Skírnir - 01.09.2014, Page 133
357snorri í odda
ínan fyrir kóngi á dánarbeði, honum fannst mæðusamt að skilja lat-
neska texta og kaus að hlýða frekar á norræna (Hákonar saga Há-
konarsonar I: xxxiv; Hákonar saga Hákonarsonar II: 261). Eru
fjölmörg dæmi um veraldlega höfðingja í Vestur-Evrópu á 12. öld
sem kunnu að meta latnesk fræði og töldust skilja töluvert í latínu
en treystu annars á betur menntaða menn um skilning latneskra
texta og samningu þeirra (Bumke 2000: 426 436). Þetta skal haft í
huga hér í framhaldinu, höfðingjar eins og Snorri áttu kost á hjálp
presta sem voru vel latínulærðir.
Rúm 60 ár eru síðan enski fræðimaðurinn Turville-Petre (1953/
1967: 221) lýsti á prenti efasemdum um að Snorri hefði menntast í
latínu og taldi að hann hefði hlotið menntun leikmanns. En Sverrir
Tómasson bendir á að Jón Loftsson kunni að hafa komið upp hirð
í Odda og Snorri verið í eins konar hirðskóla Jóns, lært háttu og
hæversku tiginna manna og það í bóklist eða klerklegum fræðum,
sem gat gagnast þeim, og líka norræn fræði um fornkonunga og
kveðskap (Sverrir Tómasson 1997: 201 202; 2002: 265). Í bók sem
kom út haustið 2013, og nefnist Leiftur á horfinni öld, skrifar Gísli
Sigurðsson (2013: 206, 202, 207) að Snorri hafi ekki lært til starfa
innan kirkjunnar heldur hlotið menntun í því sem gat komið verð -
andi skáldi og stjórnmálamanni vel.
Verður haldið áfram á sömu braut hér á eftir og reynt að styrkja
þessar ályktanir um veraldlega menntun Snorra með frekari ábend-
ingum. Er þá tvennt haft í huga, annars vegar að sýna fram á að
nám Snorra hafi verið markvisst og miðað við að styrkja pólitískan
frama hans, ekki aðeins hérlendis heldur og í Noregi, og þar hafi
metnaður hans sjálfs mátt sín mest. Það tengist hinu atriðinu, að
setja ætlað nám Snorra í vesturevrópskt og einkum norrænt sam-
hengi.
Nam Snorri klerkleg fræði?
Þegar Snorri ólst upp í Odda hefur Jón Loftsson væntanlega litið til
með sveininum. En svo gerðist Jón aldraður og sonur hans, Sæ-
mundur djákni, tók við stjórnartaumum í Odda og Snorri hefur
verið á vegum hans.
skírnir
Skírnir Haust 2014 umbrot.qxp_Layout 1 6.10.2014 13:19 Page 357