Morgunblaðið - 12.11.2015, Síða 86
86 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 12. NÓVEMBER 2015
Ífyrstu ljóðum nýjustu bókarEyþórs Árnasonar, Norður,leggur ljóðmælandinn upp íferðalag. Það fyrsta nefnist
„Brottför“ og í því er sleginn tónn
notalegs fortíðartrega, sem ætti að
vera kunnuglegur lesendum fyrri
bóka skáldsins. Kuldahrollur er þar
strokinn af borði og rafhlöður sóttar
á ofn – þessar hituðu rafhlöður
fleygja þessum
lesanda í sveitina
langt aftur á lið-
inni öld – og hann
finnur „hitaþok-
una smjúga / yfir
þröskuldinn og /
grípa fast um
ökklann“.
Næst kemur
þunglyndislegt og
stutt „Ökuljóð“, með tilvísunum í
sönglög og alþýðumenningu: „Nú
syng ég ekki lengur / um svani, vor-
kvöld, svalalind // Nei, ég syng um
hrun / og sinu í vegköntum / …“ og
þá kuldalegt titilljóð bókarinnar,
„Norður“, þar sem blákalt morgun-
frost ískrar í hliðinu, það snjóar enn
og „Norðurleið fer / hlaðin skeyt-
um“. Og fleiri ferðaljóð birtast þegar
áfram er lesið, á milli annarra.
Í þessari bók Eyþórs eru 78 ljóð í
fjórum hlutum. Skáldið heldur áfram
að þroska þann hlýlega tón sem hef-
ur hrifið marga lesendur fyrri bóka,
Hundgá úr annarri sveit (2009) og
Svo ég komi aftur að ágústmyrkrinu
(2011). Norður er þó nokkuð frá-
brugðin hinum bókunum; þetta er
brotakenndara verk, eiginlega má
tala um nokkra kjarna ljóða sem eru
missterkir – en bestu ljóðin eru, eins
og áður þegar Eyþór á í hlut, mjög
góð. Og búa yfir sérkennilegri hlýju,
blandinni trega, og smekklegri
myndvísi. Sem dæmi um það má
nefna „Haustdaga“, ljóð þar sem
maður sem er uppalinn í sveit og
þekkir til veiða notar þá reynslu í
mynd sem við sem þekkjum laxa og
haustblús samsömum okkur heldur
betur:
Ég hef alltaf kviðið
þessum hrútlegnu haustdögum
þegar sumardraumarnir
hnappast saman
og leggja í strauminn
í leit að heppilegri möl
Annars er víða komið við og til að
mynda vísað í nokkrum ljóðum í tón-
list og tónlistarmenn. Í einu hefur
ljóðmælandinn á leið norður spilað
sig í gegnum sælgætisbúðina hjá
John Grant og sú upplifun tengist
sýn síðan hann var fjórtán ára; í öðru
eru vísanir í The Doors – „Und-
arlegir dagar / sagði hann“ og
„Þetta er endastöðin“ – og Davíð
Stefánsson: Dimmt er á Dökkumið-
um og Davíð er aftur nærri þegar
ljóðmælandinn kaupir sér miða aðra
leið til Capri. Eftirlætis tónlistarljóð
þessa lesanda í bókinni er „Nætur-
ljóð“, og kannski styrkir myndina að
vita að skáldið er sviðsstjóri í Hörpu.
En orðaleikurinn nótur/nætur er
fínn:
Stundum þarf að nota hamarinn á
þetta
sagði glaðbeitti píanóstillarinn
þegar hann kvaddi og fór
með allar svörtu nóturnar
í töskunni
Hann vissi hvað hann söng
því þær hafa alltaf þvælst fyrir mér
þessar svörtu nótur
Þessar óspilandi svörtu nætur
Í öðru ljóði er gengið inn á sviðið
eftir bjart kvöld, þegar ljósin dofna
hratt, heitur flygill stendur einn á
sviðinu, ljóðmælandinn rekur hrafna
af svörtu lokinu (meiri Davíð?) og:
„strýk yfir nóturnar / og loka inni /
ófleyga söngva“.
