Saga - 2010, Page 200
Undir vernd hans sungu múhameðsk skáldmenni gríska óði til
dýrðar óviðjafnanlegum ódæðisverkum kúgarans.
en brátt fór soldáninum að standa beygur af veldi pasjans í
Jannína. Múhameð II. reyndi að draga úr valdi hans, því honum var
ljóst að fyrir Alí vakti að stofna sjálfstætt ríki og slíta Grikkland úr
tengslum við Miklagarð. en Alí var fastur fyrir, og soldáninn vildi
ekki leggja út í stríð að tilefnislausu. en tilefnið gafst óðar en varði.
Alí hafði í þjónustu sinni ættingja að nafni Ísmael Pasjó, sem flúði til
Miklagarðs þegar hann fór að óttast um líf sitt. Þar komst hann til
metorða og varð handgenginn soldáni. Árið 1820 sendi Alí þrjá
albanska launmorðingja til Miklagarðs að ráða hann af dögum. Þeir
voru gripnir, áður en þeir kæmu áformi sínu í framkvæmd, og
ljóstruðu upp um launráð Alís.
Nú var mælirinn fullur og soldáninn sendi her á hendur Alí und-
ir stjórn Ísmaels Pasjós. Alí lagði til orustu öruggum huga, en komst
brátt að raun um að fylgið var valt. Við fyrsta tækifæri hlupust jafn-
vel synir hans undan merkjum, herforingjarnir gengu Tyrkjum á
hönd og liðsveitirnar, sem Alí hafði stjórnað með harðri hendi,
vörpuðu af sér okinu. eftir stóð Alí með 4.000 menn í kastala sínum
í Jannína, umkringdur hersveitum Tyrkjaveldis. Hann hafði nú tvo
um áttrætt, en lét sig hvergi. Þegar sýnt var að kastalanum yrði ekki
haldið, hélt hann með lið sitt til eyjarinnar á stöðuvatninu og reyndi
að sprengja kastalann í loft upp. eyjan var svikin í hendur fjand-
mönnunum og þeir brutust inn í húsið þar sem Alí hafði komið sér
fyrir. Hann varðist hraustlega á efri hæð hússins, en Tyrkir létu skot-
um rigna upp gegnum gólfið. eitt þeirra hæfði hann í nárann, og
hann gaf upp öndina með miklum kvölum, spúandi hótunum og
formælingum allt fram í andlátið. Þannig lauk einhver þekktasti
grimmdarseggur sögunnar ókræsilegum æviferli.
Höfuð Alís var sent til Miklagarðs, þar sem það var haft til sýnis,
og nokkrum vikum síðar komu höfuð sona hans og sonarsonar sem
sett voru á stall við hliðina á höfði Alís, áður en þau voru grafin.
Synirnir voru lítilmenni og áttu fátt sammerkt með föðurnum nema
grimmdina og taumlaust siðleysið. Múktar var kunnastur fyrir
nauðganir á götum Jannína um hábjartan daginn, en Velí átti stærsta
klámbókasafn í Austurlöndum.
Sögulegt gildi Alís er tvímælalaust það að hann var óbeint vald-
ur að frelsisstríði Grikkja, sem hófst um svipað leyti og yfir lauk
með honum og Ósmönum.
sigurður a. magnússon200
Saga haust 2010 — NOTA (9.5.)_Saga haust 2004 - NOTA 8.12.2010 11:06 Page 200