Skírnir - 01.09.2014, Page 179
403upprisa guðrúnar ketilsdóttur
rænna samhengi eftir því sem tíminn líður og það er sú sjálfsmynd
sem við höfum á líðandi stundu sem stýrir þessu ferli (Halbwachs
1992). Í texta Guðrúnar má sjá slíkt endurmat á fortíðinni á
nokkrum stöðum, aðallega þó tveimur. Hún greinir frá því þegar
hún var ráðin að sýslumannssetrinu að Espihóli (Stórhóli) í vist 29
ára gömul. Þá hófust bestu ár Guðrúnar í vinnumennsku. Espihóll
var eitt glæsilegasta býlið á Norðurlandi (Guðný Hallgrímsdóttir
2013: 101). „Þá var ég falleg. Þá var ég með hvíta tauma ofan með
nefinu, rauða diska í kinnum, bláeyg, smáeygð, hafinbrýnd,“ segir
Guðrún. Á þessum tíma þéraði fólk hana eins og hún segir sjálf:
„… þá sögðu þeir: „sælar verið þér“ og „komið þér sælar“, en nú
segja þeir allir: „Þarna fer kerlingarskrattinn hún Guðrún Ketils-
dóttir.“ Vel er ég metin af góðum mönnum því ekki gjöra þetta
nema bölvaðir gárungarnir, sem ekki skeyta um guð né menn.“
Þessi glæsta fortíð Guðrúnar er enn hluti af sjálfsmynd hennar á
gamals aldri og hún tekur fram að hún sé enn vel metin af almenni-
legu fólki. Annað dæmi er það þegar Guðrún endurmetur á ritun-
artíma sögunnar kynni sín af Illuga í fortíð. Hún lítur svo á að hann
hafi tælt hana og platað sem úlfur í sauðargæru. Þannig hefur hún
varla litið á málið þegar þau kynntust, annars hefði hún varla gengið
í hjónaband með honum. Um þetta segir hún: „… álitlegur maður,
en margur hylur úlfinn undir sauðargærunni, svo var um hann.
Bauð hann mér alla þjónustu en ókunnugur varningur firrir margan
fé.“ Hún lýsir því hvernig hún laumar í hann rúsínum úr kistum
sínum því hún „hugsaði að þetta væri maður en ekki djöfull“.
Sambúð þeirra endar svo með ósköpum eins og greint hefur verið
frá og hún stendur eftir slypp og snauð. Þegar hún lítur til baka á
þennan tíma í sögu sinni má sjá að hún hefur skilgreint og staðsett
minningar sínar um Illuga og samband sitt við hann með endurmati
á manninum og þeim atburðum sem leiddu til hjónabands þeirra. Í
frásögninni leggur hún nýtt mat á minningar sínar af fyrstu kynnum
þeirra og hefur fundið skýringar á því hvers vegna hún gerði þau
mistök að ganga í hjónaband með honum; hún var blekkt af manni
sem sigldi undir fölsku flaggi. Þannig hefur hún hugleitt fyrri
reynslu og minningar úr fjarlægri fortíð til þess að skapa þá mynd
sem hún vill gefa samtíma sínum.
skírnir
Skírnir Haust 2014 umbrot.qxp_Layout 1 6.10.2014 13:19 Page 403