Skírnir - 01.09.2014, Page 86
uppruna sínum (móðurinni) og taka upp ný gildi en það má líka
lesa söguna sjálfa sem örvæntingarfulla tilraun konu sem á allt til
að taka af annarri konu það eina sem hún á, barnið, og reyna að
kaupa það með ýmsum hætti. En Katrín litla Önnudóttir hafnar að
lokum Gísellu: „Mér finnst ekki lengur gaman að vera í skemmti-
görðum, sagði hún. Það er skemmtilegra að fara með mömmu í
vinnuna og hjálpa henni að vinda tuskurnar og lesa myndasögur
meðan vitlausu börnin spila á píanó“ (269). Barnið verður ekki
keypt og þar með missir Gísella endanlega áhugann á að vera vel-
gjörðarmaður kvennanna þriggja; það tækifæri er horfið sem hún
þóttist sjá, að telpan gæti hugsanlega veitt henni þann tilgang sem
hana skorti. Þess vegna er ekki hægt að líta framhjá því að þótt sagan
sé byggð upp sem dæmisaga þá er hún líka saga um kvennamenn-
ingu og samband mæðra og dætra.
Í skáldsögunni Vetrarsól (2008) nýtir Auður sér formgerð saka-
málasagna til að smíða skáldverk sem er glæpasaga en þó ekki, eins
og Björn Þór Vilhjálmsson (2009) hefur rakið. Hann bendir á að
Vetrarsól sé líklega best skilgreind af sjálfri sér en í henni er talað um
„öðruvísi“ glæpasögur þar sem þyngsta þrautin búi í hugarheimi
söguhetjunnar (137). Björn telur að sagan snúist hins vegar fyrst og
fremst um fjölmenningarsamfélagið og áhrif kapítalisma og neyslu-
hyggju á samfélagið enda setur Auður fram hárbeitta gagnrýni á ís-
lenskan bókamarkað sem er knúinn áfram af glæpasagnasölu til þess
að aðrir geti dútlað við að skrifa og þýða fagurbókmenntir (Björn
Þór Vilhjálmsson 2009, 127–128).
Söguhetja Vetrarsólar er Sunna sem vinnur á bókaforlagi þar
sem hún gengur í öll verk og fær aldrei þann framgang sem hana
dreymir um. Hún er í sambúð með Axel sem stendur í eigin rekstri
en sagan einkennist af fjarveru hans þar sem hann er veðurtepptur
vestur á fjörðum vegna einhverra viðskiptaerinda og Sunna situr
uppi með unglingsson hans, Helga, sem er að koma til landsins frá
Danmörku þar sem hann býr með móður sinni. Á sama tíma er allt
á hvolfi í bókabransanum, jólin nálgast og Sunna ferðast á milli stór-
markaða til að koma bókum í sölu og síðast en ekki síst kemur upp
dularfullt mál sem þarf að leysa — Arndís, gömul vinkona Sunnu,
er horfin. Andaktug fylgist Sunna með fréttum vefmiðlanna af
310 katrín jakobsdóttir skírnir
Skírnir Haust 2014 umbrot.qxp_Layout 1 6.10.2014 13:19 Page 310