Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.04.2010, Qupperneq 53

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.04.2010, Qupperneq 53
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 2. tbl. 86. árg. 2010 49 Ritrýnd fræðigrein 1996; Manias o.fl., 2006). Ómeðhöndlaðir verkir eftir aðgerð geta orsakað líffræðilegar og sállífeðlisfræðilegar breytingar sem auk þess að tefja bataferlið spilla almennri líðan og lífsánægju, geta aukið líkur á sjúkdómum og dauðsföllum og verið kostnaðasamar fyrir sjúklinginn og þjóðfélagið (Apfelbaum o.fl., 2003; Chung og Lui, 2003; Pasero, Paice o.fl., 1999). Af skrifum fræðimanna í hjúkrun virðist nokkuð ljóst að þeir telja hjúkrunarfræðinga, sökum stöðu sinnar innan heilbrigðiskerfisins, vera í lykilstöðu til að veita góða verkjameðferð og meta verki og áhrif verkjameðferðar (McCaffery og Ferrell, 1997). Verkir eru flókið fyrirbæri sem erfitt er að skilgreina og bera umfangsmikil fræðileg skrif um þá undanfarin ár og áratugi því vitni. Fræðimenn eru þó sammála um að verkur sé persónuleg og huglæg reynsla og að engir tveir einstaklingar skynji verki á sama hátt (Sikorski og Barker, 2005). Engu að síður er nauðsynlegt að skilgreina verkjareynsluna, annars er torvelt að skilja hana og meðhöndla (Anna Gyða Gunnlaugsdóttir, 2006). Verkir skurðsjúklinga eru skilgreindir sem bráðaverkir og sagðir stafa af staðbundinni taugasvörun við skaðlegu áreiti eins og skurðaðgerð eða áverka (Morgan o.fl., 2002). Þeir vara í þrjá til sex mánuði og hverfa þegar sjúkdómseinkennin dvína eða skurðurinn grær (Pasero, Paice o.fl., 1999). Skilgreining Alþjóðasamtaka um verkjafræði er að „verkur er óþægileg skynjun eða tilfinningaleg reynsla vegna raunverulegra eða hugsanlegra vefjaskemmda, eða honum er lýst á þann hátt“ (International Association for the Study of Pain, 1994). Starfandi hjúkrunarfræðingum er hins vegar tamast að nota skilgreiningu bandaríska hjúkrunarfræðingsins Margo McCaffery frá árinu 1968. Samkvæmt henni er verkur það sem einstaklingur segir hann vera og er til staðar þegar sá hinn sami segir að svo sé, eða með öðrum orðum, það sem einstaklingurinn segir um sína verki er áreiðanlegasta vísbendingin um verkinn (greint frá í McCaffery, 1999). Þessar skilgreiningar gefa til kynna að það sé samspil á milli lífeðlisfræðilegrar skynjunar verkja og tilfinningalegra og sálfræðilegra þátta. Svörun einstaklings við verk getur því verið mjög breytileg milli einstaklinga og hjá sama einstaklingnum á mismunandi tímum og því er sá sem finnur til bærastur á að skilgreina verk sinn (Morgan o.fl., 2002). Þessi flókna mynd verkja og hvernig sjúklingar greina frá verkjum sínum getur svo haft áhrif á samskipti heilbrigðisstarfsfólks við sjúklinginn, á hvernig það metur verki hans og á ákvörðun um verkjameðferð (Manias o.fl., 2005). Þar sem verkur er huglæg reynsla er ekki til nein ein hlutlæg aðferð til að meta verki. Kjarni góðrar verkjamaðferðar er hins vegar gott verkjamat. Sjónkvarði (e. visual analog scale), tölukvarði (e. numerical rating scale) og lýsingarorðakvarði (e. verbal rating scale) eru einfaldir kvarðar sem viðeigandi er að nota í klínísku umhverfi við mat á styrkleika verkja. Þeir eru sjúklingum auðskiljanlegir og þreyta þá síður en flókin verkjamælitæki. Þessir kvarðar eiga það sameiginlegt að gefa verkjastyrknum stig, oft með tölunum 0 til 10 (eða 0 til 100) eða