Saga - 2010, Síða 37
eða endurheimta hreinleika sálarlífsins. ekki síst í sögu Vesturlanda
verður þessi tvíhyggja hins ytra og innra — hins líkamlega yfirborðs
og hins undirliggjandi sálarlífs — mikilvæg, og bregður Smith upp
skemmtilegri mynd af því hversu vægi þessara tveggja viðfanga
hreinsunarinnar var mismikið frá einum tíma til annars og frá einu
samfélagi til annars eftir því hvernig vindar trúarlífs, siðferðis og vís-
inda blésu.
Markmið bókarinnar er að skýra og skilja hvernig viðhorfin í
okkar hnattvædda samtíma eru sögulega mótuð á grundvelli fjöl-
breytts skilnings á því í hverju hreinleiki er fólginn. Hún skoðar því
hvernig hugmyndafræði, trúarbrögð, þekking og tæknilegar út -
færslur hafa skapað og skilyrt þá háttsemi sem á einn eða annan hátt
hefur stefnt að því að bæta einstaklinginn með því að gera hann
hreinan á sál og/eða líkama. Að þessu leyti er bókin skrifuð undir
jákvæðum formerkjum, fjallar um viljann til hreinsunar og hreinlæt-
is í stað þess að draga fram framandleika fortíðarinnar sem skítugr-
ar og illa þefjandi, eins og til dæmis Alain Corbin gerði í mikilvægri
bók sinni um sögu fnyksins á átjándu og nítjándu öld.2 Hér er þó
ekki heldur skrifað í anda framfarahyggju, sem þó hefði legið beint
við svo sem í ljósi vaxandi þekkingar í lífvísindum — til að mynda á
sambandi óþrifnaðar og sýkinga. Raunar gerir Smith sér sérstakt far
um að hefja frásögn sína upp úr móti framfarasögunnar og er það að
mínu mati einn helsti styrkur bókarinnar. Með því er blæbrigðum
sögunnar og hinum ólíku þráðum hennar gefinn ríkulegri gaumur
en ella þegar höfundur leiðir lesendur um fjölskrúðugt safn ýmis-
konar leiðbeiningarrita um heimilishald, meinlæti, snyrtifræði,
siðferðilegt uppeldi barna og heilsufræði; fræðilegra skrifa um heim-
speki, læknisfræði, líffræði, sálarfræði og trúarbrögð; um hönnunar-
sögu nærklæða, snyrtivara, baða og pípulagna og um margháttað
samband siðferðis, siða og tækni. Afstæðið til ágætis tiltekins hátta-
lags við böðun, fegrun og hreinsun líkamans eða umbóta sálarlífsins
nær þá líka til samtímans og varpar þannig framandi ljósi á útfærslu
okkar á hreinleikaþránni, sem við erum með einum eða öðrum hætti
gagntekin af.
Ólafur Rastrick
góð saga 37
2 Alain Corbin, Le miasme et la jonquille. L’odorat et l’imaginaire social aux XVIIIe et
XIXe siècles (París: Flammarion 1982), ensk þýð.: The Foul and the Fragrant: Odor
and the French Social Imagination (Cambridge: Harvard University Press 1986).
Saga haust 2010 — NOTA (9.5.)_Saga haust 2004 - NOTA 8.12.2010 11:05 Page 37