Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.08.2006, Síða 24
Merking heimsókna og mikilvægi
Rétt eins og sonur Katrínar gengu aðrir þátttakendurnir út frá
því sem vísu að „fólkið þeirra" reiknaði með að þeir kæmu
reglulega og gæti að sjálfsögðu gert það. Heimsóknir á
hjúkrunarheimilið væru bara framhald af þeirra samskiptum í
gegnum tíðina og „hluti af keðju lífsins" eins og þessi sonur
talaði um. Aðstandendur koma í heimsókn á hjúkrunarheimili til
þess að athuga hverning fólkinu þeirra líður, stytta því stundir
og eiga stund saman. Heimsóknunum er ætlað að setja svip
á daginn og gera lífið bærilegra fyrir hinn aldraða, en um leið
er heimsóknargesturinn ekki síður að koma í heimsókn fyrir
sjálfan sig því tengsl hans og samskipti við hinn aldraða eru
hluti af hans eigin sjálfi. Kona Jóns gerði grein fyrir merkingu
heimsókna á eftirtektarverðan hátt þegar hún sagði:
Auðvitað skilar þetta sér einhvers staðar, finnst mér, að
rækta svona vel fólkið sitt og hugsa svona vel um það. Það
hlýtur að skila sér einhvers staðar, jafnvel þó það sé kannski
ekki fagnandi og vinkandi [þegar maður kemurj. Þetta er
bara orka sem kemst einhvers staðar til skila, ég er bara
alveg sannfærð um það, þó maður geri þetta náttúrulega
kannski fyrst og fremst fyrir sjálfan sig. Það togar í mig, ég
verð að vita hvernig hann hefur það og svona.
Aðstandendur koma með andblæ að utan og hreyfa við
andrúmsloftinu á viðkomandi deild. Heimsóknirnar „brjóta upp"
daginn, gera íbúann að gestgjafa og undirstrika að hann er hluti
sinnar fjölskyldu. Fjölskyldan gerir það verkum að íbúinn finnur
að hann „er einhver" eins og einn starfsmaðurinn komst að orði
aðspurður um gæði lífs konu á deildinni sem naut reglulegra
heimsókna dóttur sinnar - „Jú“ sagði starfsmaðurinn, „ég
held að henni líði mjög vel" - og bætti síðan við um leið og
hann vísaði til þess hvernig dóttirin hugsaði um móður sína,
„já, það er eins og hún sé einhver." Aðstandendur bæta við
og bæta upp eitt og og annað í umönnun starfsfólks og það
var greinilegt að heimsóknir þeirra voru hápunktur dagsins
eða vikunnar hjá þeirra fólki eða „Ijósið í deginum" eins og
einn eiginmaðurinn komst að orði. Mörgum aðstandenda var
það afar mikilvægt að það félli ekki úr dagur reglubundinna
heimsókna og tryggðu því að einhver í fjölskyldunni eða
vinahópnum kæmi í heimsókn þá daga er þeirra var ekki von
eða þegar þeir komust ekki. Heimsókn vekur yfirleitt ánægju
og kallar fram vellíðunartilfinningu þess sem hennar nýtur og
sú tilfinning virðist oft sitja í fólki eftir að henni lýkur, jafnvel þó
að viðkomandi muni ekki eftir heimsókninni. Að minnsta kosti
taldi starfsfólkið sig stundum merkja það í óvanalegum óróa ef
það féll niður dagleg heimsókn í slíkum tilvikum.
Merking heimsókna hafði breyst í sumum tilvikum þegar lengra
var liðið frá flutningi hins aldraða á stofnun og viðkomandi var
verulega farið að förlast minni og hugsun sérstaklega, ef hann
virtist vera hættur að þekkja reglulega heimsóknargesti sína.