Í „Ökuljóð fyrir Bellu“ er dregin
upp skondin mynd af húsbílamenn-
ingu landans, þar sem á forystubíl í
endalausri runu – „Stínur, Bínur,
Nínur“ – hefur þingeyskur harm-
ónikkuleikari verið njörvaður niður
á toppgrindina og „karlarnir stýra af
öryggi með / kalna olnbogann úti …“
Margar bestu ljóðmyndirnar
koma úr sveitinni, náttúru og störf-
um, eins og þessar fínu línur í „Eftir
undrasumar“:
Það er ullarlykt í golunni
og blautþung baggasumur
hlaupa um herðarnar
Aftur er þessum rýni skotið aftur í
tímann.
Norður er ekki heilsteyptasta bók
Eyþórs en þó er margt áhrifaríkt á
síðum hennar og lesendum birtist
skáld sem er fagurmælt og glettið,
og fallega einlægt eins og „Ást-
arjátning“ sýnir:
Ég elska þig
sagði ég
og risti þér
blóðrautt
haffærisskírteini
til innhafssiglinga
í brjóstholi mínu
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Skáldið Eyþór Árnason.
Þessar óspilandi
svörtu nætur
Ljóð
Norður bbbmn
Eftir Eyþór Árnason.
Veröld, 2015. Kilja, 104 bls.
EINAR FALUR
INGÓLFSSON
BÆKUR
Það er ekki valdið sem spillir,heldur óttinn. Óttinn við aðmissa valdið spillir þeimsem beita því og óttinn við
svipu valdsins spillir þeim sem lúta
því.“ Þessa áhugaverðu greiningu á
samspili valds og spillingar setti
Aung San Suu Kyi, friðarverðlauna-
hafi Nóbels, fram og hitti þarna vel í
mark. Þessi orð hennar eru inn-
gangsorðin að einum kafla af níu í
bókinni Barnið sem varð að harð-
stjóra – Saga helstu einræðisherra
20. aldar sem Bogi Þór Arason blaða-
maður hefur sent frá sér. Til að gera
langa sögu stutta þá er þetta áhuga-
verð og góð bók. Bogi dregur þarna
saman sögu níu harðstjóra og ein-
ræðisherra á síðustu öld, sem stend-
ur vel undir því
nafni að kallast
öld öfganna.
Harðstjórarnir
níu eru Stalín,
Hitler, Franco,
Maó, Ceausescu,
Pol Pot, Saddam
Hussein, Kho-
meini og Idi Am-
in, auk þess sem
tveir harðstjórar í Afríku, Bokassa
og Francisco Macías Nguema, fá
stutta umfjöllun í kaflanum um Idi
Amin.
Hugmyndin sjálf, að fjalla stutt-
lega um sögu helstu harðstjóra síð-
ustu aldar í einni bók, er góð. Saga
hvers og eins er rakin frá því fyrir
fæðingu þeirra og fram yfir dauða
þeirra sem og þeirra milljóna sem
þeir sjálfir sendu beint og óbeint í
dauðann. Höfundur hefur nýtt sér
margar heimildir, bæði nýjar og
gamlar, og fléttar í liprum texta sam-
an sögu hvers og eins og tengir þá
raunar flesta saman með ýmsum
hætti. Formið gefur þannig gott færi
á samanburði af ýmsum toga og vek-
ur spurningar um það hvort eitthvað
í aðbúnaði þeirra og uppeldi geti
skýrt þá blóðugu slóð sem þeir síðan
fetuðu í lífinu. Föðurleysi eða slæmt
atlæti eða samband þessara manna
við föður sinn virðist vera áhrifaþátt-
ur og sama má segja um gott atlæti
af hálfu móður. Höfundur orðar
þetta ágætlega í umfjöllun í kafla um
Khomeini sem missti föður sinn ung-
ur líkt og helsti andstæðingur hans,
Saddam Hussein: „Líkt og Saddam
Hussein eru þeir dæmi um að næst
því að vera eftirlæti móður sinnar
virðist fátt örva verðandi harðstjóra
meira en að missa föður sinn,“ segir
á bls. 252 í bókinni og leiðir þar með
huga lesandans ósjálfrátt að sterkum
upphafsorðum Brekkukotsannáls.
Bókin er vel skrifuð, textinn að-
gengilegur og höfundur vinnur vel úr
fjölbreyttum heimildum. Fléttað er
saman gömlum og nýjum upplýs-
ingum og greiningum og höfund-
urinn sjálfur kemur skoðunum sín-
um og sjónarmiðum vel á framfæri.
