Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.07.1999, Síða 37
að um 65% einstaklinga sem hafa fengið einhvers konar
meðferð nái aftur fyrri þyngd að einhverjum tíma liðnum.
Markmiðið með heilbrigðisfræðslu fyrir of feita einstakl-
inga er að stuðla að því að þeir breyti um mataræði og lífs-
stíl. Þetta er langtímaferli sem krefst þess að viðkomandi
sé reiðubúinn að breyta hegðun sinni og hafi vilja til þess.
Ég kaus að kalla stuðningsmeðferð mína við of feita
einstaklinga stuðning til sjálfshjálpar þar sem lögð var
áhersla á eftirfarandi atriði:
1. Einstaklingurinn setti sér markmið um hvaða þyngd
hann vildi komast niður í.
2. Farið var í veikleika og styrkleika viðkomandi. T.d. hvort
fólk væri sólgið í sælgæti og gos eða hvort það væri
frekar gefið fyrir mikinn mat. Hvort það hefði tilhneig-
ingu til að borða seint á kvöldin eða ekki og fleira mætti
upp telja.
3. Farið var yfir lífsstíl, matarvenjur og matarinnkaup.
4. Atferli. Óæskilegu atferli breytt í æskilegt, s.s. fara í
gönguferð í stað þess að opna kexpakka og borða
upp úr honum. Reyna að dreifa huganum frá þráhyggju
í sambandi við mat sem ég álít að sé mikilvægara en
að telja bara hitaeiningar. Ég ráðlagði fólki aldrei að
færa matardagbók, því það festi huga þessara
einstaklinga meira við mat en ég taldi ráðlegt.
5. Stuðningur við fjölskyldu. Boðið var upp á að maki
kæmi með í viðtal því mikilvægt er að allir í fjölskyldunni
hjálpi viðkomandi einstaklingi að ná settu marki.
6. Gullkantur á tilveruna. Að léttast á ekki að vera kvöl,
það á að vera eitthvað jákvætt og skemmtilegt. Rætt
var um mikilvægi þess að maturinn líti vel út á diskinum
og því leyfilegt að veita sér eitthvað aukalega á laugar-
dagskvöldum, svona eins og laugardagsnammið hjá
börnunum. íslendingar þola afskaplega illa að láta sér
leiðast!
7. Sjálfstyrking. Margir þeirra einstaklinga sem þjást af
offitu hafa lélegt sjálfsmat og veika sjálfsímynd. í þeim
menningarheimi sem við lifum í, þar sem allt miðar að
því að vera grannur og velheppnaður - er mikilvægt að
byggja þessa einstaklinga upp andlega. Meðferðin á
ekki að bæta við slæma samvisku sem þessir einstakl-
ingar þjást oft af. Það er því mikilvægt að meðferðar-
aðili sé uppörvandi og jákvæður.
8. Hvað er viðkomandi reiðubúinn að leggja á sig? Það er
Ijóst að því móttækilegri sem einstaklingurinn er sjálfur,
því betri verður árangurinn.
Mín reynsla var sú að hvötin til að léttast var oft
mismunandi hjá körlum og konum. Yngri konurnar töluðu
oft um löngun til að líta betur út og falla betur inn félags-
lega á meðan karlarnir höfðu fengið einhvers konar
aðvörun frá lækninum sínum. Þeir höfðu vandamál frá
hjarta, stoðkerfi og með kæfisvefn. Eldri konurnar töluðu
líka um heilsufarsástæður, sykursýki og of háan blóðþrýst-
ing. Ein sagði við mig að læknirinn hennar hefði sagt að
hún myndi detta dauð niður ef hún grenntist ekki. Yngri
konurnar töluðu um mikla fíkn, t.d. í sælgæti og kók, og
þær sem álitu sig vera fíkla náðu yfirleitt verri árangri. Allir
þessir einstaklingar höfðu gengið í gegnum alla hugsan-
lega megrunarkúra.
Við ráðgjöf til einstaklinga með erfið offituvandamál er
æskilegt að til komi teymisvinna fagfólks, s.s. næringar-
ráðgjafa, sjúkraþjálfara, og læknis þannig að hægt sé að
láta þann fagaðila sem færastur er um það hverju sinni að
leysa þau vandamál sem upp koma. En hjúkrunarfræð-
ingar ættu að koma meira inn í meðferð við offitu, m.a.
vegna hinnar heildrænu sýnar sem hjúkrunarstarfið býður
upp á. Sú staðreynd að það eru fleiri konur en karlar í stétt
hjúkrunarfræðinga ætti einnig að auka skilning þeirra á
offituvandamálum kvenna.
Að lokum skilgreining Millers (1991) í samantekt Orbach
frá 1978 um hvað fita þýddi fyrir konur í meðferðarhóp:
- Að vera feitur þýðir samanburð við allar aðrar konur og
leit að einhverri annarri feitri, svo þú getir slakað á.
- Að vera feitur þýðir útilokun frá fjöldamenningunni,
íþróttum, útilífi og tísku.
- Að vera feitur þýðir áhyggjur í hvert skipti sem mynda-
vél er í sjónmáli.
- Að vera feitur þýðir að maður skammast sín fyrir að
vera til.
- Að vera feitur þýðir að þurfa að bíða eftir að grennast
svo þú getir tekið þátt í lífinu.
- Að vera feitur þýðir að þú hefur engar eigin þarfir.
- Að vera feitur þýðir stöðuga megrun.
- Að vera feitur þýðir að segja aldrei nei.
- Að vera feitur þýðir að hafa afsökun fyrir að mistakast.
- Að vera feitur þýðir að bíða eftir manninum sem elskar
þig, þrátt fyrir fituna.
Greinin er byggð á erindi sem flutt var á fræðsludegi
Innsýnar, 7. maí 1999.
Heimildir:
Grogan, S., Wainwright, N. (1996). Growing up in the Culture of Slender-
ness. Girls experiences of Body Dissatisfaction. Women's Studies
International Forum, 19(6):665-673.
Hesse-Biber, S. (1991). Women, Weight and Eating Disorders. A Socio-
Cultural and Political-Economic Analysis. Women's Studies Inter-
national Forum 14(3):173—191.
McBride, A.B. (1988). Fat: A Women's issue in search of a holistic
approach to treatment. Holistic Nursing Practice, 3 (1 ):9—15.
Miller, J.F. (1991). Coping With Chronic lllness (5. kafli) Philadelphia:
F.A.Davis Comp.
Munro, J.F. og Patrick, A.W. (1994). The management of obesity.
Medicine International, 389-391.
Rössner, S. (1993). Gá ner i vikt med Stephan Rössner. Vásterás: ICA
förlaget AB.
Stunkard, A.J. (1992). Current views on obesity. The American Journal of
Medicine 100:230-235.
Vickers, M.J. (1992). Understanding obesity in Women. Journal of
Obstetric, Gynocologic, & Neonatal Nursing, 22(1 ):17—23.
White, J.H. (1991). Feminism, eating and mental health. Advances in
Nursing Science, 13 (3):68-80.
Tímarit hjúkrunarfræðinga • 3. tbl. 75. árg. 1999
181