Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.04.2010, Page 13
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 2. tbl. 86. árg. 2010 9
Eru hindranir í vegi?
Margar hindranir geta verið fyrir því að
atvinnurekendur lítilla og meðalstórra
fyrirtækja leggja áherslu á forvarnir og
heilsueflingu. Ástæðurnar geta verið
skortur á fjármagni, hæfni og úrræðum,
fjölbreytilegt vinnuumhverfi, hröð starfs
mannavelta og tímaleysi þar sem
heilsuefling er ekki sett eins framarlega í
forgang og framleiðni (Stokols o.fl., 2002).
Það getur verið erfitt fyrir stjórnendur
fyrirtækja að réttlæta það að stórum
fjárhæðum sé varið í heilsueflingu á
vinnustaðnum þegar langtímaáhrif þess
á heilbrigt starfsfólk koma ekki í ljós
fyrr en mörgum árum síðar. Skortur
á þekkingu á forvarnaraðgerðum og
heilsueflingu getur einnig verið hindrun í
litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem
og skortur á möguleikum til þjálfunar
ásamt stuðningi og samvinnu við önnur
fyrirtæki og stofnanir. Þetta á sérstaklega
við á landsbyggðinni.
Á síðustu árum hefur verið lögð vaxandi
áhersla á heilsueflingu í íslenskum
fyrirtækjum en litlar upplýsingar eru
þó fáanlegar um heilsueflingu lítilla og
meðalstórra fyrirtækja á Íslandi. Hér á
landi, eins og í öðrum löndum, hafa
stór og vel stæð fyrirtæki haft forystu í
heilsueflingarstarfi.
Mikilvægi fagþekkingar
Einn mikilvægasti þáttur forvarna og
heilsueflingar á vinnustöðum er fræðsla
og ráðgjöf um hvernig efla megi heilsu
og öryggi allra sem þar starfa. Úrræði,
fræðsla, tæki og tól eru nauðsynleg til
að bæta heilsufar starfsmanna. Flestir
sérfræðingar, sem sinna forvörnum
og heilsueflingu í fyrirtækjum, þarfnast
viðbótarþjálfunar og menntunar ef vel
á til að takast (European Foundation for
the Improvement of Living and Working
Conditions, 1997). Með því að auka
fagþekkingu núverandi þjónustuaðila
og annarra, sem áhuga hafa á slíku
starfi, má leiða líkur að því að skilningur
atvinnurekenda og starfsmanna á
mikilvægi heilsueflingar og forvarna á
vinnustöðum aukist og að starfsmenn
taki meiri ábyrgð á heilsu sinni. Slíkt gæti
aukið vellíðan á vinnustöðum og leitt til
aukinnar framleiðni.
Þarfagreining
Áður en farið er af stað með nýtt
námskeið eða útbúið nýtt fræðsluefni er
mikilvægt að skipuleggja sig vel og gera
sér grein fyrir á hvað skuli leggja áherslu
og hver markmiðin skuli vera. Þá getur
verið mikilvægt að gera þarfagreiningu
(Thomson og Kohli, 1997). Með góðri
og ýtarlegri þarfagreiningu er hægt
að spara bæði fjármagn og tíma. Vel
skipulögð þarfagreining er nokkurs konar
frumathugun og oft nauðsynleg forvinna
sem leiðir í ljós hvort þörf er á fræðslu
eða ekki og kemur í veg fyrir óviðeigandi
fræðslu. Með því að gera þarfagreiningu
er leitað svara við mikilvægum
spurningum, til dæmis hvaða þekking er
fyrir hendi, hvaða hæfni búa viðkomandi
sérfræðingar yfir og hvaða hæfni skortir
þá. Leitað er svara við því hvar göt eru
í þekkingunni og hvaða fræðslu þarf
að veita til að fylla í þessi göt. Fyrsta
þrepið í fræðsluferlinu er að koma auga
á fræðsluþarfirnar með þarfagreiningu en
þannig verður fræðslan markvissari og
sérsniðin að þörfum þátttakenda.
Að koma í veg fyrir vinnuslys er hluti af heilsueflingu á vinnustað. Á þessari mynd frá 1943 hlúir
hjúkrunarfræðingur að starfskonu í vopnaverksmiðju í Bandaríkjunum.