Saga - 2010, Qupperneq 242
1366 til 1600 og fer þeim fjölgandi eftir því sem líður á tímabilið (472–87; sbr.
59). kaupmálar eru þungamiðja rannsóknarinnar og á þeim byggir Agnes
margvíslegar ályktanir sínar, sumar vænlegri en aðrar.
Bókin er mikil að vöxtum; pappír er þykkur og vandað til verka í alla
staði. Lesmál nemur fjögur hundruð blaðsíðum. Í inngangi er markmiðum
lýst og kennilegum viðmiðum erlendis frá. Jafnframt eru skilgreind helstu
hugtök og þau tengd við íslenskan raunveruleika, svo sem það að hér hafi
hjónabönd verið bilateral í þeim skilningi að eignir fluttust til nýbakaðra
hjóna jafnt frá foreldrum brúðguma sem brúðar (31–32). Fáein hugtök, svo
sem social bonding, hefði mátt útskýra á sama hátt (209), en á heildina litið
tekst þetta vel og auðveldar lesendum að skilja síðari umræðu, sem oft er
nokkuð smátt skorin og jafnvel óþarflega nákvæm. Að loknu yfirliti yfir
íslenskt samfélag á miðöldum (45–52), sem er nauðsynlegt fyrir útlenda les-
endur, er lýst helstu heimildum um viðfangsefnið og rakin vandkvæði við
notkun þeirra (52–62). Þá er almennum kirkjurétti miðalda lýst og því atriði
í honum sem mestu ræður í þessari bók, nefnilega áðurnefndri hugmynd
kirkjunnar að hjónaefni ættu bæði að samþykkja ráðahaginn. Að öðrum
kosti taldist gifting ekki lögmæt (67–73). Þetta var róttæk breyting, segir
Agnes, og varð þess valdandi að kirkjan náði betri tökum á hjónabandinu
en áður var, en það aftur olli breytingum á fjölskyldugerð og samskiptum
kynjanna (73–74). Farið er vandlega yfir íslenska og norska löggjöf um þetta
atriði og hyggileg áhersla lögð á samstarf veraldlegra og kennilegra ráða -
manna fremur en andstöðu og átök (82–109). ekki hefði sakað að efast ögn
um tímasetningar í útgáfu fornbréfasafns, til dæmis á svonefndri skipan
Árna Þorlákssonar sem útgefendur setja til fyrsta embættisárs hans (1269)
án rökstuðnings (87–88, 93–94; sbr. Íslenskt fornbréfasafn II. Útgefandi Jón
Þorláksson. kaupmannahöfn 1893, bls. 23).
Í næstu köflum tekur Agnes fyrir ólíka þætti hjónabandsins, svo sem
skilgreiningu hjónabandsins, þekkingu almennings á lögum, giftingar -
athöfn ina sjálfa, kaupmálagerð og orðanotkun í þeim skjölum, umráð eigna,
gjafaskipti og erfðir. Þessa þætti skoðar hún frá ýmsum sjónarhornum, sem
er snjöll ráðstöfun að því leyti til að lesandi fer hringinn í kringum rann-
sóknarefnið og sér eitthvað ferskt í hverjum kafla. Á móti kemur að aðferðin
veldur því að nokkuð er um endurtekningar; sumar eru reyndar óhjá -
kvæmi legar en aðrar hefði mátt forðast með því að haga uppröðun efnis
með öðrum hætti. eins hefði mátt þétta umræðu um einstök dómsmál, sem
stundum verða lítið annað en upptalning eða dæmasöfn (til dæmis 161–63,
171–74, 177, 212, 262, 396). Þetta ráða fræðaþyrstir lesendur þó við og vel er
þess virði að brjótast í gegnum textann þótt stundum sé hann torsóttur (og
ég bæti því við innan sviga að enskan er ekki alltaf nógu góð).
Fjöldi skarplegra athugana er í þessari bók, til dæmis um pólitískan mun
á tveimur tegundum kaupmála — nefnilega „mála“ annars vegar og „helm-
ingafélags“ hins vegar (325), eins þegar greind eru yfirráð eiginmanna yfir
ritdómar242
Saga haust 2010 — NOTA (9.5.)_Saga haust 2004 - NOTA 8.12.2010 11:06 Page 242