Það er gert án málalenginga og út-
úrdúra sem fellur vel að smekk þess
sem hér ritar. Það sem er einkar
áhugavert er að fá þarna tækifæri til
að kynnast og bera saman bæði
æsku og uppvöxt harðstjóranna, leið
þeirra til valda og síðan sjálfan
valdaferilinn. Sömu stefin koma
þarna ótrúlega oft fyrir. Að sama
skapi afhjúpast hræsni og tækifær-
ismennska alþjóðastjórnmála á 20.
öldinni, enda nutu margir af þessum
harðstjórum stuðnings og velþókn-
unar margra og þar á meðal vest-
rænna lýðræðisríkja á leið sinni til
valda og jafnvel síðar.
Eins og íslenskri bók sæmir er
gerð grein fyrir þeim tilvikum þar
sem Íslendingar kynnast þessum ill-
ræmdu harðstjórum beint og þar
kemur fátt á óvart. Þó sleppir höf-
undur að nefna stutta Íslands-
heimsókn Nicolae Ceausescu og eig-
inkonu hans í október 1970 er þau
voru á leið til Bandaríkjanna, en þá
hittu þau helstu ráðamenn þjóð-
arinnar í stuttri en opinberri heim-
sókn. Bókin er ekki myndskreytt ef
frá er talin kápan. Það hefði óneit-
anlega aukið gildi hennar ef þar hefði
verið að finna myndir af þeim sem
þar eru til umfjöllunar. Heiti bók-
arinnar, Barnið sem varð að harð-
stjóra, er vissulega ágætlega lýsandi
fyrir innihald hennar. Á bókarkáp-
unni er það rakið að höfundur reki í
henni leið harðstjóranna úr vöggu til
fjöldagrafa og hefði titill þar sem
þessi orðaleikur hefði verið notaður
hitt enn betur í mark.
Að þessu sögðu skal það dregið
saman að hér er á ferðinni fín og
læsileg bók sem fjallar um ríflega níu
harðstjóra og fjöldamorðingja, sem
heldur betur settu svip sinn á síðustu
öld. Sögur þeirra eru um margt líkar
og ljóst að margvíslegan lærdóm má
draga af þeim, hvort sem okkur tekst
það eða ekki.
Morgunblaðið/Eva Björk
Lærdómur „… hér er á ferðinni fín og læsileg bók sem fjallar um ríflega níu
harðstjóra og fjöldamorðingja, sem heldur betur settu svip sinn á síðustu
öld,“ segir rýnir um bók Boga Þórs Arasonar.
Frá vöggu til fjöldagrafa
Fræðibók
Barnið sem varð að harðstjóra –
Saga helstu einræðisherra 20. aldar
bbbbn
Eftir Boga Arason.
Almenna bókafélagið, 2015. Innbundin,
286 bls.
STEFÁN
EIRÍKSSON
BÆKUR
Peysan sem Kurt Cobain heitinn
klæddist á órafmögnuðum tón-
leikum hljómsveitar hans Nirvana
fyrir MTV árið 1993 var seld á
rokkmunauppboði í Los Angeles
fyrir 137.500 dollara, jafnvirði um
18 milljóna króna, um liðna helgi.
Tímaritið Time greinir frá því.
Uppboðshaldarar gerðu ráð fyrir
að peysan myndi seljast fyrir
60.000 dollara. Upptaka af tónleik-
unum var gefin út á geisladiski og
þykir sá diskur ómissandi í
Nirvana-safn aðdáenda.
Á vefsíðu uppboðshússins,
Julien’s Auctions, var peysunni
vandlega lýst og sagði m.a. að í
henni væri blanda úr akrýl, angóra-
ull og lycra, að einn hnappa af fimm
vantaði á hana og að á henni væri
brunagat.
18 milljónir greiddar
fyrir peysu Cobains
Hlý Kurt Cobain í peysunni góðu.
GÆÐI – ÞEKKING – ÞJÓNUSTA
Háaleitisbraut 58-60 • 108 Reykjavík • haaleiti@bjorg.is • Sími 553 1380
20% afsláttur
af hreinsun á
gluggatjöldum
í nóvember