Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.04.2013, Side 59

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.04.2013, Side 59
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 2. tbl. 89. árg. 2013 55 Ritrýnd fræðigrein SCIENTIFIC PAPER UMRÆÐA Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að meirihluti nýraþega á Íslandi fékk nýra frá lifandi gjafa og flestum var boðið nýra frá lifandi gjafa án þess að þurfa að biðja um það. Einnig kemur fram að tími í skilun fyrir ígræðslu er lengri hjá þeim sem fengu nýra frá látnum gjafa og skólaganga þeirra er styttri. Fleiri konur höfðu fengið nýra frá látnum gjafa og fleiri eru öryrkjar. Flestir nýraþegar fengu afhent fræðsluefni um nýraígræðslur en stór hluti taldi sig samt hafa þurft meiri stuðning og fræðslu frá lækni eða hjúkrunarfræðingi. Hlutfall lifandi nýragjafa hér á landi er hátt. Niðurstöður Reimer o.fl. (2006) sýna að um 91% nýragjafa hafa boðist til að gefa nýra án þess að nýraþegi hafi áður borið upp ósk um það og er það sambærilegt niðurstöðum í okkar rannsókn. Rannsókn Önnu Dóru Sigurðardóttur (2009), þar sem hún tók viðtöl við sjö íslenska nýragjafa, sýndi einnig að flestir nýragjafanna þurftu ekki umhugsunarfrest þegar ljóst var að ættingi þurfti nýraígræðslu. Enginn gjafanna í þeirri rannsókn sá eftir því að hafa gefið nýra og þeir voru þakklátir fyrir að geta bætt líf þegans. Rannsókn okkar sýnir að 24% nýraþega, sem fengu nýra frá lifandi gjafa, þurftu ekki á skilunarmeðferð að halda fyrir ígræðslu en rannsóknir hafa sýnt að styttri tími í skilun lengir líftíma ígrædda nýrans (Meier­Kriesche og Schold, 2005). Ekki vilja allir sjúklingar með lokastigsnýrnabilun fá nýra frá lifandi gjafa og í niðurstöðum okkar kemur fram að um helmingur þeirra sem fékk nýra frá látnum gjafa taldi sig geta fengið gjafanýra frá lifandi gjafa en vildi ekki þiggja það. Þetta er nokkru hærra hlutfall en í rannsókn Reese o.fl. (2008) þar sem 22% nýraþega höfðu afþakkað nýra frá lifandi gjafa. Meirihluti nýraþeganna segist hafa fengið stuðning frá heilbrigðisstarfsfólki þegar þeir voru komnir með lokastigsnýrnabilun en hlutfallið er hærra meðal nýraþega sem fengu nýra frá lifandi gjafa. Rannsókn okkar sýnir að hluti nýraþega telur að upplýsingar og fræðslu hafi vantað frá heilbrigðisstarfsfólki fyrir ígræðslu og að þeir sem fengu nýra frá látnum gjafa telja að sig hafi frekar vantað fræðsluefni. Velta má fyrir sér ástæðum þessa en skortur hefur verið á íslensku fræðsluefni um ígræðslur, ígræðsluaðgerðir og meðferð eftir aðgerð. Einnig er ljóst að sjúklingar á biðlista eftir nýra frá látnum gjafa bíða oft lengi eftir ígræðslu. Huga þarf því að fræðsluþörf þeirra á biðtímanum. Rannsókn okkar leiðir í ljós að ef fræðslu frá lækni eða hjúkrunarfræðingi vantar telja nýraþegar, sem fá nýra frá látnum gjafa, félagslega virkni sína og andlega líðan verri en ella. Þetta samræmist kenningum Wright (2008) en hún leggur áherslu á mikilvægi hjúkrunarfræðinga við að styðja einstaklinga og fjölskylduna alla í veikindum og kreppu. Pradel o.fl. (2008) könnuðu áhrif fræðslu á vilja til að leita eftir gjafanýra frá lifandi gjafa meðal 214 skilunarsjúklinga. Niðurstöður þeirra sýndu að eftir formlega fræðslu íhuguðu skilunarsjúklingar frekar möguleikann á nýragjöf frá lifandi gjafa. Höfundar telja að aukin fræðsla geti fjölgað lifandi nýragjöfum. Reese o.fl. (2009) benda á að ef auka á framboð á nýrum frá lifandi gjöfum þurfi að upplýsa bæði verðandi nýraþega og gjafa fyrir ígræðsluna. Heilbrigðisstarfsfólk þarf að vera meðvitað um fræðsluþarfir skjólstæðinga sinna og kynna þá þjónustu sem í boði er, til dæmis