði ekki annað birst eftir hana á
prenti en örfá kvæði í safnriti ljóða
úr Rangárþingi og í héraðsritinu
Goðasteini. Nú hafa Grjótársystur,
Ásta og Ásrún Þorbjörnsdætur bætt
um og safnað saman í eina bók öllum
kvæðum Helgu á Grjótá en þau hafði
heimilisfólkið týnt saman af ýmsum
miðum og smákompum. Bók þessi
kom út nú á haustmánuðum hjá
bókaútgáfunni Sæmundi á Selfossi
og er hinn veglegasti gripur, prýdd
fjölda mynda og með henni fylgja
formálsorð Ástu á Grjótá, greining
bókmenntafræðingsins Hörpu Rúnar
Kristjánsdóttur í Hólum og bókar-
auki frá Þórði í Skógum.
Auk þess að yrkja um látna sam-
ferðamenn og ljóðabréf sem fyrr er
nefnt er ástin hugleikin hinni ein-
stæðu vinnukonu. Hún varð sjálf
fyrir vonbrigðum ef ekki svikum
í ástamálum og gerir að því grá-
glettið grín og gengur raunar lengra
í spaugi um sjálfa sig en nokkurn
annan. Í lok ljóðabréfs til sveitunga
kveður hún.:
Að Butru lýðir
bullið stríða færi
syni Ólafs Símoni,
sent af kjóla afstyrmi.
Það eru skemmtilegar tilviljan-
ir að skáldið Helga er til heimilis
á sama bæ og eitt frægasta skáld
sveitarinnar, Þórhildur, kona Þráins
Sigfússonar en frá þeim hjónum segir
í Njálssögu. Þegar Þránni gerist of
starsýnt á unglingsstúlkuna Þorgerði
dóttur Hallgerðar langbrókar ljóðar
Þórhildur á bónda sinn og skammar
hann fyrir störu og girndarglampa í
augum; Era gapríplar góðir - gægr er
þér í augum. Vísan kostaði Þórhildi
bæði veislusetuna og hjónabandið
og vel má vera að andlegt sjálfstæði
Helgu á Grjótá hafi hún með sama
hætti kostað hana kærastann og
mögulegan húsfreyjusess.
Gluggi til fortíðar
Með bók Helgu opnast samtíman-
um gluggi inn í horfinn heim hins
íslenska bændasamfélags þar sem
skilyrðislaus trú á alvaldan Guð
leikur stórt hlutverk. Vegir hans eru
órannsakanlegir og dauðinn sem
er hvarvetna nærri í slysförum og
ungbarnadauða fyrri tíðar er tekið af
auðmýkt. Þegar ungu barni er fylgt
til grafar er skáldinu hugleikið að
það sé leyst frá þeirri þraut sem líf í
spilltum heimi er. Það er sælt að fá
að deyja Drottni sínum, jafnt ungum
sem gömlum.
Í sorgum og stríði hér sérhver má þreyja,
syndum og veraldar fláttskap og lygð,
hve sælt er þá ungur í Drottni að deyja
og dvelja um eilífð í sælunnar byggð.
En þú ert nú leystur frá líkamans stríði,
lífsins þig nístir ei helkalda hjarn,
þig umvefur lausnarans faðmurinn fríði,
frelsaða, indæla, saklausa barn.
Ó, að vér mættum hér allir svo þreyja
sem ungbörnin flekklaus í sakleysi og
dyggð,
hve sælt væri okkur þá síðar að deyja
og sælu þar njóta er bugar ei hryggð.
Djarft framtak undir dulnefni
En þrátt fyrir að Helga beri fast með
sér anda 19. aldar þá lætur nútíminn
hana ekki ósnerta. Hún hrífst með
þegar húsfreyjur þessa lands fá kosn-
ingarétt fyrir réttum 100 árum og
yrkir þá stórmerkan bálk sem er hlið-
stæða við hina óteljandi bændavísur
sem til eru úr hverri sveit. Framan á
velktri heimabundinni stílakompu
með maskínupappír í spjöldum
stendur skrifað:
Konu-vísur, ortar 19,15
Njörður í Nóatúnum
Framtakið er kannski djarft þegar í
hlut á fátæk vinnukonu á litlu koti.
