Saga - 2010, Side 122
Sem kunnugt er voru fyrstu áratugir tuttugustu aldar hér á landi
hápunktur sjálfstæðisstjórnmála, þjóðlegrar menningarsóknar og
þjóðernislegrar túlkunar í íslenskri sagnfræði. endurskoðunar menn -
irnir þrír voru allir riðnir við þessa þróun, hver með sínum hætti.
Jón Þorkelsson, fyrsti forseti Sögufélags 1902 til dauðadags, sat á
Alþingi þegar sjálfstæðisstjórnmálin voru í algleymingi. Tryggvi
Þórhallsson var sonur Þórhalls Bjarnarsonar biskups; á sínum yngri
árum var Tryggvi í forystu ungmennafélagssamtaka og kringum
1930 var hann forsætisráðherra landsins á vegum Fram sóknar -
flokks ins.41 Páll eggert hafði ekki jafn bein afskipti af stjórnmálum
og hinir tveir, en sem fræðimaður var hann eindreginn túlkandi
þjóðernislegra sjónarmiða í íslenskri sagnfræði.42 Umfjöllun hans
um siðaskiptatímann litaðist jafnframt á köflum af and-lútherskum
viðhorfum.43
Í því máli sem hér er rakið gaf áætluð tímasetning á dauðsfalli
Ögmundar biskups endurskoðunarmönnunum þremur tilefni til
þess að hafna hefðbundinni frásögn af þessum atburði og efna til
nýrrar lýsingar á rás hans — lýsingar sem undirstrikaði illa meðferð
danskra konungsmanna á hinum herleidda biskupi og hvernig þeir
hefðu hagrætt sannleikanum um raunveruleg örlög hans. Tæpum
fjórum öldum eftir að atburðurinn átti sér stað bjuggu endur -
skoðunarmennirnir þannig til nýja, áður óþekkta „versjón“ sem
samrýmdist hugmyndaheimi þeirra, almennum viðhorfum og vild.
Þessi nýja frásögn stóð óhögguð að kalla svo lengi sem þjóðernis-
hyggja var ráðandi sjónarhorn í íslenskri sagnfræði.
Endurskoðunarstefnan í kennslubókum
Vert er að athuga hvernig endurskoðunarstefnan birtist í kennslu-
bókum í Íslandssögu sem komu út á fyrri helmingi tuttugustu aldar.
Í fyrstu útgáfu af kennslubókum Jóns J. Aðils og Jónasar Jónssonar
frá Hriflu, sem komu út 1915–1916, er eðlilega fylgt gömlu frásögn-
loftur guttormsson122
41 Þorkell Jóhannesson, „Tryggvi Þórhallsson“, Andvari 64 (1939), bls. 3–27.
42 Sjá Gunnar karlsson, „Sagan af þjóðríkismyndun Íslendinga 1830–1944“, Saga
38 (2000), bls. 109–134, hér bls. 111–115 og Guðmundur Hálfdanarson,
„Rannsóknir í menningar- og hugmyndasögu 19. og 20. aldar“, Saga XXXVIII
(2000), bls. 187–205, hér bls. 188–192.
43 Sjá Páll eggert Ólason, Menn og menntir á Íslandi á siðskiptaöld. 1. b. Jón Arason
(Reykjavík: Bókaverzlun Guðm. Gamalíelssonar 1919), bls. 445–454.
Saga haust 2010 — NOTA (9.5.)_Saga haust 2004 - NOTA 8.12.2010 11:05 Page 122