í kjölfar breyttrar merkingar varð formgerð heimsóknarinnar
önnur því þá var fyrst og fremst á dagskrá að líta til með fólkinu
sínu, fylgjast með líðan þess og athuga hvort það vanhagaði
um eitthvað. Heimsóknirnar voru jafn reglubundnar en skipulag
þeirra, tilhögun og dagskrá breyttist. í þessum tilvikum fór
ásigkomulag hins aldraða að hafa áhrif á lengd heimsókna líkt
og kom fram í rannsókn Yamamoto-Mitani og samstarfsmanna
(2002).
Eftirfarandi dæmi um dóttur Péturs undirstrikar hvernig merking
heimsókna verður önnur þegar ásigkomulag hins aldraða
breytist og dvölin lengist á hjúkrunarheimili. Dóttir Péturs hafði
lengi framan af dvöl hans notið þess að eiga góða stund með
föður sínum þegar hún kom í heimsókn, en var um það leyti,
sem hún tók þátt í rannsókninni, farin að stíla upp á að líta
stuttlega inn á hvíldartímanum eftir hádegi því henni fannst
best að sjá pabba sinn útafliggjandi friðsælan á svip. Eins og
hún sagði:
Já, ég fer oft bara upp úr hádeginu, mjög oft, annars er það
eiginlega á öllum tímum þess vegna, en aðallega upp úr
hádeginu. ...þá er hann kominn í hvíld eftir matinn ...þá hitti
ég vel á hann og ég er svo ánægð að honum líður vel, þá
sé ég svo vel hvað honum líður vel, sko. Svo það er mjög
góður tími upp úr hádeginu. ... bara að sjá hann, snerta
hann, halda svolítið utan um hann og finna sem sagt... það
er svo mikil hlýja líka frá starfsfólkinu sem er svo mikilvægt.
Sko, ég finn það, hlýjuna frá þeim til hans. ... Ég finn það
svo sannarlega. Já, jákvætt hugarfar.
Dóttir Péturs kom til þess að sjá föður sinn og athuga hvernig
honum liði en jafnframt vísaði hún til þess hve mikilvægt
væri að vita af honum í góðum höndum og að finna hlýjuna
frá starfsfólki í garð föður hennar. Tilvísun hennar til viðmóts
starfsfólks er dæmigerð fyrir reynslu aðstandenda. í þessari
rannsókn settu aðstandendur í öllum tilvikum viðmót starfsfólks
gagnvart heimilisfólkinu á oddinn þegar rætt var um hvað
skipti mestu máli í umönnun viðkomandi maka eða foreldris og
reynslu þeirra af heimsóknum á staðinn.
Umræða
Það fer oft lítið fyrir aðstandendum sem koma reglulega í
heimsókn á hjúkrunarheimili enda kom það fram í megindlegri
bandarískri rannsókn að aðstandendum og starfsfólki bar ekki
saman um hve oft vandamenn og vinir hefðu samband við
„sína", ýmist símleiðis eða með heimsóknum. En aðstandendur
töldu sig hafa mun oftar samband við „sína" en starfsfólk ætlaði
þeim (Port o.fl., 2003).
En það er ef til vill til marks um það hve heimsóknir aðstandenda
eru teknar sem sjálfsagður hlutur á hjúkrunarheimilum að
viðfangsefni þessarar rannsóknar vakti oft og tíðum undrun
starfsfólks á deildunum þegar hún var kynnt fyrir þeim í upphafi
gagnasöfnunar. Svo virtist sem starfsfólkinu fyndist heimsóknir
aðstandenda ósköp hversdagslegt fyrirbrigði, þáttur í daglegum
gangi sem tæplega þyrfti að fara mjög í saumana á. En túlkandi
fyrirbærafræði leitast einmitt við að ná yfir hversdagslega
kunnáttu, venjur og hætti (Benner o.fl., 1996) og samkvæmt
heimspekingnum Heidegger (1927/1962) er „fyrirbæri" í
sérstökum skilningi hið falda eða ósýnilega í því augljósa eða
sýnilega í daglegum gangi en í hinu ósýnilega felst merking og
grunnur þess sem virðist liggja í augum uppi og tekið er sem
22
Tímarit hjúkrunarfræðinga - 3. tbl. 82. árg. 2006