Skírnir - 01.09.2014, Page 21
245sturla
enga vísu eftir bróður sinn um dauða Skúla; þá er hin pólitíska
flækja leyst og Sturla hefur einn orðið. Hann lýsir Skúla í Hákon-
arkviðu sem heiðinni hetju, sem er hugsanlega dulin samlíking við
Hákon jarl sem atti kappi við Ólaf Tryggvason en Hákoni er líkt við
þennan forföður sinn. Skúli ríður yfir ána Gjöll, yfir Bifröst sjálfa,
til Heljar. Þessi heiðna samlíking um hinn kristna hertoga, er engin
tilviljun. Með þessum hætti getur Sturla hafið Skúla upp til skýjanna
án þess að hætta á núning við sigurvegarann, hinn vígða Hákon.
Skúla er líkt við hetjur fornaldar — forfeður konunganna. Í einu
erindinu er vísað í fornaldarsögu þar sem mágar vegast á:
Þar sighljóð
syngva knáttu
harða hvell
hvössum munni
í herför
of höfuð manna
Högna mans
hlýrna dísir3
Valkyrjan Hildur er dæmd til að fylgjast með eilífum bardaga
Héðins eiginmanns síns og föður Högna. Þeir berjast að degi, falla
en standa upp að morgni og berjast svo áfram. Myndin af
hjaðningavígum Skúla og Hákonar varpar ljósi á þá aðferð Sturlu
að nota nákvæmar myndhverfingar sem vísa í þekktar goðsögur.
Myndin varpar aukin heldur ljósi á hin flóknu persónulegu tengsl
sem liggja að baki ritunar Hákonar sögu. Í þessari líkingu, með
þessu eina orði, er dregin upp mynd af Margréti Skúladóttur sem
horfir upp á átök Skúla föður síns og Hákonar eiginmanns síns án
þess að fá rönd við reist. Hún lifir enn þegar Sturla ritar söguna í
Noregi, deyr 1270.
skírnir
3 Hákonar saga Hákonarsonar II: 105–106. Ég fylgi hér leshættinum sighljóð, í stað
sigrhljóð, í útgáfu Kari Gade á kviðunni í Skaldic Poetry of the Scandinavian
Middle Ages (2009: 715–716). Samantekt og skýring: Þar knáttu (gátu) dísi hlýrna
mans Högna (man Högna er Hildur, dóttir Högna konungs, hlýrn (himintungl)
hennar eru skildir, og dísir skjaldanna eru valkyrjur) syngva harða hvell sighljóð
(bardagahljóð) hvössum munni of höfuð manna í herför.
Skírnir Haust 2014 umbrot.qxp_Layout 1 6.10.2014 13:19 Page 245