Hún setur því ekki nafnið Helga
Pálsdóttir undir heldur nafn hins
auðuga Njarðar í Nóatúnum sem
ræður yfir veðri og vindum. Í reynd
má líkja þessari litlu handskrifuðu
kompu við bókaútgáfu því vitaskuld
gekk bókin bæ af bæ í sveitinni og
var lesin og endurrituð.
Helga yrkir hér eingöngu um hús-
freyjur sveitarinnar og fylgir þeirri
hefð sem var í bænda- og formanna-
vísum að lýsingar eru allar jákvæðar
en miða að því að lýsa almennum
mannkostum viðkomandi. Grípum
hér niður í þar sem sagt er frá
hinni fögru Kristínu Eyjólfsdóttur
á Hlíðarenda og fátækri grannkonu
hennar, Ingibjörgu Guðmundsdóttur
í Hallskoti.:
Myndarleg er menja slóð,
margt kann þar á benda,
Kristín fögur, kát og góð
kona á Hlíðarenda.
—
Í Hallskoti Ingibjörg
oft með glöðu sinni
þolinmóð, þó þrengi að mörg
þraut í fátæktinni.
Auk þeirra starfa fyrir íslenska
menningu að varðveita sveitar-
stemningu Fljótshlíðar í ljóði var
Helga á Grjótá einnig mikilsverð
heimildarkona
um þjóðhætti.
Í bókarauka er
frásögn Þórðar
T ó m a s s o n a r
af selstörfum í
Fljótshlíð og hefst
á orðunum.:
Helga Pálsdóttir
á Grjótá er einn af
tindunum í þeirri
fjölskipuðu sveit
karla og kvenna sem
hefur veitt mér dýr-
mætan fróðleik, fjöl-
þætta þekkingu varð-
andi forna, íslenska
lífshætti.
Helga var ein síð-
asta selráðskona lands-
ins þegar hún kvaddi þetta líf 1973
og lýsir í ritgerð Þórðar vel þeim
vinnubrögðum sem notuð voru um
aldir í Arnþórsseli inn af bænum
Teigi. Löngu síðar færir hún safn-
verðinum Þórði Tómassyni kaffi-
ketilinn sem þjónaði þar, sótsvartan,
dalaðan eirketil með fornlegri smíði.
Um grip þennan skrifar Þórður:
„Í mínum augum og líklega engra
annarra er þetta þjóðgripur og dýr-
gripur, einstætt vitni aldalangrar
búháttasögu þjóðar sem lært hafði
að færa fram líf í harðbýlu landi. “
mt
Helga Pálsdóttir (1877-1973)
vinnukona og sveitarskáld á Grjótá
í Fljótshlíð.
Hefti Helgu með Konuvísum
1915 hefur gengið um sveitina og
með þeim hætti verið ígildi bókar-
útgáfu.
Sótsvartur og dalaður eirketill frá
Arnþórsseli í Fljótshlíð, dýrgripur
sem ber aldarlangri búháttasögu
einstætt vitni.
Systurnar Ásrún og
Ásta með ljóðamöpp-
ur fóstru sinnar Helgu
Pálsdóttur við eldhús-
borðið á Grjótá. Elju
þeirra systra við að
koma þessum menn-
ingararfi til skila sér
nú stað í myndarlegri
bók.
Heimilisfólk á
Grjótá. Myndin er
talin frá því um
1924. Á henni
má þekkja Helgu
Pálsdóttur sem er
sitjandi önnur frá
hægri í fremri röð.
Í miðröðinni eru
meðal annars hjón-
in á Grjótá, Vilborg Jónsdóttir og
Sveinn Teitsson. Við hlið Sveins
og lengst til hægri í miðröð er Jón
Sveinsson faðir Vilborgar. Valgerður
Sveinsdóttir situr á móðurkné fyrir
miðri mynd og lengst til vinstri í
fremstu röð er önnur dóttir Vilborgar
og Sveins, Ingunn að nafni. Nöfn
annarra á myndinni eru óþekkt og
talið að hér hafi verið gestkomandi
ásamt heimilisfólki.
Úr bókinni Ljóð og líf Helgu Pálsdóttur á Grjótá:
Vinnukonan sem var sveitarskáld Fljótshlíðar
Bækur, tónlist & kvikmyndir
Grjótárfólkið.
Helga Pálsdóttir.
Konuvísurna
r.
Grjótársystur.