að fá að tala við einstaklinga sem hafa gengið í gegnum ígræðsluferlið, enda kom í ljós í niðurstöðum rannsóknarinnar að meirihluti nýraþega hefði kosið það. Rannsókn okkar sýndi að andleg heilsa nýraþega samkvæmt niðurstöðum SF­36v² er sambærileg meðaltali þýðis en líkamleg heilsa mælist undir meðaltali. Þetta er sambærilegt niðurstöðum erlendra rannsókna (Liu o.fl., 2009; Ogutmen o.fl., 2006) og bendir til að heilsa og lífsgæði íslenskra nýraþega sé ekki ólík því sem er hjá nýraþegum í öðrum löndum. Erlendar rannsóknir sýna að lífsgæði nýraþega aukast við ígræðslu en þau verða ekki sambærileg almennu þýði (Aasebo o.fl., 2009). Þessi niðurstaða kemur ekki á óvart þar sem einstaklingarnir þurfa í kjölfar ígræðsluaðgerðar að horfast í augu við áður óþekkt viðfangsefni, svo sem möguleikann á að líkaminn hafni ígrædda nýranu (Buldukoglu o.fl., 2005). Ónæmisbælandi lyfjameðferð er flókin. Henni geta fylgt margvíslegar aukaverkanir og aukin tíðni ýmissa sjúkdóma, svo sem krabbameins, sérstaklega húðkrabbameins, hjarta­ og æðasjúkdóma, beinþynningar og sykursýki (Salifu o.fl., 2005). Einnig þurfa nýraþegar að vera undir ævilöngu eftirliti lækna (Liu o.fl., 2009; Runólfur Pálsson, 2000). Til þess að bæta lífsgæði og fækka innlögnum á sjúkrahús þurfa nýraþegar því að þekkja lyfin og aukaverkanir þeirra vel (Talas og Bayraktar, 2004). Nýraþegar hafa ekki allir getu til að fara út á vinnumarkaðinn eftir ígræðsluaðgerðina. Okkar rannsókn sýnir að um helmingur nýraþeganna eru örorkuþegar. Þetta er hærra en hlutfall öryrkja í erlendum rannsóknum en það er á bilinu 15­34% (Aasebo o.fl., 2009; Stavem og Ganss, 2006). Ekki var kannað í okkar rannsókn hversu margir voru öryrkjar fyrir ígræðsluaðgerð, en skilunarmeðferð er erfið og tímafrek og oft erfitt að stunda vinnu samhliða henni. Öryrkjar telja almenna heilsu sína lakari, finna frekar fyrir takmörkun daglegs lífs vegna andlegra vandamála, telja afkomu sína verri og telja sig sjaldnar vera hamingjusama. Því er ljóst að öryrkjum þarf að gefa sérstakan gaum eftir ígræðslu. Rúmlega 65% þátttakenda í okkar rannsókn eru launþegar og er það nokkuð hátt hlutfall borið saman við erlendar rannsóknir þar sem hlutfallið er á bilinu 10­75% (Rosenberger o.fl., 2010; Stavem og Ganss, 2006). Í rannsókn okkar er ekki marktækur munur á lífsgæðum nýraþega eftir því hvort þeir fengu nýra frá látnum eða lifandi gjafa. Það er sambærilegt niðurstöðum Griva o.fl. (2002) sem könnuðu lífsgæði og tilfinningar 347 nýraþega. Nýraþegar hafa hins vegar oft áhyggjur af heilsufari lifandi nýragjafa og eiga erfitt með að þiggja svo stóra gjöf (Gill og Lowes, 2008). Rannsókn Önnu Dóru Sigurðardóttur (2009) sýndi að nýragjafarnir voru sáttir við ákvörðun sína og töldu að tengsl hefðu orðið nánari eftir aðgerð, nema ef um maka var að ræða, þá breyttust tengslin ekki. Gjafarnir tengja aukin tengsl við það þakklæti sem nýraþeginn sýni þeim í kjölfar aðgerðar. Leiða má að því líkum að sátt nýragjafanna sé ekki síst tilkomin af nánari samskiptum eftir aðgerðina. Styrkur rannsóknar okkar felst í að rannsóknin tók til allra nýraþega á Íslandi og svarhlutfall var hátt. Rannsóknin veitir innsýn í líðan og heilsu nýraþega á Íslandi en þau atriði hafa ekki verið rannsökuð með sambærilegum hætti áður. Helstu veikleikar rannsóknarinnar eru að þýðið var fremur lítið (N=96), og takmarkar það túlkun niðurstaðna, og einnig að íslenskan samanburðarhóp fyrir SF­36v2 spurningalistann vantar. Að auki má nefna að spurningalistinn var að hluta til afturvirkur en það gæti aukið hættu á minnisskekkju (recall bias).

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.