Saga - 2010, Page 103
skreiðin á skriðu 103
Fljótsdælir þá með skreiðina að Skriðu ef rétt er að stórfiskurinn sé
kominn úr Borgarhöfn í Suðursveit en ekki af Fjörðunum? Þar koma
nokkrir möguleikar til greina.
Alkunna er að vermenn að norðan og austan sóttu suður fyrir
land á vetrarvertíð. Þar var mestan afla að fá og mest að hafa af stór-
um gönguþorski, sem og ýsu og löngu. Fyrir vermenn á vegum
Skriðuklausturs hefur verið hægast að sækja til útróðra á vetrarvertíð
úr Suðursveit og þeir vafalaust róið úr Hálsahöfn, eign klaustursins
að þremur fjórðu hlutum. Vegalengdin milli Skriðu og Hálsa hafnar
er ríflega 80 kílómetrar ef miðað er við beina loftlínu — en Vatna -
jökull er á milli. Vitað er að Norðlendingar fóru til sjóróðra í Suður -
sveit um Lónsöræfi austan jökulsins, og þar eru til dæmis Norð -
lingavöð á tveimur stöðum.28 Norðlingalægð heitir einnig svæðið
upp af kálfafellsfjöllum, vestan Breiðubungu í austanverðum Vatna -
jökli.29
Sveinn Pálsson landlæknir hafði undir lok 18. aldar spurnir af
leið úr Múlasýslu yfir jökulinn til Hornafjarðar. Hann segir í Ferða -
bók sinni: „Suður og uppaf upptökum Jökulár verður allt í einu
slakki mikill í jökulinn, og þar yfir hafa menn sennilega lagt leið sína
úr Múlasýslu til fiskveiða í Hornafirði og þaðan á hinn bóginn
norður að Snæfelli til að sækja fjallagrös.“30 Í Jöklariti sínu segir
Sveinn að farið hafi verið „suðvestur yfir lágjökulinn að Hálsatindi,
sem er hátt fjall sunnan í jöklinum, upp af prestssetrinu kálfafelli í
Hornafirði.31
Þegar Árni Magnússon var í Suðursveit laust eftir aldamótin
1700 var honum sagt að farið hefði verið upp úr Hoffellsdal ofan
Hornafjarðar og þaðan yfir fjalllendið meðfram skriðjöklunum aust-
ur úr Vatnajökli og komið niður í Fljótsdal suður. Árni hefur skráð
hjá sér þessa heimild og segir að um 1640 hafi vegurinn yfir á
Fljótsdalshérað lokast vegna jökla. Samkvæmt honum á hann að
„…hafa verið gild dagsferð og ei meir“.32 Þorvaldur Thoroddsen
jarðfræðingur þekkti til þessarar frásagnar og skrifaði einnig um
28 Hjörleifur Guttormsson, „Við rætur Vatnajökuls“, Árbók Ferðafélags Íslands 1993,
bls. 213. Sjá einnig Örnefnaskrá Stafafells og Brekku, Bæjarhreppi.
29 Helgi Björnsson, Jöklar á Íslandi (Reykjavík: Opna 2009), bls. 231.
30 Ferðabók Sveins Pálssonar: Dagbækur og ritgerðir 1791–1797. Jón eyþórsson bjó til
prentunar (Reykjavík: Snælandsútgáfan 1945), bls. 384.
31 Ferðabók Sveins Pálssonar, bls. 475.
32 Árni Magnússon, Chorographica Islandica. Safn til sögu Íslands og íslenskra bók-
mennta. II fl., I.2 (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag 1953), bls. 16.
Saga haust 2010 — NOTA (9.5.)_Saga haust 2004 - NOTA 8.12.2010 11:05 Page 103