Skírnir - 01.09.2014, Side 162
lapþunnir voru grautarnir þar og öngvan bita fékk hann fyrir utan mat sinn.
Þá fór ég að Barði í Fljótum, var þar um nóttina. Þorsteinn vildi fá mig til
fylgilags en ég beit af mér. Guðmundur í Hamarkoti vildi það einnig en ég
var ráðvandari en svo að ég lægi undir hverjum sem hafa vildi. Lá ég þá úti
á Klaufabrekkum vorlanga nóttina, í sólskini og sunnanvindi, aðkomin
dauða. Guðbjörg gaf mér svartabrauð að endurnæringu. Fór ég þá í Eyja-
fjörð, gekk mér vel. Fór ég að Stórhóli í vist, var þar í mesta yfirlæti. Fór
til grasa þaðan norður að Mývatni. Þá var ég falleg. Þá var ég með hvíta
tauma ofan með nefinu, rauða diska í kinnum, bláeygð, smáeygð, hafin -
brýnd. Brúkaði vænan fald og rauðan silkiklút um höfuðið og borðalagða
hempu yfir um þverar herðarnar. Allt var eftir þessu. Þá var ég þéruð af
öllum, þá sögðu þeir: „sælar verið þér“ og „komið þér sælar“, en nú segja
þeir allir: „Þarna fer kerlingarskrattinn hún Guðrún Ketilsdóttir.“ Vel er ég
metin af góðum mönnum því ekki gjöra þetta nema bölvaðir gárungarnir,
sem ekki skeyta um guð né menn.5 Reið ég þá í bað og maður með mér.
Þegar hann sá mig bera vildi hann fá mig til fylgilags en ég varðist brynju
búin og lét hann ekki fá það.6 Kom ég þá heim með grösin á Stórhóli og voru
það níu tunnur og var það nóg í stóru örkina þar.7 Ævinlega þegar ég kom
að Grund, gaf blessuð frúin mér bæði mat og kaffi. En þegar kammerráðið
heyrði mig tala þá sagði hann: „Hvaða bölvaður gjallandi er í þér Guðrún
Ketilsdóttir, geturðu ekki haft ögn lægra“. En ég sagði hann skyldi hafa
bölvaða skömm fyrir það því guð hefði gefið mér málið eins og honum. En
aldrei þorði ég að hafa það svo hátt að hann heyrði það. Síðan var ég hingað
og þangað í vistum. Varð undir regimenti Sigfúsar á Syðra-Laugalandi.
Kom hann mér að Syðra-Tjörnum til Sigurðar. Þar varð ég þar fyrir skaða
fyrir bölvaðan gapaskapinn úr honum. Missti lás, kostaði 24s á Siglufirði og
gaf ég fyrir hann 1rd. Sulturinn þar á Tjörnum verður mér fyrir minni. Þar
keypti ég skammrif af Magnúsi. Þau voru fjórar merkur og fjörtíu. Runnu
þau upp af merkju, át ég soðið allt með spæni. Hljóp það upp í höfuðið á
mér, lá ég í viku og ber það síðan. Fékk 24 afkoppur og margar smærri. Þar
386 brynja þorgeirsdóttir skírnir
5 Greinaskil tekin út. Engin greinaskil eru í handritinu en Guðný setur þrenn í upp-
skrift sína. Ekki er hægt að taka undir að ástæða sé til að bæta þeim við einmitt
þarna frekar en annars staðar þar sem hratt er farið úr einu í annað. Þyrfti þá að
setja mýmörg greinaskil til viðbótar til að gæta samræmis. Með greinaskilum
kemur ennfremur hik eða dok í textann sem setur hiksta í hinn einkennandi
flæðandi stíl.
6 Greinaskil tekin út.
7 Greinaskil tekin út.
Skírnir Haust 2014 umbrot.qxp_Layout 1 6.10.2014 13:19 Page 386