með stighækkandi orðum eða myndum (Anna Gyða Gunnlaugsdóttir, 2006). Verkir eru algengir hjá skurðsjúklingum. Rannsóknir frá fjölmörgum löndum, meðal annars Bretlandi, Bandaríkjunum, Danmörku, Kanada, Hollandi, Svíþjóð, Þýskalandi, Kína og Ítalíu, sýna að 34% til 91% skurðsjúklinga, að öllu jöfnu um 80%, finna fyrir verkjum fyrstu daga eftir aðgerð (Apfelbaum o.fl., 2003; Carr, 2001; Chung og Lui, 2003; Eriksen o.fl., 2009; Sawyer o.fl., 2008; Sommer o.fl., 2009; Strohbuecker o.fl., 2005; Visentin o.fl., 2005; Warrén Stomberg og Öman, 2006). Þátttakendur í þessum rannsóknum fóru í margvíslegar aðgerðir, meðal annars kvensjúkdóma­, brjósthols­, augn­, kviðarhols­ og þvagfæraaðgerðir auk almennra óskilgreindra skurðagerða og var meðalstyrkur versta verkjar að jafnaði um 5,5 til 6,0. Tvær íslenskar rannsóknir hafa beinst að verkjum hjá skurðsjúklingum. Í annarrri voru kannaðar væntingar sjúklinga eftir skurðaðgerð til verkja og reynslu þeirra af verkjum. Í úrtakinu voru 130 sjúklingar sem höfðu farið í skurðaðgerð og voru helstu niðurstöður þær að sjúklingar bjuggust við að hafa og höfðu talsverða verki. Ályktað var að bæta þyrfti verkjameðferð sjúklinga eftir skurðaðgerð (Herdís Sveinsdóttir og Anna Gyða Gunnlaugsdóttir, 1996). Í hinni rannsókninni var markmiðið að skoða verkjameðferð á Landspítala. Þátttakendur voru 97 legusjúklingar á lyf­ og skurðlækningadeildum og voru niðurstaða og ályktanir sambærilegar við rannsókn Herdísar og Önnu Gyðu (Elínborg G. Sigurjónsdóttir o.fl., 2001). Þrátt fyrir að sjúklingar á sjúkrahúsum séu með talsverða verki sýna niðurstöður rannsókna að flestir eru þeir ánægðir með verkjameðferðina sem þeir fá (Apfelbaum o.fl., 2003; Chung og Lui, 2003; Elínborg G. Sigurjónsdóttir o.fl., 2001; Herdís Sveinsdóttir og Anna Gyða Gunnlaugsdóttir, 1996; Sawyer o.fl., 2008; Warrén Stomberg og Öman, 2006). Höfundar, sem vísað er í hér að framan, skýra flestir þetta ósamræmi þannig að sjúklingar séu í raun að meta framkomu heilbrigðisstarfsfólks og almenna aðhlynningu sem þeir fá á sjúkrahúsinu en ekki verkjameðferðina sjálfa. Það hlýtur að vekja upp spurningar um hvort sjúklingar séu almennt nægilega vel upplýstir um hvað heildarverkjameðferð felur í sér til að geta lagt mat á gæði hennar (Gordon o.fl., 2002). Mikilvægi góðrar verkjameðferðar felst í góðum áhrifum á bata sjúklings, en verkir hafa áhrif á daglegar athafnir sjúklinga og geta seinkað bata og útskrift af sjúkrahúsi (Shuldham, 1999; Walker, 2002). Ýmsar vísbendingar eru um að sjúklingar búist ekki við árangursríkri verkjameðferð (Idvall, 2002; Svensson o.fl., 2001) og fái ekki nægilega fræðslu um verki og verkjameðferð við innlögn á sjúkrahús (Gilmartin og Wright, 2007; Elínborg G. Sigurjónsdóttir o.fl., 2001; Sjöling o.fl., 2006). Flestar rannsóknir benda til að ávinningur góðrar fræðslu sé minni verkir (Blay og Donoghue, 2005; Garretson, 2004). Að búast við verkjum og fá ekki að vita í hverju heildstæð verkjameðferð felst getur valdið því að sjúklingur telji mikla verki óhjákvæmilega og hreinlega sætti sig við þá með ófyrirsjáanlegum afleiðingum á batann. Það hefur líka komið í ljós að sjúklingar eru tregir til að trufla heilbrigðisstarfsfólk við störf sín í þeim tilgangi að segja frá verkjum (Mann og Redwood, 2000; Lynch, 2001) og það getur einnig haft áhrif á meðferðina.

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.