Þjóðmál - 01.09.2010, Side 92
90 Þjóðmál HAUST 2010
Líkt og Sveinbjörn beinir Pär Gustafsson
(sem ritar 3 . kaflann) spjótum sínum að
einföldum hagfræðilegum skilningi á mann-
lífinu og jafnframt að hagfræðideildum
háskóla sem hann telur helst til kreddufast-
ar . Hann tekur dæmi af Rússlandi eftir fall
kommúnismans og segir m .a .:
Forskriftin var sú að ef stjórnvöld kæmu upp
markaðshagkerfi myndi lýðræði sjálfkrafa
fylgja í kjölfarið . Þá myndi réttlátt og skilvirkt
dómskerfi einnig þróast í fyllingu tímans .
Þar af leiðandi skipti höfuðmáli að innleiða
markaðshætti eins hratt og mögulegt væri
enda myndi það leiða sjálfkrafa til betra
samfélags . (Bls . 83)
Reyndin segir hann að hafi orðið önnur:
Og í staðinn fyrir að markaðsöflin
færðu Rússland í átt til aukins lýðræðis
og sterkara réttarkerfis, eins og
nýfrjálshyggjuhagfræðingarnir höfðu gert
ráð fyrir, urðu þau til þess að skipulagðri
glæpastarfsemi óx fiskur um hrygg . Þessi
þróun átti sér ekki síst stað vegna þess að
markaðsöflunum var gefinn laus taumur án
þess að lagaramminn, löggæslan og réttar-
kerfið væru í stakk búin til að veita þeim
aðhald . (Bls . 84)
Grein Salvarar Nordal (sem er 4 . kafli) fjallar
um samfélagslega ábyrgð í viðskiptalífinu .
Hún gagnrýnir kenningu sem Milton
Friedman hélt fram fyrir 40 árum síðan
og er þess efnis að helsta skylda stjórnenda
í fyrirtæki sé að hámarka hagnað þess .
Spurningarnar sem Salvör veltir upp eru
áhugaverðar til dæmis þar sem hún ræðir
hvort stjórnendur banka hafi ríkari skyldur
við eigendur bankans en við þá sem eiga
sparifé í bankanum; hvort það stuðli ekki
að auknu regluverki og opinberu eftirliti
ef stjórnendur fyrirtækja gera almennt
hvaðeina sem lög leyfa til að græða sem mest,
jafnvel þótt það sé andstætt öllu siðferði; og
hvort þeir sem hafna samfélagslegri ábyrgð
fyrirtækja kalli ekki þar með eftir sterkara
ríkisvaldi sem sinni fleiri hlutverkum, öfugt
við það sem Friedman kvaðst vilja .
Mér sýnist margt sem Salvör segir styðja
þá niðurstöðu að hagkerfi geti ekki dafnað
án siðmenningar og illa fari ef forkólfar
atvinnulífsins virða engin mörk nema lögin
og hirða ekki um nein markmið önnur en
að hámarka gróða sinn .
Í köflunum eftir Sveinbjörn, Pär og Sal-
vöru er gagnrýni á nýfrjálshyggju fyrst og
fremst gagnrýni á oftrú á hagfræðileg líkön
eða einhvern vísindalegan stórasannleik
(sem sagt á 5 . lið í upptalningunni hér að
framan) . Þau virðast öll skilja ný frjáls-
hyggju sem slíka oftrú eða einhvers konar
hagfræðilega rörsýn . Svipaða sögu er að
segja um 8 . kaflann sem er eftir Giorgio
Baruchello . Hann fjallar um kenningar
kanadíska heimspekingsins McMurtrys sem
hefur gert tilraun til að skilgreina verðmæti
út frá mannlegum þörfum og gagnrýnt
hagfræðikenningar m .a . fyrir að gera engan
greinarmun á þörfum manna og löngunum .
Mér sýnist að Giorgio takist ágætlega að
útskýra fyrir lesendum að gegnum gleraugu
hagfræðinnar sjáist aðeins hluti af því sem
máli skiptir í mannlífinu .
Nýskipan í opinberum rekstri,
norræn velferð og kynjamyndir
Þær þrjár greinar sem ótaldar eru fjalla
um ólík efni . Mia Vabø, sem ritar 5 .
kaflann, fjallar um nýskipan í opinberum
rekstri, þ .e . tilraunir til að skapa einhvers
konar markaðsaðstæður innan opinbera
geirans (sbr . 4 . lið) . Hún segir frá því
hvernig tilraunir til að auka hagkvæmni í
heimaþjónustu fyrir aldraða í Noregi, með
því að innleiða einhvers konar markaðs- og
samkeppnishugsun, leiddu í raun til aukins
kostnaðar og skriffinnsku .