Skírnir - 01.09.2014, Page 188
sem á árunum 2011–2012 fjallaði um lög um dvöl og atvinnu út-
lendinga á Íslandi. Hópurinn gerði tillögur að breytingum sem
framangreint frumvarp byggðist á. Hér verður því einnig vikið að
breytingartillögum starfshópsins og ástæðum þess að hluti þeirra
rataði ekki inn í frumvarpið.
Aðstæður innflytjenda á Íslandi, þar á meðal frá löndum utan
EES, hafa hlotið þó nokkra fræðilega umfjöllun (sjá t.d. Unnur Dís
Skaptadóttir 2004, 2009). Sama á við um aðbúnað hælisleitenda og
afdrif flóttafólks sem hér sest að (sjá t.d. Guðbjörg Ottósdóttir og
Helena N. Wolimbwa 2009; Sigríður Víðis Jónsdóttir 2011). Reglu-
verkið sem ákvarðar rétt fólks utan EES til dvalar á Íslandi, hefur
hins vegar hlotið minni athygli og einskorðast fræðileg umfjöllun að
mestu við einstaka greinar laganna. Þar má t.d. nefna umfjöllun
Aagotar V. Óskarsdóttur (2006) um dvalarleyfi fyrir maka og meist-
araritgerð Hrefnu Daggar Gunnarsdóttur (2012) um refsingar við
ólöglegri komu. Undantekning frá þessu er annars vegar BA-rit-
gerð Írisar Ellenberger (2003) í sagnfræði þar sem hún fjallar um
innflytjendastefnu Alþingis frá árinu 1944 til aldamóta og hins vegar
meistararitgerð Írisar Bjargar Kristjánsdóttur (2010) í mannfræði
þar sem fjallað er um lög um útlendinga frá mannfræðilegu sjónar-
horni á tímabilinu 1920–2009. Í síðarnefndu ritgerðinni er fjallað
um lög, lagatúlkun og lagabreytingar á tæplega níutíu ára tímabili og
um stjórnsýslu málaflokksins. Þar er m.a. sýnt að með setningu
heildarlaga um útlendinga og um atvinnuréttindi útlendinga árið
2002 færðist orðræðan frá hugmyndum um „útlendingaeftirlit“ yfir
á atvinnu- og efnahagsmál. Jafnframt kemur þar fram að árið 2005,
þegar stækkun Evrópska efnahagssvæðisins vegna aðildar tíu nýrra
ríkja að ESB var fram undan, voru reistar auknar skorður við dvöl
og atvinnu fólks frá löndum utan EES á Íslandi. Þetta hafi ekki
komið til vegna lagabreytinga heldur hafi framkvæmd laganna
breyst og túlkun þeirra verið hert gagnvart íbúum utan EES.4
412 halla gunnarsdóttir skírnir
4 Árið 2004 urðu 10 ný ríki aðilar að Evrópusambandinu. Frjáls för launafólks frá
átta ríkjanna (Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Póllandi, Slóvaíku, Slóveníu, Tékk-
landi og Ungverjalandi) tók ekki gildi fyrr en tveimur árum síðar, 1. maí 2006. Í
millitíðinni var íbúum þessara ríkja veittur forgangur vegna umsókna um at-
vinnuleyfi hér á landi (Alþingistíðindi (Alþt.) 2005-2006, 132. lögþ. A. 771. mál).
Skírnir Haust 2014 umbrot.qxp_Layout 1 6.10.2014 13:19 Page 412